Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 12

Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 12
12 Bændablaðið | Fimmtudagur 24. janúar 2013 Fréttir Jötunn Vélar: Opna útibú á Akureyri Stjórn Jötuns Véla hefur ákveðið að opna útibú á Akureyri í mars næstkomandi og er opnunin liður í að efla þjónustu og færa nær viðskiptavinum Jötuns Véla á norðurlandi. Útibússtjóri á Akureyri verður Hrafn Hrafnsson en fljótlega mun verða auglýst eftir tveimur starfs- mönnum til viðbótar auk þess sem verið er að leita að hentugu húsnæði undir starfsemina. Í útibúinu mun verða starfrækt verslun með breiðu úrvali varahluta og rekstrarvara undir svipuðum formerkjum og er í verslun Jötuns Véla á Selfossi. Viðgerðarþjónusta mun áfram verða í höndum Brimborgar á Akureyri. Jötunn Vélar er innflutnings- fyrirtæki véla og tækja fyrir landbúnað og græn svæði, stofnað árið 2004, og eru höfuðstöðvar þess á Selfossi. Meðal helstu vörumerkja Jötuns Véla eru: Massey Ferguson og Valtra dráttarvélar, Pöttinger og McHale-heyvinnutæki og Schäffer Lader liðléttingar. Starfsmenn Jötuns Véla verða 25 eftir þessar breytingar. Horft til framtíðar í landnotkun og sjálfbærri landýtingu Starfshópur um beitarstjórnun og sjálfbæra landnýtingu skilaði umhverfis- og auðlindaráðherra og atvinnuvega- og nýsköpunar- ráðherra tillögum sínum í fyrri viku. Tillögurnar eru sjö talsins og er í þeim fjallað um ýmis atriði til að vinna að markmiðum um sjálfbæra búfjárbeit, svo og skipulag hennar og annarrar landnýtingar. Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, skipaði starfshópinn í samráði við Steingrím J. Sigfússon atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í september á síðasta ári. Hópnum var annars vegar ætlað að fara yfir stjórn búfjárbeitar í landinu með tilliti til gróðurverndar og sjálfbærrar landnýtingar. Hins vegar átti starfshópurinn að vinna tillögur til ráðherranna með það að markmiði að efla stjórn búfjárbeitar með tilliti til gróður- og jarðvegsverndar, ágangs búfjár og sjálfbærrar landnýtingar. Út úr starfinu kom að hópurinn gerði sjö tillögur. Í fyrsta lagi er lagt til að komið verði á símatskerfi til vöktunar á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda. Í öðru lagi er lagt til að gæðastýring í sauðfjárrækt verði efld sem stjórntæki við sjálfbæra landnýtingu. Í þriðja lagi er lagt til að sjálfbærniviðmið fyrir búfjárbeit verði skoðuð, í fjórða lagi að skipulag og framkvæmdir við girðingar á vegum hins opinbera verði samræmd, í fimmta lagi að unnið verði svæðisbundið að beitarstjórnun og í sjötta lagi að löggjöf er varðar beitarstýringu verði samræmd og uppfærð eftir þörfum. Loks er lagt til að unnar verði tillögur að rammaáætlun um skipulag landnotkunar og sjálfbæra landnýtingu. Starfshópurinn leggur til að vinna við tillögurnar hefjist sem fyrst. Starfshópurinn leggur áherslu á að horft sé til framtíðar þegar fjallað er um málefni landnotkunar og sjálfbærrar landýtingar. Land og gróður er takmörkuð auðlind sem miklu skiptir að sé vel skipulögð og skynsamlega nýtt með sjálfbærni að leiðarljósi. Landnotkun hefur þróast og breyst mikið undanfarin ár eins og öll skipulagsleg umgjörð hennar. Samstarfshópur um beitarstjórnun ásamt umhver s- og auðlindaráðherra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Ýtir undir svæðisbundna matvælaframleiðslu Sigurður Eyþórsson, fram- kvæmda stjóri Landssamtaka sauðfjár bænda, situr í starfshópi á vegum atvinnuvega- og nýsköpunar ráðuneytisins um vernd vöruheita með uppruna- eða staðarvísun. Hópurinn var skipaður í kjölfar ráðstefnu sem haldin var að frumkvæði samtaka mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja í september síðastliðnum. Þar verður litið til lagalegra og alþjóð- legra viðhorfa þegar íslenskar vörur fá landfræðilega tilvísun. Helstu skilyrði fyrir því að vara geti fengið slíka merkingu er að hún hafi landfræðileg tengsl, þar sem heiti hennar þarf að fela í sér tilvísun til ákveðins staðar eða svæðis ,en varan þarf þó ekki að bera heiti staðarins eða svæðisins. Einnig verður varan að hafa ákveðna eiginleika