Bændablaðið - 28.11.2013, Side 44

Bændablaðið - 28.11.2013, Side 44
44 Bændablaðið | Fimmtudagur 28. nóvember 2013 Bestu asparklónarnir Á næsta ári verða liðin 70 ár síðan alaskaösp barst fyrst til landsins. Lengst af var hún nær eingöngu notuð í garðrækt en ekki skógrækt og spiluðu þar inn í bæði fordómar sumra skógræktarmanna um viðargæði hennar og vantrú á að hún geti yfir höfuð vaxið í „útjörð“. Síðan þá hefur reynslan kennt okkur að alaskaösp vaxi ágætlega í frjósamari gerðum skógræktar- lands, á áreyrum og í sendnu landi en síður í rýru mólendi. Þá er viðurinn til margra hluta nytsamlegur þótt ekki sé hann endingargóður í snertingu við mold. Auðvelt er að fjölga alaska- ösp með græðlingum og því einnig auðvelt að fjölga áhugaverðum klónum í miklu magni. Laust fyrir 1990 hóf Úlfur Óskarsson að skilgreina þá aspar- klóna sem í ræktun voru og gefa þeim nöfn. Í framhaldinu voru á vegum Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá gróðursettar klónatilraunir víða um land til að bera saman lifun og vöxt allmargra klóna við misjafnar aðstæður. Á seinni árum hafa stýrðar víxlanir milli áhugaverðra klóna verið notaðar til að kynbæta öspina, ekki síst til að auka þol gagnvart asparryði. Úr þeim víxlunum hafa komið þúsundir nýrra klóna og munu sumir þeirra verða áberandi í ræktun á komandi áratugum. Að svo stöddu er þó hægt er að mæla með nokkrum af þeim klónum sem verið hafa í ræktun í áratugi. Meðmælin eru byggð á mælingum Halldórs Sverrissonar, Helgu Aspar Jónsdóttur og Aðalsteins Sigurgeirssonar á lifun og vexti í tæplega 20 ára gömlum tilraunum um allt land. Tveir klónar skera sig úr með góða lifun og góðan vöxt á hvað flestum stöðum en það eru Hallormur og Pinni. Með þeim tveimur klónum er hægt að mæla víðast hvar. Aðrir klónar standa sig vel við viss skilyrði og má þar skipta landinu í innsveitir og útsveitir frekar en norður-suður eða austur-vestur. Í lágsveitum Suðurlands og á strandsvæðum um land allt vaxa klónarnir Iðunn, Súla, Salka, Brekkan og Óðinn vel en í innsveitum eru þessir klónar viðkvæmir fyrir haustkali í æsku. Af þessum klónum hefur Súla sýnt betra þol gagnvart asparryði en flestir aðrir. Þess má geta að „útsveitaklónarnir“ þola asparryð almennt betur en klónar frá Kenai- skaga (t.d. Hallormur). Asparryð er hins vegar aðeins útbreitt á Suðurlandi og hefur ekki reynst sá skaðvaldur sem óttast var í fyrstu. Ofangreindu klónarnir sjö voru meðal þeirra bestu í bæði lifun og vexti á a.m.k. þremur af þeim ell- efu tilraunastöðum sem gróðursettir voru á árunum 1992-1995 og eru allir í framleiðslu í gróðrarstöðv- um landsins. Tveir klónar í viðbót stóðu sig álíka vel í tilraununum en eru ekki í framleiðslu og því ekki almennt fáanlegir. Aðrir eru í fram- leiðslu en voru sjaldnar meðal þeirra bestu í lifun og vexti; t.d. Depill, Laufey, Haukur, Jóra, Forkur og Randi. Skógræktendur eiga ekki að hafna þeim klónum á meðan þeir eru í boði en gróðrarstöðvar ættu að draga úr notkun þeirra og framleiða frekar hina fyrrnefndu. Hinn þekkti klónn Keisari er harðger og sýnir góða lifun víðast hvar en hæðarvöxt- ur hans er hægari en margra annarra klóna. Hann ætti helst að nota við erfið skilyrði þar sem aðrir klónar ná ekki miklum vexti. Auk lifunar og vaxtar er hægt að velja asparklóna til mismun- andi nota út frá vaxtarlagi. T.d. er klónninn Brekkan grófgreinóttur og krónumikill og hentar því helst til skjólbeltaræktar. Svipað má segja um Keisara. Hallormur‚ Iðunn og Súla eru keilu- eða súlulaga, hrað- vaxta og framleiðslumiklir klónar og henta vel til timburframleiðslu á frjósömu landi. Pinni er beinvaxinn, fíngreinóttur með fremur breiða krónu og stendur sig vel bæði í inn- og útsveitum. Hann hentar því vel hvort sem markmiðið er timbur- framleiðsla, skjól eða yndi. Staða þekkingar er sú núna að á grundvelli samanburðartil- rauna er hægt að mæla sérstaklega með þeim sjö asparklónum sem fyrst voru nefndir, þ.e. Hallormi, og Pinna um allt land og