Bændablaðið - 21.02.2013, Blaðsíða 27
27Bændablaðið | Fimmtudagur 21. febrúar 2013
Landssamtök landeigenda héldu
aðalfund sinn 14. febrúar síðast-
liðinn. Vel var mætt á fundinn
og ljóst að nokkur hiti er í land-
eigendum vegna aðskiljanlegra
hagsmuna. Hart var deilt á stjórn-
völd vegna samráðsleysis, meðal
annars varðandi frumvarp til
nýrra náttúruverndarlaga en í
þeim telja landeigendur að gengið
sé freklega á rétt þeirra. Í ályktun
sem fundurinn samþykkti er
þetta ítrekað og skorað á Alþingi
að endurskoða málið frá grunni
með það að markmiði að skapa
víðtækari sátt um náttúruvernd á
Íslandi.
Þá voru málefni eigenda sjávar-
jarða töluvert rædd á fundinum
og því velt upp hvort ekki væri
ástæða til að sameina krafta Lands-
samtaka landeigenda og samtaka
eigenda sjávarjarða. Sömuleiðis
skapaðist talsverð umræða um
sameiginlega hagsmuni skógarbænda
og landeigenda. Þá var rætt um
baráttu landeigenda vegna lagningu
háspennulína og málefni sem
varða Landsnet. Að venju var
mikil umræða um þjóðlendumál,
einkum um mikilvægi þess að fá
endurupptökuákvæði inn í lögin.
Ný stjórn var kosin í fundinum.
Örn Bergsson var endurkjörinn
sem formaður samtakanna og voru
þeir Óðinn Sigþórsson og Sigurður
Jónsson einnig endurkjörnir. Nýjar
inn í stjórn komu þær Guðrún María
Valgeirsdóttir og Elín R. Líndal.
Gunnar Sæmundsson og Guðný
Sverrisdóttir gáfu ekki kost á sér til
endurkjörs og voru þeim þökkuð mikil
og óeigingjörn störf fyrir samtökin.
Örn Bergsson formaður kvaðst
afar ánægður með fundinn. Hann
sagði talsvert hafa unnist á þeim sex
árum sem samtökin hefðu starfað.
„Það sem hefur unnist er í fyrsta lagi
að kröfugerð í þjóðlendumálum er
allt önnur og ásættanlegri en var.
Hæstiréttur hefur jafnframt nálgast
okkar sjónarmið á síðustu árum. Við
leggjum áherslu á það nú og munum
berjast fyrir að inn í þjóðlendulögin
verði sett endurupptökuákvæði. Slík
ákvæðu myndu þýða að hægt væri
að fá mál endurupptekin í ljósi nýrra
gagna. Við höfum lært í gegnum þessi
þjóðlendumál öll að ný gögn finnast
oft eftir að úrskurðað hefur verið.“
Hart deilt á stjórnarskrármálið
Að loknum fundinum hófst málþing
um stjórnarskrármálið þar sem
frummælendur voru þeir Karl
Axelsson hæstaréttarlögmaður, Ari
Teitsson, varaformaður Stjórnlaga-
ráðs, og Reimar Pétursson hæsta-
réttar lögmaður. Í máli Ara kom fram
að hann teldi margt hníga til þess að
Ísland þyrfti á nýrri stjórnarskrá að
halda. Í núverandi stjórnarskrá væri
stjórnskipun um margt óljóst og ekki
síður væri eignarhald á auðlindum
óskýrt. Hins vegar teldi hann því
miður ekki útlit fyrir að takast mætti
að klára breytingarnar fyrir þinglok
eins og hann hefði vonast til.
Ari lagði áherslu á mikilvægi
auðlinda og að þær yrðu tryggðar fyrir
komandi kynslóðir. Hins vegar yrði að
varast að aðgerðir í þeim efnum yrðu
til þess að gengið yrði á eignarrétt
fólks. Hann tók fram að í tillögum
Stjórnlagaráðs um auðlindaákvæði
hefði ekki verið átt við auðlindir í
einkaeigu og hvatti til umræðu um
ákvæðið.
