Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 35

Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 35
35Bændablaðið | Fimmtudagur 24. janúar 2013 Mengandi stóriðja – nei takk Athyglisverður pistill birtist í Morgunblaðinu 14. nóvember síðastliðinn. Þar er greint frá því að stjórn Faxaflóahafna, sem á land það er iðnaðarsvæðið á Grundartanga stendur á, hafi ákveðið að láta gera umhverfisúttekt á svæðinu. Sem kunnugt er eru tvö stóriðjufyrirtæki með starfsemi á Grundartanga, Norðurál og Elkem Ísland, auk margra smærri atvinnufyrirtækja sem þar hafa risið á síðustu árum. Tilgangur úttektarinnar er sagður vera sá að sannreyna þær umhverfismælingar sem þar hafa farið fram og „hvort þær gefa raunsanna mynd af því mengunarálagi, sem nú er vegna starfsemi á Grundartanga. Einnig að skilgreina þolmörk svæðisins miðað við núverandi og væntanlegt mengunarálag með frekari uppbyggingu“. Skipaður hefur verið starfshópur sérfræðinga til að stýra verkefninu. Er starfshópnum meðal annars ætlað að meta hver hugsanleg þolmörk svæðisins séu með tilliti til mengunarþátta og „hvort mengun sé í einhverjum tilvikum komin að þeim mörkum“. Ætlunin er að ljúka verkefninu í mars á næsta ári og kynna þá niðurstöður. Þetta er satt að segja talsverð tíðindi sem koma þó líklega ekki öllum á óvart. Fram kemur í fréttinni að sumir nágrannar Grundartanga í Hvalfjarðarsveit og í Kjós hafi lengi gagnrýnt starfsemina þar vegna mengunar og stækkunar atvinnusvæðisins. Í apríl á liðnu vori birtist grein í Bændablaðinu eftir Ragnheiði Þorgrímsdóttur, bónda að Kúludalsá, skammt vestan stóriðjusvæðisins, þar sem hún greinir frá ókennilegum veikindum í sínum hrossum frá árinu 2007, sem hún telur stafa af flúormengun í gróðri af völdum stóriðjunnar. Lýsir hún baráttu sinni við Matvælastofnun (Mast) og yfirdýralækni vegna þessa máls, sem lítið hafi gert með tilmæli hennar um rannsókn á líffærum úr hinum sjúku hrossum, en látið nægja að mæla flúor í beinsýnum, sem þó hafi sýnt þrefalt meira flúromagn en áætlað landsmeðaltal geri ráð fyrir. Ber hún Matvælastofnun heldur illa söguna. Eitthvað virðist sem umræðan um mengun frá stóriðjunni á Grundartanga sé farin að hafa áhrif, fyrst Faxaflóahafnir sjá nú ástæðu til að fara út í fyrrnefnda úttekt á svæðinu, sem er vissulega góðra gjalda vert. Verður fróðlegt að sjá hvað út úr þeirri úttekt kemur og hvaða áhrif hún mun hafa á frekari starfsemi á Grundartanga. En víkjum nú sögunni austur á Reyðarfjörð. Þar tók sem kunnugt er til starfa risaálver Alcoa árið 2007, sem senda mun 520.000 tonn af koltvísýringi út í andrúmsloftið árlega. Nokkuð er síðan fréttir tóku að berast af því að tekið væri að gæta mengunar í nágrenni álversins, sem er nánast við bæjardyrnar á þéttbýlinu í Reyðarfirði, svo fólk væri jafnvel hikandi við að fara í berjamó á slíkum slóðum. Á liðnu hausti greindi svo RÚV tvívegis frá því að komið hefði í ljós veruleg flúormengun í gróðri í Reyðarfirði, sem búfénaði gæti stafað hætta af og bændur voru í vafa um hvort gætu nýtt heyfang af túnum, sem þó reyndist ástæðulaus ótti er upp var staðið. Umhverfisstofnun var sögð vera að skoða málið og Alcoa gaf þá skýringu á flúornum að „viðvörunarkerfi“ hefði bilað og lofaði bót og betrun. Eitthvað virðist bera hér að sama brunni og á Grundartanga en sá er þó munur á að álverið á Reyðarfirði hefur aðeins starfað í skamman tíma, í fimm