Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.10.1991, Blaðsíða 32

Læknablaðið - 15.10.1991, Blaðsíða 32
310 LÆKNABLAÐIÐ framkallað þvagleka meðal aldraðs fólks. Þekjuvefur í blöðrubotni og þvagrás rýmar hjá konum og blöðruhálskirtill stækkar hjá körlum. Grindarbotn gliðnar meðal annars vegna breytinga í bandvef umhverfis blöðrubotn og þvagrás. Rúmmál þvagblöðru minnkar, tæming verður ófullkomin og ósjálfráðir samdrættir verða algengir í blöðruvegg. Aldursháðar breytingar í taugakerfi valda því að hömluviðbrögð verða ómarkvissari en ella. Osamræmi getur myndast á milli lokunar og slökunar og þvagblaðra orðið ýmist þykkveggja vegna viðnáms eða þunnveggja vegna þans. Breytingar á efnahvörfum taugaviðtaka kunna einnig að eiga hlut að máli. Þessar aldursbreytingar skipta miklu máli fyrir skamvinnan þvagleka fyrir aldrað fólk utan stofnana, en rannsóknin á Borgarspítala, sem getið er hér að ofan, sýndi ekki fram á aukna tíðni þvagleka með hækkandi aldri fyrir fólk inni á stofnunum. Þvagleki hefur verið flokkaður í nokkrar tegundir þ.e.: áreynsluleki, bráðaleki, yfirflæði og blandað form (7). Meðal fullorðins fólks er áreynsluleki (stress) algengastur. Lokukerfi þvagrásar og blöðrubotns ná ekki að hindra að þvag skvettist út við hósta, hnerra, bogur eða rembing eins og við að lyfta þungum hlut. Oftast er um lítið magn að ræða. Orsakir geta verið magvíslegar s.s. skemmd þvagrás, gliðnaður grindarbotn t.d. meðal fjölbyrja eða vegna aldursbreytinga. Bráðaleki (urge, uninhibited) er það kallað þegar sjúklingurinn finnur fyrir bráðri þvaglátaþörf og blöðrutæming kemur í kjölfarið og verður að leka, ef hann nær ekki á »viðeigandi stað« í tíma. Sjúklingurinn skynjar aukna þenslu í þvagblöðru en nær ekki að hamla þvaglosun. Oldrunarbreytingar í heila geta átt hlut að máli, en algengt er að blöðruvöðvinn sé í ertu ástandi og ósjálfráðir samdrættir framkalli lekann. Oft eru það sjúkdómar í heila (t.d. slag) eða í þvagblöðrunni sjálfri (t.d. sýking, æxli, steinar) sem framkalla þetta ástand, en oft finnst engin orsök. Þvaglekinn er verulegur þrátt fyrir að tæming kunni að vera ófullkomin og kemur með nokkurra klukkustunda millibili. Þetta er stundum kallað »óhamin blaðra«, en »viðbragðsleki« (reflex) þegar skyn um þvaglátaþörf er ekki fyrir hendi. Yfirflœðisleki (overflow) verður við þvagrennslishindrun og ofþenslu á þvagblöðru. Þvagmagnið er misjafnt og blaðran stöðugt í misjafnlega þöndu ástandi. Orsakir geta verið margvíslegar s.s. taugasjúkdómar, hvekksauki og notkun ýmissa lyfja. Margir sjúklingar hafa þvagleka af blandaðri gerð. Margar aðrar tegundir þvagleka, sem ekki falla beint undir þessa flokka eru þekktar, t.d. við geðshræringu, mikil glöp og ef menn beinlínis komast ekki á viðeigandi stað í tíma. Nýleg rannsókn frá austurströnd Bandaríkjanna á lífeðlisfræðilegu ástandi þvagblöðru meðal aldraðra með þvagleka á hjúkrunarheimilum leiddi í ljós verulegar truflanir á ástandi blöðruvöðvans (8). Reyndist hann ofvirkur í 61% tilvika en jafnframt með ófullkominn samdrátt og tæmingu í helmingi af þeim tilvikum. Aðrar orsakir meðal kvenna voru áreynsluleki (21%) og veiklaður samdráttur (8%). Frárennslishindrun var fyrir hendi meðal 29% karla og 4% kvenna. Þessar niðurstöður eru talsverð einföldun á flóknum vanda, en þær renna jafnframt stoðum undir markvissari meðhöndlun sjúklinganna, s.s. með skurðaðgerðum, lyfjum og hjálpartækjum. Erfitt er að meta þann kostnað sem þvagleki hefur í för með sér fyrir heilbrigðisþjónustu landsmanna. Hjálpartæki og umönnunaráhöld eru ekki nema brot af þeirri upphæð. Samkvæmt upplýsingum frá Innkaupastofnun ríkisins nam kostnaður við bleiukaup og þess háttar fyrir sjúkrahús og dvalarheimili um 50 milljónum króna á árinu 1990. Hjálpartæki eru fjölbreytt, s.s. bleiur, netbuxur, undirbreiðslur, þverlök, leggir, hólkar, þvottaáhöld, krem og smyrsl. Flest eru þessi áhöld einnota og skapa vanda við sorpeyðingu. Ný hjálpartæki, hjúkrunarvörur, lyf og greiningaraðferðir koma fram með reglubundnu millibili. Mikilvægt er að hægt sé að meta árangur nýjunganna á óhlutbundinn hátt, en á þessu sviði sem og öðrum sviðum lækninga og hjúkrunar, situr velferð sjúklingsins í fyrirrúmi. Ársæll Jónsson, lyflækningadeild Borgarspítalans

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.