Læknablaðið - 15.07.1998, Page 40
562
LÆKNABLAÐIÐ 1998; 84: 562-3
Sjúkratilfelli mánaðarins
Erlent tónfall eftir heiladrep
María K. Jónsdóttir1’, Magnús Haraldsson”, Þóra Sæunn Úlfsdóttir”, Einar M. Valdimarsson’1
Sjúkrasaga
Þrjátíu og sjö ára gömul kona veiktist með
skyndilegri taltruflun. Hún gat hvorki tjáð sig
munnlega né skriflega en fannst hún skilja það
sem við hana var sagt og geta hugsað það sem
hún vildi segja. Daginn eftir var hún farin að
tala aftur en með óeðlilegu tónfalli og áhersl-
um. Hún var einnig þvoglumælt og hafði mál-
fræðistol. Við skoðun tveimur dögum síðar
fundust engin brottfallseinkenni utan taltrufl-
ana og tölvusneiðmynd af höfði var eðlileg.
Sex vikum eftir fyrstu einkenni var konan
lögð inn á endurhæfinga- og taugadeild Sjúkra-
húss Reykjavíkur til ítarlegri rannsókna. Þá var
tónfall tals með nokkuð sterkum erlendum
hreim. Rödd var hás og rám en tónstyrkur var
góður. Áherslur og lengd hljóða voru ekki í
samræmi við íslenska málvenju og oft fengu öll
atkvæði orða jafna áherslu. Hún kvað mjög
skýrt að og í samfelldu tali varð ekki eðlilegur
samruni hljóða. Henni gekk illa að breyta
tónfalli í setningum eftir fyrirmælum og gekk
illa að heyra mun á mismunandi tónfalli. Öll
myndun stakra hljóða var þó eðlileg. I 364 orða
frásögn kom tvisvar fyrir að hún notaði eitt
sérhljóð fyrir annað og einkenndi það tal
hennar að nota raddað /r/ í stað óraddaðs /r/. Að
auki einkenndist tal hennar af óeðlilega
löngum sérhljóðum. Orðgleymska var mjög
væg en að öðru leyti var mál fullkomlega
eðlilegt og tal liðugt þó hún talaði fremur hægt.
Frá "endurhæfinga- og taugadeild Sjúkrahúss Reykjavík-
ur, 108 Reykjavík. Fyrirspurnir, bréfaskipti: María K. Jóns-
dóttir, Grensásdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, Grensásvegi
62, 108 Reykjavík. Sími: 525 1656. Bréfsími: 525 1662.
Netfang: marjo@rhi.hi.is
Engar vitsmunalegar truflanir voru til staðar.
Bæði yrt og óyrt minni var eðlilegt, sjónræn
úrvinnsla var góð og á óyrtu rökverkefni stóð
hún sig betur en 75% samanburðarhóps.
Tölvusneiðmynd af höfði, hjartalínurit og
ómskoðun af hjarta voru án sjúklegra breyt-
inga. Segulómun sýndi ummerki heiladreps
ofan til á framanmiðjufellingu (gyrus pre-
centralis) (mynd 1). Við ómskoðun á hálsæðum
sást hvirfilstreymi og hraðaaukning á blóð-
streymi í vinstri innri hálsslagæð. Hálsæða-
mynd sýndi stutta þrengingu á vinstri innri
hálsslagæð. Þessi breyting er talin orsök sega-
myndunar og blóðreks til heila.
Konan var sett á magnyl og fékk talþjálfun.
Einkennin gengu vel til baka á næstu mánuðum
og eru nú tæpast merkjanleg nema þeim sem
þekkja til sögu hennar.
Umræða
Eitt birtingarform áunninna taltruflana er að
sjúklingurinn hljómar eins og útlendingur
(foreign accent syndrome). Svona taltruflanir
eru mjög óalgengar og innan við 30 tilfellum
hefur verið lýst síðan Pick kynnti það fyrsta
árið 1919(1).
Margir þeirra sjúklinga sem lýst hefur verið
hafa talað hikandi og stirðlega og sumir þeirra
hafa haft málfræðistol (2,3). Það veldur þó ekki
því að þeir hljóma eins og útlendingar enda er
þvoglumælgi og stirðleiki í tali alla jafna ekki
túlkað sem erlendur hreimur. Það sem veldur
útlendu hljómfalli eru breyttir hljóðkerfislegir
eiginleikar hljóða og óeðlilegar áherslur (2,3).
Rétt er að líta á slíkt tónfall sem brottfallsein-
kenni þar sem sjúklingurinn hefur glatað hæfn-
inni til að mynda þann hljóm sem er eiginlegur
móðurmáli hans. Réttnefni á þessum einkenn-
um væri því tónfallsröskun eða hljóðkerfis-
röskun.