Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 6

Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 24. janúar 2013 Málgagn bænda og landsbyggðar LOKAORÐIN Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjöl margra annarra er tengjast land búnaði. Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu. Árgangurinn kostar kr. 6.900 en sjötugir og eldri og lífeyrisþegar greiða kr. 3.450. Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300– Fax: 562 3058 – Kt: 631294-2279 Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 Blaðamenn: Erla H. Gunnarsdóttir ehg@bondi.is Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Freyr Rögnvaldsson fr@bondi.is – Sigurður M. Harðarson smh@bondi.is Auglýsingastjóri: Eiríkur Helgason eh@bondi.is – Sími: 563 0303 – Myndvinnsla og frágangur: Prentsnið ehf. Netfang blaðsins (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Netfang auglýsinga er augl@bondi.is Vefsíða blaðsins er www.bbl.is Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Landsprent og Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins. ISSN 1025-5621 Að kreista mjólk úr steinum LEIÐARINN Það er engum blöðum um það að fletta að íslenskur landbúnaður á mikla möguleika til þróunar og uppbyggingar þjóðinni til hagsbóta. Allt er það þó háð því hvernig við sjálf höldum á spilunum. Á undanförnum misserum hefur talsvert verið rætt um þá möguleika sem felast í aukinni kornrækt hér á landi. Þar sé hægt að spara umtalsverðan gjaldeyri með því að innlent korn komi í stað innflutnings. Á undanförnum árum hafa menn ekki síst horft á að nýta raforku til þurrkunar á aukinni kornuppskeru. Þar kunna þó að vera blikur á lofti. Á undanförnum misserum hefur Landsvirkjun af vaxandi þunga rekið áróður fyrir nauðsyn þess að leggja sæstreng til Skotlands til að selja þangað orku á uppsprengdu verði. Í fyrstu var talað um að með þessu ætti aðeins að koma ónýtri umframorku í raforkukerfinu í verð. Smám saman er að koma í ljós að sannleikurinn er allt annar. Ljóst er að andstaða við lagningu sæstrengs er mikil í röðum bænda. Garðyrkjubændur hafa ályktað harðlega um þetta vegna þeirrar einföldu staðreyndar að raforkusala um sæstreng mun stórhækka orkuverð til íslenskra neytenda og gera út af við ylræktina. Fleiri bændur hafa tekið í sama streng, sem og fólk á landsbyggðinni sem býr nú þegar við óheyrilegan kyndingarkostnað. Landsvirkjun hefur áttað sig á þessu og reynir nú að sundra samstöðu gagnrýnenda. Veifað er þeirri gulrót framan í bændur að þeir geti stórgrætt á orkusölu um sæstreng með því að virkjað hverja smásprænuna af annarri. Ekki er minnst einu orði á að allur sá fjöldi bænda og almenningur sem ekki býr við eigin virkjunarmöguleika þurfi að súpa seyðið af kostnaðarhækkun raforku vegna sæstrengstengingar. Fróðlegt er að skoða þetta í ljósi frétta í breskum fjölmiðlum um síðustu helgi. Þar hafa menn nú búið til nýtt hugtak, „fuel poverty“ eða eldsneytisfátækt, sem er afleiðing af stöðugt hækkandi orkuverði. Í Mail Online er þetta kallað þjóðarskömm og að orkumálaráðherra landsins viðurkenni að nú þegar eyði 6 milljónir manna meiru en 10% af tekjum sínum í hitunarkostnað. Árið 2016 verði þessi fjöldi kominn í 9 milljónir. Sjónvarpsstöðvar greindu svo frá því að víða um Bretland reyndi fólk nú að þjappa sér saman í eitt herbergi í íbúðum sínum því fjölskyldurnar hefðu ekki efni á að kynda fleiri herbergi. Er þetta sá veruleiki sem við viljum innleiða á Íslandi? /HKr. Alþingi ákvað með samþykkt fjárlaga fyrir árið 2013 að hlutafélagið Rarik, sem er opinbert hlutafélag að fullu í eigu ríkisins, skyldi greiða ríkissjóði 300 milljónir í arð. Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik, var í viðtali í fréttatíma hjá Ríkisútvarpinu 18. janúar sl. Hann sagði þessa fjármuni ekki liggja á lausu hjá fyrirtækinu og við því þyrfti að bregðast. Á vefnum ruv.is var þessi texti þar sem vitnað var í Tryggva: „Það þýðir að við þurfum að skuldsetja okkur til viðbótar, auka tekjurnar, eða minnka framkvæmdir. Ef um er að ræða að auka tekjur með því að hækka gjaldskrá, þá er staðan sú að við höfum fullnýtt okkar tekjuheimildir í þéttbýli, en höfum haldið aftur af okkur í dreifbýli, það er að segja í sveitunum. Þannig að kæmi til hækkunar myndi það bitna á því.“ Tryggvi sagði jafnframt í útvarpsfréttinni að yrði sú leið farin að draga úr fjárfestingum myndi það bitna á endurnýjun dreifikerfisins. Það væri komið til ára sinna og verulegir fjármunir væru settir í endurnýjun ár hvert. Meðal annars væri verið að koma rafmagni í auknum mæli í jörð. En hann lagði áherslu á að um þetta allt ríkti nokkur óvissa. Þó að þessi krafa um arðgreiðslur birtist í fjárlögum lægi ekki fyrir stjórnarsamþykkt þar um. Sambærileg skattlagning er á rekstur Orkubús Vestfjarða. Nú skal ekki efast um þann vanda sem ríkissjóður stendur frammi fyrir og erfiðleikan við að afla fjármuna til að standa undir útgjöldum hans. En fyrr má nú vera. Fyrir það fyrsta kynntust landsmenn því í síðustu viku gamla ársins hvað dreifikerfi raforkunnar er í slæmu ástandi. Bæir voru dögum saman án rafmagns. Stórskemmdir urðu á raflínum fyrir vestan og haustóveðrið á Norðurlandi tók líka sinn toll. Í síðasta Bændablaði var viðtal við Árna Brynjólfsson, bónda á Vöðlum og stjórnarmann í Orkubúi Vestfjarða. Þar fór Árni yfir stöðu rafmagnsmála á Vestfjörðum, sem er víða bágborin. Var Alþingi ókunnugt um fjárhagsstöðu Rarik þegar fjárlög voru til umfjöllunar? Ekki er hægt að túlka orð forstjórans með öðrum hætti. Hann segir að fyrirtækið þurfi að taka lán til að greiða arð. Er sama vitleysan þá byrjuð aftur? Hefur ríkjandi stjórnvöldum tekist að koma gamla góða Íslandi aftur á legg – núna innan opinbera geirans? Hvaða arð er verið að taka, er hann fjármagnaður með láni? Á mektarárum fjármálasnillinganna þóttu það „eðlilegir starfshættir“ að taka lán fyrir arðgreiðslum til eigenda. Er svo komið fyrir okkur að stjórnvöld ætla að skuldsetja þjónustu- fyrirtæki landsbyggðarinnar með þessum hætti? Er einhvern tímann réttlætanlegt að taka fjármuni út sem arðgreiðslur, úr fyrirtækjum sem eru hluti af innviðum samfélagsins? Bændasamtök Íslands hafa á undanförnum árum látið sig varða raforkuverð og raforkudreifingu í sveitum. Samtök garðyrkjubænda hafa verið ötulir baráttumenn í að vekja máls á umbúnaði raforkusölu, sem mætir illa hagsmunum stórnotenda eins og ylræktendum. Stórhækkaður kostnaður við dreifingu á raforku hefur íþyngt búskap og búsetu í sveitum. Bændablaðið hefur fjallað sérstaklega um stórkostlegan mismun íbúa landsins á verði á orku til húshitunar. Því skal ekki gleymt hér að segja frá jákvæðu skrefi til jöfnunar í þeim efnum. Alls voru 175 milljónir settar til viðbótar í niðurgreiðslu á rafmagni til húshitunar samkvæmt fjárlögum 2013. Framlagið er hins vegar langt frá því markmiði er jafnar aðstöðu íbúa til húshitunar. Það skelfilega er að boðuð arðtaka hrifsar þá fjármuni alla til baka og mun meira til. Dreifikerfið krefst mikils viðhalds. Við erum að fjarlægjast markmiðin um aukið afhendingaröryggi á rafmagni. Að bæta dreifingu og koma