ár. Álfyrirtækin reyna eðlilega að gera sem minnst úr mengunaráhrifum, það er þeirra skylda. Norðurál lætur hafa eftir sér í Bændablaðinu hvað snertir flúormengun á Grundartanga að þar sé um einhvern misskilning að ræða, en aukningu flúors þar megi rekja til stækkunar álversins fyrir fimm árum, þegar losun flúors hafi aukist tímabundið. Sú aukning hafi ekki verið umfram það sem heimild var fyrir undir stjórn Umhverfisstofnunar. Þar á bæ var orsökin sögð vera stækkun álversins, en í Reyðarfirði bilun í búnaði. Ég spyr, eru þetta trúverðug rök? Ekki virðast þó allir heimamenn við Hvalfjörð reiðubúnir að samþykkja „misskilninginn“. T.d hefur Bændablaðið í sömu grein eftir Sigurbirni Hjaltasyni, oddvita Kjósarhrepps, að árlegar mælingar á svæðinu sýni „stigvaxandi mengun og að sveitunum nálægt Grundartanga sé margvísleg hætta búin“. Kjarni málsins er sá að mikil mengun berst frá álverum og annarri stóriðju og hún leggur til stærstan hluta þeirrar mengunar sem nú spillir loftgæðum okkar Íslendinga. Stóriðjan mengar mest, þótt bílar og önnur samgöngutæki eigi þar drjúgan hlut að máli. Við Íslendingar höfum sem þjóð skuldbundið okkur samkvæmt Kyoto-sáttmála til að draga úr losun koltvísýrings (CO2) í andrúmsloftinu, sem nú er farin að valda breytingum á veðurfari með afleiðingum sem öllum ættu að vera ljósar, sem um það vilja hugsa á annað borð. Með aukinni stóriðju erum við að vinna gegn þeirri stefnumótun. Svo einfalt er það. Álver eru ekki umhverfisvæn atvinnustarfsemi. Þau krefjast virkjana og mikilla fórna í óspilltri náttúru landsins, eins og virkjunarframkvæmdirnar á Austurlandi hafa leitt í ljós, þar sem meira að segja sjálfu Lagarfljótinu, einu mesta og fegursta vatnsfalli landsins, hefur verið umturnað. Þar við bætist að heildaráhrif stórframkvæmdanna á Austurlandi hafa orðið talsvert minni en gert var ráð fyrir. Álverið hefur ekki snúið við byggðaþróun á Austurlandi. Burtfluttir Austfirðingar hafa ekki flykkst austur til að vinna í álveri, eins og áköfustu fylgjendur þess héldu fram. Reynslan er ólygnust. Fólki heldur áfram að fækka á Austurlandi, enda vitað að ekki vilja allir vinna í álbræðslu. Af 4-500 beinum störfum sem skapast hafa í álverinu, sem að hluta eru skipuð útlendingum og vissulega munar um, hafa tapast á þriðja hundrað störf á móti í fjórðungnum vegna samdráttar í sjávarútvegi og smærri atvinnustarfsemi, sem að einhverju leyti má skrifa á ruðningsáhrif álversins. Viðurkennt er líka að hvert starf í álveri er tiltölulega dýrt, miðað við hve fá störf þau skapa. Byggðarlögin á sunnanverðum Austfjörðum, svo sem Stöðvarfjörður, standa höllum fæti um þessar mundir. Ekki blæs heldur byrlega fyrir áliðnaðinum nú um stundir. Arðsemi Kárahnjúkavirkjunar er enn of lítil, sagði forstjóri Landsvirkjunar á liðnu ári, en vart mun hún fara batnandi, þar sem heimsmarkaðsverð á áli fer nú lækkandi, meðal annars vegna innkomu Kínverja inn á markaðinn, og ekki eru horfur á að úr rætist á næstu árum. Hugmyndir um sæstreng til útlanda eru óraunhæfar. Við Íslendingar höfum nú þegar fest um 80% af allri raforkuframleiðslu okkar í stóriðju, sem er hættulega mikið fyrir fámenna þjóð og mál að linni. Öll skynsamleg rök hníga að því að ekki verði reist fleiri álver á Íslandi í náinni framtíð, heldur snúum okkur að fjölbreyttri atvinnustarfsemi á sviði smærri iðnaðar og hátækni, auk vaxandi ferðaþjónustu, sem