Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 7

Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 7
7Bændablaðið | Fimmtudagur 24. janúar 2013 að fór eins og Einar Kolbeinsson óttaðist: „Að líklega verði lengst af þörf / á leiðréttingaþætti“. Það gerist nefnilega þörf á leiðréttingu að höfundi hinnar landfleygu vísu „Hans var jafnan höndin treg“. Í góðri trú eignaði ég Hannesi Guðmundssyni á Fitjum vísuna. Studdist meðal annars við að ég hélt trausta heimild Sigurðar Jónssonar frá Haukagili. En óræka heimild fékk ég í hendur frá Hjálmari Styrkárssyni og einnig Árna Björnssyni þjóðháttafræðingi. Báðir eru þeir ættaðir og uppfóstraðir í Dölum vestur. Þar tilgreina þeir með óyggjandi hætti að vísuna hafi ort Bjarni Gíslason. Bjarni var fæddur árið 1880 í Holtskoti í Skagafirði en gerðist ráðsmaður og síðar bóndi á Harrastöðum í Miðdölum og var löngum kenndur við þann bæ. Samkvæmt heimild Hjálmars Styrkárssonar orti Bjarni vísuna um Guðmund Ikaboðsson, þá bónda í Skörðum Miðdölum. Eftir Bjarna lifir nefnilega önnur vísa, tvíburasystir hinnar, um þann sama Guðmund í Skörðum: Sat hann jafnan sinn við keip, með samninga í gjörðum. Enginn sótti gull í greip Guðmundar í Skörðum. Ekki leynir sér heldur ættarmót Bjarna í vísunni sem hann orti um annan sveitunga sinn, Ólaf Jóhannesson á Stóra-Skógi: Beitti fram á elliár undirhyggju og rógi, öfundsjúkur og aurasár Ólafur í Skógi. Eitt af þeim bréfum sem mér bárust vegna misgjörða minna sem að ofan greinir var frá Dagbjarti Dagbjartssyni á Hrísum. Dagbjartur reyndist betur vitandi en ég um höfundinn Bjarna Gíslason og sendi mér vísu, reyndar ófeðraða, sem ort var um Bjarna Gíslason frá Harrastöðum: Átti góðan gæðinginn, glaður reið á hjarni. Hirti vel um hestinn sinn Harrastaða Bjarni. Vænt þætti mér um ef lesendur þekkja höfund að þessari vísu. En vonandi verður eftirleiðis þessi gagnmerka heimild Hjálmars Styrkárssonar og fleiri manna til þess að hvergi framar verði misfarið með höfund vísunnar: „Hans var jafnan.. o.s.frv.“ Það er svo sem ekki óþekkt að ranglega sé farið með faðerni að vísum. Sigurbjörn Stefánsson var útvarpshlustendum að góðu kunnur fyrir ágæta vísnaþætti. Eitthvert sinn fór hann með vísu sem hann taldi eftir Baldur á Ófeigsstöðum en reyndist vera úr smiðju Jóns Bjarnasonar í Garðsvík. Þá kvað Jón: Þekkist enn á okkar jörð ófrjálst takið sauða, inn í Baldurs björtu hjörð barst þú lamb hins snauða. Höskuldur Einarsson frá Vatnshorni sendi nokkrum vina sinna forkunnargóða mynd af einum sinna góðu gæðinga. Á bakhliðinni var þessi vísa: Þegar endar æviskeið opnast vegir þráðir. Hinum megin heim á leið höldum við þá báðir. Umsjón: Árni Geirhjörtur Jónsson kotabyggd1@gmail.com Í umræðunni MÆLT AF MUNNI FRAM Þ Ný prentmiðlakönnun Capacent: 31% landsmanna les Bændablaðið Bændablaðið með 51% lestur á landsbyggðinni – útgefandi hyggur á aukna dreifingu í matvöruverslunum Endurmenntun LbhÍ stendur fyrir tveggja ára námi í reiðmennsku, svokölluðum Reiðmanni, sem hægt er að taka samhliða námi eða starfi. Á þessum vetri eru sjö hópar í gangi; á Hellu, Flúðum, Selfossi, Miðfossum, Akureyri og tveir í Víðidal í Reykjavík. Fyrir hverja önn er haldinn samræmingarfundur með reiðkennurum námsins, þar sem farið er yfir liðna önn og starf næstu annar samræmt. Að þessu sinni var líka boðið upp á örnámskeið með Sverri Guðjónssyni, kontratenór og sérfræðingi í Alexandertækni. Sverrir tók þriggja ára nám í Alexandertækni hjá North London Teachers´ Training School og er með kennararéttindi í þeim fræðum. Í grunninn byggir tæknin á því að uppgötva og greina vana- og spennumynstur líkama og hugar. Jafnframt að hafa meiri stjórn á öndun og orkuflæði. Með tækninni má hafa jákvæð áhrif á eigin framkomu, líkams- og raddbeitingu, sjálfsöryggi og tilfinningar annarra í garð viðkomandi, auk þess að draga úr spennu í vöðvum og liðum. Aðferðin hefur aðallega þróast meðal sviðslistafólks, t.d. leikara, söngvara og hljóðfæraleikara, þó að í grunninn