Iðunni, Súlu, Sölku, Brekkan og Óðni í lágsveitum, auk Keisara við erfið skilyrði. Á næstu árum fara síðan nýir klónar að skila sér úr kynbóta- starfinu, en nokkur ár mun taka að velja og magna upp fjölgunarefni. Gömlu klónarnir verða því uppi- staðan í asparrækt næstu 5-10 árin. Lesa má nánar um niðurstöðurnar í riti Mógilsár nr. 27/2013: http:// www.skogur.is/media/rit-mogilsar/ Rit_Mogilsar_27_2013.pdf Þröstur Eysteinsson Skógrækt ríkisins Klóninn Hallormur er beinvaxinn, framleiðslumikill og fíngreinóttur. Skógur af klóninum Iðunni á Suðurlandi. Eigum við að fá okkur jólatré í ár? Jólaundirbúningnum tilheyra hugleiðingar og vangaveltur um jólatré. - Eigum við að vera með jólatré í ár? Hvernig á það að vera? Hvað má það kosta? Viljum við lifandi jólatré eða gervitré sem endist ár eftir ár? Að taka jólatré inn í stofuna fyrir jólin er mjög gömul hefð með rætur aftur í aldir og í mismunandi trúarbrögðum. Í kristinni trú táknar jólatréð „Lífsins tré“. Sú siðvenja og hefð að taka tré inn í stofu og skreyta fyrir jólin kom til landsins í kringum 1870 með dönskum kaupmönnum sem fluttu inn rauðgreni frá Danmörku. Siðurinn breiddist smám saman út um allt land og í dag eru jólatré af ýmsu tagi hjá flestum Íslendingum. Ríflega þriðjungur með lifandi jólatré Í fyrra (2012) gerði Gallup könnun um notkun jólatrjáa á Íslandi. Í ljós kom að 86,9% Íslendinga halda upp á jólin með jólatré. Þar af voru 55,9% með gervijólatré en 32,2% með lifandi jólatré. Barnafjölskyldur fremur en barnlausar voru með jólatré og fleiri konur en karlar halda upp á jólin með jólatré. Fleiri jólatré seljast á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Framboð jólatrjáa er mikið og fjölbreytt. Spurningin er bara, hvað hentar hverjum og einum best. Hvað má það kosta? Hvað á það að vera stórt? Hvort skal það vera lifandi jólatré eða gervijólatré? Um 80% seldra jólatrjáa flutt inn frá Danmörku Lifandi jólatré er annað hvort eðalþinur (norðmannsþinur) sem er fluttur inn frá Danmörku eða íslenskt jólatré sem getur verið greni (rauðgreni, blágreni eða sitkagreni), fura (stafafura) eða fjallaþinur sem er líkur norðmannsþin. Fjallaþinurinn er sjaldgæfur á Íslandi og erfiður í ræktun. Í Danmörku er mjög mikil framleiðsla og útflutningur af norðmannsþin. Um 10 milljónir trjáa eru framleidd og seld víða um heim á hverju ári. Til Íslands eru flutt inn um 30-40.000 tré af dönskum norðmannsþin á ári (um 80% seldra jólatráa). Þau eru gjarnan seld við stórar verslanakeðjur, hjá félagasamtökum til fjáröflunar og einnig af fleiri aðilum. Á Íslandi hefur ekki verið hefð fyrir framleiðu jólatrjáa eins og í Danmörku en Skógræktarfélög víða um land ásamt Skógrækt ríkisins hafa í mörg ár framleitt og selt jólatré í litlum mæli (um 20% seldra jólatráa). Víða bjóða skógræktar- félög og skógræktin fólki út í skóg til að velja og jafnvel saga sitt eigið tré. Hjá mörgum barnafjölskyldum er það orðið ómissandi hluti af jóla- undirbúningum að fara út í skóg, njóta útivistar og leita að jólatrénu sem hentar heimilinu akkúrat. Framboð íslenskra jólatrjáa mun aukast Sífelld gróðursetning meðal annars af barrtrjám undanfarin 20 ár hefur leitt til þess að framboð íslenska jólatrjáa hefur aukist og mun með tímanum geta fullnægt hluta eftirspurnarinnar eftir lifandi jólatrjám og greinum. Skógarbændur víða um land eru líka farnir að gróðursetja barrtré sem eru ætluð til jólanna og eru nú þegar að bætast inn á markaðinn hægt og bítandi. Vonir standa til að framboð íslenska jólatráa muni aukast og gæði og verð verði sambærileg við erlend jólatré. Síðast en ekki síst að Íslendingar komi auga á og skilji þann ávinning og sem liggur í að velja íslensk tré. Frekari umfjöllun um mis- munandi tegunda af jólatrjám og meðhöndlun lifandi jólatré verður birt í næsta Bændablaði. Else Möller, skógfræðingur Else Möller. Spenntur strákur á leiðinni heim með flotta stafafuru. Mynd / Björgvin Eggertsson

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.