skapað geti fleiri störf, auk hinna hefðbundnu atvinnugreina, landbúnaðar og sjávarútvegs, sem alltaf verða að sjálfsögðu kjölfestan. Áfram munum við eitthvað þurfa að virkja, en við eigum að gera það í sátt við landið og fólkið í landinu. Rammaáætlunin, sem nú er til meðferðar í þinginu, er spor í rétta átt. Með þessu mæla bæði umhverfisleg og efnahagsleg rök, en þó eru umhverfisrökin líklega þyngri á metunum, því landið sjálft og umhverfið er okkar dýrmætasti höfuðstóll. Mistökin eru til þess að læra af þeim. Vonandi tekst okkur það sem þjóð. Ólafur Hallgrímsson, Mælifelli í Skagafirði. Í Bændablaðinu var birt grein hinn 10. janúar síðastliðinn þar sem fjallað er um frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi til breytinga á lögum um lax- og silungsveiði. Höfundarnir, sem eru félagsmenn í Veiðifélagi Árnesinga, finna frumvarpinu allt til foráttu. Þeir gefa einnig í skyn að tilgangur lagasetningar sé sprottinn af ómálefnalegum ástæðum. Hið rétta er að tilgangur frumvarpsins er að lögfesta reglur um starfsemi deilda í veiðifélögum, en slíkar reglur er ekki að finna í lögunum í dag. Forsaga málins er, eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að við endurskoðun reglugerðar um starfsemi veiðifélaga kom í ljós að ekki var lagastoð í núgildandi lögum til að setja neinar reglur um starfsemi deilda innan veiðifélaga. Engin fyrirmæli er að finna í lögunum sjálfum um hvernig starfi deilda skuli háttað, starfi veiðifélag í deildum. Þá leiddi skoðun í ljós að nokkur fjöldi veiðifélaga starfar í deildum og er framkvæmdin með ýmsum hætti. Margar deildir innan veiðifélaga starfa eins og um sjálfstæð veiðifélög sé að ræða, og dæmi eru um að að veiðifélagið sjálft sé ekki starfandi, heldur aðeins deildirnar innan þess. Þetta ákvæði 39. gr. laga nr. 61/2006 um deildir hljóðar svo: „Í samþykktum má kveða á um að veiðifélag starfi í deildum, enda taki hver deild yfir tiltekið veiðivatn eða hluta vatns. Hver deild ráðstafar þá veiði í sínu umdæmi með þeim skilyrðum sem aðalfundur félagsins setur.“ Annan stafkrók er ekki að finna um deildir eða starfsemi þeirra í fyrrnefndum lögum. Ekki er heldur að finna í lögskýringargögnum hvort deildaskipta skuli öllu veiðifélaginu, sé tekin ákvörðun um að félagið starfi í deildum samkvæmt greininni. Þó má segja að orðalag greinarinnar, að „hver deild ráðstafar“ o.s.frv., bendi til að sú hafi verið ætlunin. Um það verður þó ekki fjölyrt hér. Í blaðagreininni er vikið að nokkrum atriðum, og einnig ummælum mínum sem formanns LV sem rétt er að fara nokkrum orðum um. Greinarhöfundar geta þess í skrifum sínum að matsnefnd hafi verið stöðvuð í að starfa fyrir deildir og velta fyrir sér „hver sem stóð nú fyrir því.“ Vísa þeir til umbeðins mats á arðskrá fyrir Tungufljótsdeild Veiðifélags Árnesinga. Í því tilviki má upplýsa að fram komu andmæli frá félagsmanni í deildinni við fyrirtöku matsmálsins. Matsnefnd taldi ekki fært að halda áfram vinnu við matsgerðina í ljósi þeirrar óvissu sem skapast hafði, eftir að þessi andmæli voru komin fram, en félagsmaðurinn taldi að lögin heimiluðu eingöngu að matsnefnd úrskurðaði um arðskrá í veiðifélögum en ekki í deild innan þeirra. Þegar þessi staða var komin upp leitaði Landssamband veiðifélaga álits Karls Axelssonar hrl. á réttarstöðu deilda í veiðifélögum. Þess má geta að Karl Axelsson er gjörkunnugur lögunum um lax- og silungsveiði, enda einn af höfundum þeirra. Karl kom að þessu máli án nokkurra efnislegra fyrirmæla frá LV og eingöngu í því augnamiði að skýra lagalega stöðu deilda innan veiðifélaga. Niðurstaðan blasir við. Deildir innan veiðifélaga hafa ekki aðrar heimildir en lögin kveða á um, m.