og bera viss gæði sem greina hana frá öðrum vörum sömu tegundar. Heiti vörunnar má ekki vera orðið almennt lýsandi tegundarheiti án tillits til þess hvar hún er framleidd. Sérstaða matvæla „Þetta kemur út frá eftirspurn fólks sem vill vita meira um matinn sem það neytir og er hugsað til að skýra það betur út fyrir neytandanum. Framleiðendur geta með þessu móti sýnt fram á sérstöðu sína og framleiðsluaðferðir á ákveðnum stað og þeir fá staðfestingu á að varan sé klárlega öðruvísi en önnur sambærileg vara. Hluti af reglum í gæðastefnu Evrópusambandsins í landbúnaði fellur undir vernd landfræðilegra merkinga. Þær skiptast niður í þrenns konar merkingar, sem eru vernd upprunatáknunar, vernd landfræðilegrar tilvísunar og trygging hefðbundinnar sérstöðu. Út frá þessum reglum og merkingum hafa Norðmenn unnið til að innleiða verndun landfræðilegra merkinga þar í landi,“ segir Sigurður. Styrkir íslenska framleiðslu Árið 2002 var komið á sérstakri löggjöf í Noregi um vernd landfræði legra merkinga á öðrum landbúnaðarvörum en vínum og sterkum drykkjum. Undir það falla vöruheiti með vernd upprunavísunar, staðar tilvísunar og hefðartryggingu eins og í ESB-kerfinu. Markmiðið með merkingakerfinu í Noregi er að stuðla að fjölbreytni og verðmætasköpun og að ýta undir stað- og svæðisbundna matvælaframleiðslu. „Það er mjög skynsamlegt að taka upp svona kerfi hér á landi og nefndin er sammála um að svo eigi að gera en okkar hlutverk er að koma með tillögur um hvernig eigi að standa að þessu. Við horfum til kerfis sem notað er í Noregi og höfum kynnt okkur löggjöfina þar. Þetta er tiltölulega ungt fyrirbæri í Noregi en þó hafa 19 vörutegundir öðlast þessa vernd og er fróðlegt að sjá þær vörur sem hafa náð þessu en þar má nefna baðstofureykt kjöt, íshafsbleikju, spægipylsu, villisauði og lífræna þykkmjólk sem dæmi. Næsta skref hjá okkur er að smíða tillögur sem við skilum til ráðherra fyrri partinn á þessu ári,“ útskýrir Sigurður og segir jafnframt; „Með því að koma á slíku opinberu kerfi sem menn geta treyst er hægt að styrkja framleiðslu í sessi. Einnig er hugsanlegt að gerður verði gagnkvæmnisamningur við Evrópusambandið varðandi merkingar á íslenskum vörum sem fluttar eru út þangað og eins á evrópskum vörum sem fluttar eru hingað inn.“ /ehg Hér má sjá dæmi um merkjaker sem Norðmenn styðjast við, annars vegar Beskyttede betegnelser sem sannar sérstakan uppruna, tengsl við landsvæði eða sérstakar matarhefðir. Nyt Norge merkir að um norsk matvæli ræði. Hreppsnefnd Ásahrepps hefur samþykkt aðkomu sveitarfélagsins að embætti skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps (BSB) og tók samningur þess efnis gildi nú um áramótin. Það þýðir að BSB mun yfirtaka öll mál er varða skipulags- og byggingarmál Ásahrepps frá þeim tíma með þeim réttindum og skyldum er að því lýtur gagnvart skipulags- og mannvirkjalögum. Ásahreppur greiðir vegna aðildar hinn 1. febrúar 2013 eingreiðslu kr. 3.800.000 til embættisins ásamt greiðslu til Verkfræðiskrifstofu Suðurlands vegna skráningar í Granna. Skipulagsfulltrúi frá 1. janúar 2013 í Ásahreppi verður Pétur Ingi Haraldsson og byggingarfulltrúi Helgi Kjartansson, með aðsetur á skrifstofu embættisins á Laugarvatni. /MHH Ásahreppur, uppsveitir Árnessýslu og Flóahreppur: Sameinast um skipulags- og byggingafulltrúaembætti Baldvin Ari Guðlaugsson var valin knapi ársins hjá Hestamannafélaginu Létti á Akureyri. Hann er öllum hestamönnum kunnur enda hefur hann verið í fremstu röð knapa í áraraðir. Baldvin hefur verið valinn knapi ársins hjá Létti undanfarin ár enda ötull og árangursríkur keppnismaður, segir í tilkynningu frá félaginu. Árið 2012 keppti Baldvin á flestum mótum Léttis, sem og öðrum mótum með mjög góðum árangri. Meðal annars vann Baldvin stiga- keppnina í KEA-mótaröðinni, hann bar sigur úr býtum í tölti og fjórgangi og var í öðru sæti í fimmgangi á vormóti Léttis. Baldvin er fjölhæfur knapi og frábær keppnismaður, segir enn fremur. /MÞÞ Baldvin Ari knapi ársins hjá Létti Baldvin Ari á Öngli frá Efri-Rauðalæk.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.