tengist hún fyrst og fremst verkefnum daglegs lífs. Alexandertækni er ekki meðferðartækni, heldur kennsluaðferð, þar sem samspil og opið flæði í gegnum bak, háls og höfuð gegnir lykilhlutverki. Erlendis hafa þessi fræði verið sett fram í tengslum við reiðkennslu og reiðlist, þar sem mikilvægt er að knapi sitji rétt, sé ekki með spennu í liðum og vöðvum og kunni að slaka á án þess að líkamsstaðan breytist. Hross eru mjög næm á fólk, hvort sem unnið er við hendi eða á baki. Ef einstaklingur er að vinna með hest í hringgerði, hokinn í herðum, niðurlútur og gengur allt að því eftir hestinum, er mikil hætta á að hesturinn virði engar ábendingar. Aftur á móti ef viðkomandi réttir úr sér, rétt eins og hann ætli að hefja upp raust sína, og ber höfuð hátt eru mun meiri líkur á því að hesturinn taki eftir ábendingum og virði þær. Ákveðni í öllum ábendingum og stefnuvirk hugsun skiptir máli. Með Alexandertækni geta knapar fundið leið til að draga úr spennu í liðum og þar með gefið markvissari ábendingar. Með betri stjórnun á öndun geta þeir haft áhrif á hrossið – stutt og ör öndun hvetur og getur stressað hest en djúp og róleg öndun getur róað. Í þessu samhengi spegla hestur og reiðmaður hvorn annan. Rétt eins og söngvarar þurfa reiðkennarar að hugsa um og þjálfa verkfæri sitt – röddina. Örnámskeiðið vakti áhuga og umræður um þennan vinkil á notkun Alexandertækninnar. Allir sem hafa áhuga á að kynna sér samspil tækninnar og reiðmennsku ættu að leita á vefnum, því þar er töluvert efni að finna. Námskeið fyrir reiðkennara hafa jafnframt verið í boði í Evrópu, m.a. í Þýskalandi og Póllandi. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér Alexandertæknina almennt geta leitað til Sverris Guðjónssonar hjá Art Centrum – artcentrum@ centrum.is Ásdís Helga Bjarnadóttir Verkefnisstjóri Endurmenntunar LbhÍ Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands: Örnámskeið í Alexandertækni, reiðkennsla og reiðlist Hluti kennara í „Reiðmanninum“, talið frá vinstri; Ísleifur Jónasson, Reynir Örn Pálmason, Gunnar Reynisson, Þórdís Erla Gunnarsdóttir, Heimir Gunnarsson, Sverrir Guðjónsson, Anna S. Valdimarsdóttir og Ásdís Helga Bjarnadóttir. Landsbyggðin: Niðurstöður byggðar á 5.729 svörum. Könnunartími okt. – des. 2012. Heimild: Capacent Meðallestur á prentmiðlum – Landsbyggðin Meðallestur á prentmiðlum – Landið allt Landið allt: Niðurstöður byggðar á 15.778 svörum. Könnunartími okt. – des. 2012. Heimild: Capacent Bændablaðið tók í fyrsta skipti þátt í stóru prentmiðlakönnun Capacent á síðasta ársfjórðungi. Helstu niðurstöður eru þær að Bændablaðið er með 31% meðallestur yfir landið allt, algjöra yfirburði á landsbyggðinni með 51% lestur og tæp 20% á höfuðborgarsvæðinu. Úrtakið er Íslendingar á aldrinum 12-80 ára af landinu öllu. Karlar eru líklegri en konur til að lesa málgagn bænda, en samkvæmt mælingum Capacent lesa 36,6% íslenskra karlmanna Bændablaðið. Rúmur fjórðungur kvenna, eða 25,5%, segist lesa blaðið. Ef einungis er horft til landsbyggðarinnar eru tölurnar hærri – 57% karla og 44% kvenna lesa Bændablaðið að staðaldri. Aldursdreifing góð Þegar horft er til aldurssamsetningar lesendahóps Bændablaðsins kemur í ljós að 48% landsmanna 60 ára og eldri lesa blaðið, 45% á milli 50-59 ára, 33% milli 40-49 ára og 27,5% á aldrinum 30-39 ára. Athygli vekur að 11,2% barna og ungmenna á aldrinum 12-19 ára lesa Bændablaðið. Enn meiri dreifing fram undan Að sögn Tjörva Bjarnasonar, sem stýrir útgáfu Bændablaðsins, verða niðurstöðurnar notaðar í áframhaldandi markaðssókn. „Þessar jákvæðu tölur gefa okkur byr undir báða vængi en líka vísbendingar um hvar við getum bætt okkur. Á næstu vikum munum við kynna aukna dreifingu innan höfuðborgarsvæðisins sem mun vafalaust auka lesturinn enn frekar í höfuðstaðnum. Nýlega bættust Nóatún og Kjarval við hóp matvöruverslana sem dreifa Bændablaðinu, en sú dreifing hefur mikið að segja fyrir okkur,“ segir Tjörvi.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.