ö.o., að ráðstafa veiði með þeim skilyrðum sem veiðifélag setur þar um. Sjálfstæði deilda til töku ákvarðana án samþykkis veiðifélags er því ekki til að dreifa. Allar hugleiðingar greinarhöfunda um tilefni og tilgang lögfræðivinnu Karls í þessu máli eru bæði ósannar og ekki sæmandi. Þá vísa greinarhöfundar til ummæla undirritaðs í viðtali við fréttavefinn Vísi og segja málflutning grunsamlegan. Í viðtalinu er vísað til þeirra ummæla að nýtingaráætlanir í veiðifélögum taki aðeins til stangveiði í straumvatni en netaveiði sé hins vegar stjórnað með lögunum sjálfum. Hafa verður í huga að með fyrirliggjandi frumvarpi er ekki verið að setja nein sérákvæði um inntak nýtingaráætlana sem deildir kunna að setja sér. Um þetta atriði segir í frumvarpinu sjálfu að ákvæði laganna um lax- og silungsveiði gildi um stofnun og starfsemi deilda eftir því sem við á. Í 29. gr. laganna um lax- og silungsveiði eru ákvæði um stangveiði í straumvatni. Þar segir: „Veiðifélag eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki eru veiðifélög, skulu setja nánari reglur um stangveiði á veiðisvæði sínu sem gilda skulu í a.m.k. 8 ár. Slíkar reglur, nýtingaráætlun skal Fiskistofa samþykkja os.frv.“ Í kaflanum um fastar veiðivélar í straumvatni (28 gr.) er hvergi vikið að því að setja skuli nýtingaráætlun um netaveiði enda skýr fyrirmæli laganna í 7 liðum hvernig heimilt er að stunda slíkar veiðar. Sú nýbreytni er í lögunum um lax- og silungsveiði frá 2006 að Veiðimálanefnd var lögð niður. Eitt helsta verkefni Veiðmálanefndar var að fjalla um leyfilegan stangafjölda í ám og vötnum. Þetta verkefni var flutt til veiðifélaganna sjálfra með lagabreytingunni, og þeim jafnframt gert að gera nýtingaráætlanir í þessu skyni. Landssamband veiðifélaga hefur haft það að markmiði að stuðla að því að lög og reglur um starfsemi veiðifélaga séu skýr og ljós í framkvæmd. Veiðifélög þurfa að gæta fyrirmæla stjórnsýslulaga í störfum sínum og það verður ekki gert án þess að lagaumgjörðin sé traust. Á því byggir farsælt starf veiðifélaganna og skylduaðild að þeim. Af þeim ástæðum beittum við okkur fyrir því að lögin um lax og silungsveiði voru endurskoðuð á fyrri hluta síðasta áratugs, en þau höfðu staðið að mestu óbreytt frá 1970. Við höfum jafnan haft þá reglu að fjalla um vandasöm álitamál að aðalfundum landssambandsins. Þannig mótuðum við stefnuna við endurskoðun laganna 2006 og einnig nú síðasta sumar, þegar fjallað var og ályktað um nauðsyn lagasetningar til að skýra stöðu deilda innan veiðifélaga. Það er athyglisvert að í þeirri blaðagrein sem er tilefni þessara skrifa er fátt um tilvitnanir í lögin um lax- og silungsveiði. Hins vegar er engin vöntun á órökstuddum sjónarmiðum höfunda sem ekki eiga sér neinn stuðning í gildandi lögum. Þannig er blaðagreinin samfelldur vitnisburður um nauðsyn þess að settar verði skýrar reglur um starfsemi deilda í veiðifélögum. Verði það ekki gert hlýtur að skoðast hvort eigi að halda heimildaákvæði til að veiðifélög starfi í deildum áfram í lögunum. Augljóst er að deildir geta ekki starfað utan við lög og rétt til framtíðar