þrífasa tengingum hraðar áfram. Segja má að boðuð arðtaka viðhaldi því að sveitir búi við þriðja flokks þjónustu sem rýrir þau almannagæði sem okkar endurnýjanlega raforka er. Jöfnum kostnað við dreifingu rafmagns í sveitum og bæjum Eigum við að setja þetta aðeins í samhengi við umræðu um þjóðareign á auðlindum – að þjóðin njóti arðs af auðlindinni, er það þá svo að raforkan sé undanþegin? Hvað með jafna stöðu íbúanna? Eins og fram kemur í tilvitnuðum orðum forstjóra Rarik verður að hækka verð á raforku í sveitum til að ná markmiðum um auknar tekjur. Sjónarmið BÍ eru einföld; að ekki sé gerður munur á kostnaði á dreifingu rafmagns í sveitum og bæjum. Það er augljóst að til þess þarf kerfisbreytingar, jafnvel að raforkuverð hækki hjá einhverjum notendum. En þetta er spurning um viðhorf til íbúa landsins. Þetta er þegar gert með dreifingu á öðrum orkugjafa, sem er olía. Ekki er gerður sérstakur kerfisaðskilnaður eða þjóðfélagsaðskilnaður á íbúum þéttbýlis og landsbyggðar í kostnaði við símakerfi landsins. Bændur þekkja vel til þeirrar þjóðfélagslegu jöfnunar sem kemur fram í dreifingu og sölu á mjólk. Gangi fyrirætlanir um töku arðs af Rarik og fleiri svipuð áform fram mega sveitir enn búa við hægagang í endurnýjun á dreifikerfi, lítil gæði rafmagns og mismunun í kostnaði við dreifingu þess. Á sama tíma þykir það þjóðþrifamál að fækka þingmönnum landsbyggðar – til að jafna atkvæðisrétt. Hvernig væri að byrja á því að jafna búsetuskilyrði á Íslandi? Að óbreyttu stefna núverandi stjórnvöld á að kreista mjólk úr steinum – það er ekki gæfulegt. /HB „Eldsneytisfátækt“ Stafræn kort og landupplýsingar í vörslu Landmælinga Íslands voru um áramót gerð gjaldfrjáls, samkvæmt ákvörðun Svandísar Svavars dóttur umhverfis- og auðlindaráðherra. Gögnin eru notuð við ýmis verkefni á vegum stofnana ríkisins, s.s. við eignaskráningu, skipulags mál, náttúru vernd, náttúru vá, orkumál, rannsóknir og opinberar framkvæmdir, en einnig gagnast þau almenningi og fyrir- tækjum með margvíslegum hætti. Markmiðið með því að gera stafræn kort og landupplýsingar gjaldfrjáls er að almenningi á Íslandi sé tryggður greiður aðgangur að upplýsingum um umhverfi og náttúru landsins. Einnig er markmiðið að hvetja til aukinnar notkunnar, úrvinnslu og miðlunar þessara gagna t.d. á sviði ferðaþjónustu, opinberrar stjórnsýslu og í menntakerfinu. Aðgengi að gögnum og upplýsingum hefur aukist verulega með tilkomu internetsins. Dæmi um það er notkun Google-netfyrirtækisins á kortum og landupplýsingum, en fyrir nokkrum árum kynnti það þjónustuvefina Google Earth og Google Maps. Báðar þessar vefsíður byggja að mestu á gjaldfrjálsum gögnum, sem skýrir hversu ónákvæm kort fyrirtækið notar af Íslandi. Stafræn landakort og aðrar opinberar landupplýsingar, s.s. loftmyndir, hafa í auknum mæli verið gerð aðgengileg án gjaldtöku í nágrannalöndunum. Í nýlegri erlendri rannsókn kemur fram að í þeim löndum þar sem opinber kortagögn og landupplýsingar eru án gjaldtöku er vöxtur fyrirtækja sem reiða sig á slík gögn 15% meiri en í þeim löndum þar sem gögnin eru seld. Þá hafa dönsk stjórnvöld bent á að ávinningurinn af því að gera opinber stafræn kort og landupplýsingar gjaldfrjáls sé margfaldur fyrir samfélagið, en það birtist meðal annars í betri og meiri notkun á gögnum og nýsköpun í atvinnulífinu. Landmælingar Íslands hafa þegar gert kortagögnin aðgengileg til niðurhals á vef sínum www.lmi.is án gjaldtöku. Stafræn kort og landupplýsingar gerð gjaldfrjáls

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.