Reimar bar saman ferli breytinga
stjórnarskrárinnar hér við setningu
stjórnarskrár Bandaríkjanna á sínum
tíma. Hann benti á að við setningu
stjórnarskrárinnar bandarísku
hefði verið brýn þörf á slíkri vinnu
enda hefði borgarastyrjöld þá
verið nýafstaðin þar í landi. Hér á
landi hefði hins vegar ekki verið
nein brýn nauðsyn til að setja nýja
stjórnarskrá. Ekki hefðu heldur
verið sett skýr markmið um þær
niðurstöður sem stjórnarskrárferlið
ætti að hafa í för með sér. Ekki hefði
náðst sátt um ferlið og í ráðgefandi
þjóðaratkvæðagreiðslu hefði verið
notast við óljós hugtök á borð við
„lagt til grundvallar“ og „frumvarp“.
Reimar sagðist ekki undrast
það að margir hefðu sniðgengið
þjóðaratkvæðagreiðsluna.
Reimar fór hörðum orðum um
ferlið í niðurlagi erindis síns og sagði
ljóst að ákveðnir stjórnmálamenn
vildu samþykkja breytingarnar,
sama hvaða afleiðingar það kynni
að hafa. Allt ferlið markaðist af
tilraunastarfsemi og því að horft væri
framhjá reynslu annarra þjóða.
Eignaupptaka hugsanleg
Karl fjallaði um eignarréttinn í
erindi sínu og fór sérstaklega yfir
þau ákvæði í frumvarpi til nýrra
stjórnskipunarlaga sem hann taldi
varða landeigendur. Meðal annars
gerð hann 32. grein frumvarpsins
að umtalsefni en þar er fjallað um
menningar- og náttúruverðmæti.
Karl sagði ákvæðið hafa afar rúma
merkingu ef horft væri til upptalningar
í skýringum Stjórnlagaráðs.
Þjóðareignarhugtak væri rúmt ef
horft væri til þessarar greinar og túlka
mætti það þannig að eignaupptaka
væri möguleg þar eð ekki væri gerður
fyrirvari um hverjir væru eigendur
þessara verðmæta nú.
Þá sagði Karl greinargerð með
34. grein, sem fjallar um auðlindir
og þjóðareign, ónothæfa eins og hún
liti út. Þar vantaði útlistun á nýjum
hugtökum, á borð við þjóðareign.
Jafnframt væri lítið hugað að
auðlindum á landi en mest horft til
sjávarauðlindarinnar.
Karl gagnrýndi að skipt hafi
verið út orðinu „einkaeignaréttur“
fyrir „í einkaeigu“. Með þessu væru
eignarréttindi sveitarfélaganna í
landinu gerð upptæk. Ríki gætu ekki
selt jarðir með auðlindum nema
undanskilja t.a.m. laxveiðiár. Þá yrðu
vatnsréttindi óljós og eignarréttur
sjávarjarða yrði afnumin þar sem tekið
var út „utan netalaga“. Karl sagði loks
að tillögur meirihluta stjórnskipunar-
og eftirlitsnefndar væru almennt afar
slæmar og 34. greinin hefði ekki
batnað í meðförum Alþingis, raunar
væri búið að setja aftur inn annmarka
sem sérfræðingahópurinn hefði tekið
út.
/fr
BÆNDUR OG RÚNINGSMENN ATHUGIÐ!!
Upphengin vinsælu eru til
á lager. Nú er ekkert mál að
hengja sig upp hvar sem
er. Upphengin eru gal-
vaniseruð. Hægt að taka í
sundur með lítilli fyrirhöfn.
Get einnig sérsmíðað fyrir
menn eftir óskum.
Upplýsingar gefur Steingrímur í síma
899-1049 eða flexiverk@gmail.com.
47 myndir af kindum
Bókin 47 myndir af kind-
um er að koma út. þessar
kindur standa ekki við
nýétið rofabarð eða hanga
á hvolfi í sláturhúsinu,
heldur taka þær daginn
snemma, skreppa í heim-
sókn til mömmu eða slaka
á við leik og störf. Höfundur
mynda og texta er Magga
og textinn er bæði á íslensku og ensku. bókin kostar kr.
2.990 kr og er hægt að nálgast hjá höfundi í gegnum tölvu-
póst magga2612@simnet.is eða í síma 868-0978
Landeigendur vilja endurupptökuákvæði í þjóðlendulög
Frá aðalfundi Landssamtaka landeigenda 14. febrúar. Myndir / fr
Örn Bergsson formaður samtakanna í pontu.
Bændablaðið
Með yfirburðalestur á landsbyggðinni
(Samkvæmt lestrarkönnun Capacent)
Kemur næst út 7. mars
Smáauglýsingar 56-30-300
Hafa áhrifum land allt!