litið. Slíkt fyrirkomulag mun um síðir grafa undan núgildandi skipulagi veiðimála. Frumvarpið og greinargerð má finna á vefslóðinni http://www. althingi.is/altext/141/s/0466.html Óðinn Sigþórsson, formaður Landssambands veiðifélaga (LV): Frumvarp um deildir í veiðifélögum Þegar kemur að refaveiðum er full ástæða til að fagna því að skynsemin hafi sigrað öfgarnar og að meirihluti Alþingis hafi, við afgreiðslu fjárlaga, ákveðið að veita 30 milljónum til refaveiða á næsta ári. Í grein sem Svandís Svarsdóttir umhverfisráðherra ritar í síðasta Bændablað („Refaveiðar í sátt“) er látið liggja að því að ríkisstjórnin hafi haft forystu í þessu máli. Þetta er furðuleg söguskýring og kallar á stutta yfirferð yfir hvernig málum hefur verið háttað. Umhverfisráðherra vildi hætta refaveiðum Árið 2010, á fyrsta ári sínu sem umhverfisráðherra, lagði Svandís Svavarsdóttir til að fjárveitingum til refaveiða yrði hætt. Í grein sinni heldur ráðherra því fram að þetta hafi verið hluti af aðhaldsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Við umræður um málið kom fram að virðisaukaskatturinn af framlagi ríkissjóðs og sveitarfélaga samanlagt hefði í mörgum tilfellum verið hærri en framlag ríkissjóðs til málaflokksins. Undirritaður átti sæti í fjárlaganefnd á þessum tíma og ákvað nefndin, gegn vilja ráðherra, að setja fjármagn aftur til refaveiða. Jafnframt mælti nefndin með því að umhver f i s - r á ð h e r r a skipaði starfs- hóp til að fara heildstætt yfir þessi mál og lagðar yrðu fram tillögur um framtíðar- skipan refa- veiða fyrir næstu fjárlagagerð. Ári síðar hafði engin vinna verið unnin og ráðherra tók aftur út fjárveitingar til refaveiða. Á þessum tíma hafði ráðherra tryggt meirihluta við þessa vitlausu aðgerð. Tillaga um refaveiðar ekki frá ráðherra Undirritaður hefur í tvígang flutt þingsályktunartillögu um framtíðarskipan refaveiða og að fjárveitingar verði hafnar á ný. Stuðningur hefur verið við þessa tillögu úr öllum stjórnmálaflokkum. Sífellt fleiri fréttir af dýrbítum, fækkun fugla og nú síðast óveður á Norðurlandi þar sem dýrbítar gengu í lifandi fé hefur aukið skilning margra á þessu vandamáli. Þrátt fyrir þetta voru hugmyndir umhverfisráðherra ekki að hefja refaveiðar að nýju, enda tillögur varðandi það í fjárlagafrumvarpi sem kom frá ríkisstjórninni í haust. Í umræðum um málið á Alþingi fyrr í vetur gaf ráðherra það í skyn að erfitt væri að sanna að refurinn væri að valda nokkru tjóni. Hins vegar var breytt staða bæði í fjárlaganefnd og á Alþingi og ljóst að meirihluti var við að hefja aftur fjárveitingar til refaveiða. Þetta leiddi til þess að Alþingi tók þá ákvörðun að veita aftur fjármagni til refaveiða. Umhverfisráðherra hefur ekki sýnt forystu í þessu máli, heldur hefur hún þvert á móti unnið gegn því allt kjörtímabilið. Að ríkisstjórn sem unnið hefur gegn málinu allt kjörtímabilið slái sér upp með þessum hætti er auðvitað söguskýring af verstu gerð. Staðreyndin er að þau voru komin upp við vegg með öfgafull sjónarmið og þess vegna myndaðist sátt um skynsamar tillögur. Skynsemin sigraði í þessari orrustu en því miður hafa öfgar ráðið för í alltof mörgum málum á þessu kjörtímabili. Það bíður nýrrar ríkisstjórnar að taka á þeim málum. Ásmundur Einar Daðason Alþingismaður Framsóknarflokksins. Umhverfisráðherra og refirnir Ásmundur Einar Daðason

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.