Læknablaðið - 15.05.1997, Page 34
312
LÆKNABLAÐIÐ 1997; 83
Sigurður Björnsson, læknir, hefur lýst vel
þýðingu þess fyrir alla aðila að sjúklingur sé vel
upplýstur: „Eigi.... aðfásjúklinginn tilað taka
þátt í að velja skynsamlegasta valkostinn þá
verður hann að vita hvernig mál standa. Pví
miðurfara ekki allir lœknar eftir þessu, og það
er afskaplega erfitt að koma í kjölfar annars
lceknis sem hefur sagt sjúklingi mjög ónákvœmt
eða jafnvel alls ekki sannleikann. Slíkt veldur
sjúklingnum líka erfiðleikum, hann veit ekki
hverju skal trúa. “ (9).
Það er athyglisvert hvernig Sigurður hagar
orðum sínum í þessari ágætu klausu sem er
eftir honum höfð. „Eigi.....að fá sjúklinginn
til að taka þátt í að velja skynsamlegasta val-
kostinn ....segir hann, og þetta orðalag
hans er til marks um að grunnt getur verið á
forræðishyggjunni, jafnvel þótt áhersla sé lögð
á að upplýsa sjúklinga að fullu (10). Þau rök
sem færð eru fyrir mikilvægi þess að upplýsa
sjúklinga vísa reyndar ótrúlega oft til þeirrar
hagkvæmni sem af því má hafa: sjúklingurinn
verður meðfærilegri, samvinnuþýðari, skjótari
til að ná bata, hann útskrifast fyrr og þar fram
eftir götunum. Þetta eru allt saman þýðingar-
mikil atriði, en þau vísa ekki í þá sérstöku
siðferðilegu hagsmuni fólks sem ég kenndi við
sjálfræði. Sé horft framhjá þeirri kröfu og
sjúklingur upplýstur einungis af hagkvæmnis-
ástæðum og til þess að fá hann til að velja
skynsamlegasta kostinn, það er þann kost sem
fagmaðurinn hefur þegar valið fyrir hann, þá
höfum við forræðishyggju í nýjum og „dip-
lómatískari“ búningi. Samtalið við sjúklinginn
verður þá bara leið fagmannsins til þess að fá
hann „með góðu“ á sitt band.
Af þessum ástæðum hafa sumir baráttu-
menn fyrir sjálfsákvörðunarrétti sjúklinga lagt
áherslu á svokallað hlutleysi fagmannsins.
Hann eigi einungis að leitast við að upplýsa
sjúkling sem best um alla meðferðarkosti, en
hann eigi að gæta þess eftir megni að hafa ekki
áhrif á ákvörðun sjúklingsins með gildismati
sínu og viðhorfum. Brýnir hagsmunir sjúk-
lingsins sjálfs, líf hans og heilsa, eru í veði og
hann á sjálfur að ákveða hvaða meðferð eða
rannsókn hann er reiðubúinn að gangast undir.
Þetta er tvíbent staðhæfing. Sé hún skilin
sterkum skilningi, þá felur hún það í sér að
einstaklingnum eigi að vera það algjörlega í
sjálfsvald sett hvaða læknismeðferð hann fær.
Þetta er að mínu mati fráleitur skilningur á
sjálfsákvörðunarrétti sjúklinga og færi ég eink-
um tvær ástæður fyrir því. Sú fyrri varðar
ábyrgð fagmannsins. Með því á ég við að fag-
maður í heilbrigðisþjónustu getur ekki bara
afgreitt heilbrigðisþjónustu á „hlutlausan" hátt
samkvæmt kröfum „kúnnans“. Það er skylda
hans að upplýsa sjúkling um það hvaða með-
ferð hann telur að sé ákjósanlegust og hvers
vegna. Þetta er að sjálfsögðu ekki nægileg for-
senda til að ákveða hvað sjúklingur eigi að
gera, eins og forræðishyggjan virðist telja, en
hún er nauðsynleg forsenda þess að fagmann-
eskjan ræki starf sitt af ábyrgð. Hann getur
ekki með góðri samvisku veitt meðferð sem
hann telur stríða gegn hagsmunum sjúklingsins
(11).
Síðari ástæðan gegn því að skilja sjálfræðis-
kröfuna þessum sterka skilningi vísar í stöðu
sjúklingsins. Það er mikilvægt að gleyma því
ekki að sjúklingurinn er í tvennum skilningi
veikari aðilinn í þessum samskiptum. Hann er
veikari í þeim skilningi að hann hefur ekki þá
þekkingu sem fagmaðurinn býr yfir og er því
fyllilega háður þeim upplýsingum sem hann
ákveður að láta frá sér. En sjúklingurinn er líka
oft veikari aðilinn í þeim skilningi að hann er
hræddur og óöruggur, ekki fyrst og fremst
vegna þeirra upplýsinga sem hann fær, heldur
vegna þeirrar tilvistarkreppu sem hann er
kominn í. Báðir þessi þættir, vanþekking sjúk-
lingsins og kvíði hans, gera það að verkum að
hann verður öðru fremur að geta treyst heil-
brigðisstarfsfólki. Hinn sterki skilningur á
sjálfræðiskröfunni stuðlar ekki að slíku trausti.
Þvert á móti elur hún á fjarlægð og umhyggju-
leysi sem er ankannaleg í samhengi heilbrigðis-
þjónustu.
Hin sameiginlega ályktun sem ég vil draga af
þessum ástæðum er að kröfuna um sjálfræði
sjúklinga beri að skilja veikum skilningi. Með
því á ég við að sjálfsákvörðunarréttur sjúklings
felist yfirleitt ekki í því að hann geti einfaldlega
„pantað“ þá meðferð sem honum líst best á,
heldur í því að hann ráði því hvort hann þiggur
þá meðferð sem honum er ráðlögð eða hvort
hann hafnar henni. Frá sjónarhóli sjúklingsins
er þetta nokkurn veginn inntakið í hinni mikil-
vægu siðareglu lækna sem kveður á um upplýs-
ingaskylduna: „Lœknir skal, eftir því sem tök
eru á, útskýra fyrir sjúklingi eðli og tilgang
rannsókna og aðgerða, sem hann gerir eða ráð-
leggur sjúklingnum. Pess skal ávallt gcett og ef
með þarfskal sjúklingi gert það Ijóst, að lœknir
ráðleggur en skipar ekki. “