Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.04.1993, Blaðsíða 36

Læknablaðið - 15.04.1993, Blaðsíða 36
164 LÆKNABLAÐIÐ RÉTTARKRUFNINGAR Auk hinna fáu krufninga sem Bjarni Pálsson framkvæmdi til rannsóknar banameina og til stuðnings við kennslu læknanema, má vera að hann í einhverjum tilvikum hafi krufið lík að fyrirmælum réttvísinnar, það er framkvæmt réttarkrufningar og kann hann að hafa nýtt slíkar rannsóknir við læknakennsluna. Hins vegar eru réttarkrufningar þær einu krufningar, sem vitað er um að tveir næstu eftirmenn Bjarna í landlæknisembætti, þeir Jón Sveinsson og Tomas Klog, hafi framkvæmt. Fyrirmæli um réttarkrufningar voru tekin upp við fyrstu endurskoðun embættisbréfs landlæknis 1787 og endurbætt árið 1824 (3). Jón Thorstensen tók hins vegar upp þráðinn frá Bjarna Pálssyni hvað varðaði krufningar til rannsóknar banameina á þriðja tugi 19. aldar. Af ritum Jóns Thorstensen varðandi sjúkdóma á íslandi má nefna ritgerð sem hann skrifaði 1837 og birtist undir titlinum Trcictatus de morbis in Islandia frequentissimus í Memoires de l’Academie Royale de Medicine de Paris 1840 (4). SULLAVEIKI Danski læknirinn P.A. Schleisner var samkvæmt konungsskipun 12. mars 1847 sendur til íslands til að rannsaka ginklofann í Vestmannaeyjum. Hann ferðaðist einnig um landið og kynnti sér heilsufar og heilbrigðisástand þjóðarinnar almennt. Um athuganir sínar skrifaði hann síðan viðamikla ritgerð Forsög til en Nosographie af Island, sem var tekin gild til doktorsprófs við Kaupmannahafnarháskóla (5). Sérstaka athygli hans vakti hinn mikli fjöldi sullaveikisjúklinga, en sullaveikin var á þeim tíma ýmist nefnd meinlæti, lifrarveiki eða lifrarbólga. Schleisner segir að hann hafi átt þess kost að framkvæma krufningar á tveimur einstaklingum, sem létust úr sullaveiki. Var annar 23 ára karlmaður og hinn 45 ára kvenmaður. Aðra krufninguna framkvæmdi hann í samvinnu við Jósef Skaftason, héraðslækni (6) og hina í samvinnu við Skúla Thorarensen héraðslækni (7). Eru nákvæmar lýsingar á krufningunum birtar í doktorsritgerðinni. Þá getur Schleisner þess að Skúli Thorarensen hafi krufið fjölda lifrarveikisjúklinga, án þess að geta þess í heilbrigðisskýrslum, og ávallt fundið sull bæði í lifur sem og öðrum kviðarholslíffærum. Einnig hafi Skúli Thorarensen oft fundið sull við krufningu á sjúklingum sem látist höfðu úr öðrum sjúkdómum. Þetta sýnir að komið hefur fyrir að héraðslæknar hafi á síðastliðinni öld framkvæmt krufningar til rannsóknar banameina. Síðar sama ár (1849) kom út annað rit um heilbrigðismál á Islandi eftir Schleisner (8). Er doktorsritgerðin þar endurprentuð, en bætt við tveimur köflum, það er Beskrivelse af Islands physiske og hygieniske Forhold annars vegar og Det islandske Medicinalvœsen hins vegar. Enn einn héraðslæknir sem framkvæmdi á þessum tíma krufningar til rannsóknar banameina var Jón Finsen héraðslæknir í austurhéraði norðuramtsins (f. 1826, d. 1885). í doktorsritgerð sinni Iagttagelser angaaende Sygdomsforholdene i Island segir hann meðal annars frá átta krufningum á sjúklingum, sem dóu úr sullaveiki (9). Hann getur þess í ritgerðinni að Schleisner eigi heiðurinn af því að hafa sýnt fram á hve sullaveiki væri algeng með íslendingum. Jón Finsen tók sér einnig fyrir hendur að rannsaka orsök sullaveikinnar og mun í því sambandi hafa verið hinn fyrsti hér á landi til að framkvæma meinafræðilegar tilraunir. En til að rannsaka þetta mál nánar var Harald Krabbe, danskur læknir (f. 1831 d. 1917), sendur af dönskum heilbrigðisyfirvöldum til Islands. SMÁSJÁRRANNSÓKNIR Krabbe kom til landsins með vorskipi 1863 og dvaldi hér fram á haust. Þeir Finsen unnu að rannsóknum sínum um sumarið. Síðustu tilraun sína og þá merkustu framkvæmdu Krabbe og Finsen á tveimur hvolpum. Var tilraunin í því fólgin að opna sull í nára ungrar sullaveikrar stúlku og inata hvolpana á innihaldi sullsins. Sýni úr sullsinnihaldinu var brugðið undir smásjá og staðfest að bandormshausar væru þar í. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem smásjá var beitt við meinafræðirannsóknir á íslandi, ef frá eru taldar fjárkláðaathuganir Jósefs Skaftasonar héraðslæknis Húnvetninga upp úr 1855 (10). Einnig notaði Stefán Stefánsson smásjá við athuganir sínar á lungnaormasýkingum í sauðfé 1895 (11). í doktorsritgerð sinni Ekinokoksygdommen belyst ved Islandske lœgers erfaring (12)

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.