Kjarninn - 07.11.2013, Blaðsíða 75
01/01 kjarninn Álit
Þ
egar ég skelli fram þeirri staðhæfingu að á
Íslandi sé fötluðu fólki mismunað á hverjum
degi sé ég oft efasemdasvipinn á fólki og ég skil
hann að mörgu leyti. Mismununin er að sumu
leyti ekki áberandi og á sér stað í vernduðum
úrræðum, á lokuðum fundum, með illu augnaráði eða ærandi
þögn sem sviptir fatlað fólk réttindum sínum. Við höfum
jafnframt önnur viðmið um hvað er viðunandi fyrir fatlað
fólk en ófatlað fólk, og hvort sem við viljum viðurkenna það
eða ekki lifum við og hrærumst í samfélagi sem telur
það í lagi að útiloka, aðgreina, frelsissvipta og beita
fatlað fólk ofbeldi. Mismununin er því á ákveðinn
hátt ósýnileg og á annan hátt eðlileg. Ekki bara fyrir
ófatlað fólk, heldur líka fyrir okkur sem erum fötluð,
sem erum orðin svo vön mismunun og þeim skaða og
sársauka sem af henni hlýst. Þar að auki viljum við mögu-
lega ekki segja frá þessari líðan af ótta við að vera endanlega
stimpluð inn í samfélagið sem aumingjar og fórnarlömb af
því við erum með skerðingu – ekki manneskjur sem upplifa
mismunun vegna fordóma í samfélaginu.
Barnaskapur að berjast fyrir mannréttindum?
„Nefndu dæmi,“ segir fólk þegar ég held þessu fram og því
miður er það ekkert mál. Sum þeirra eru augljós og lítið
mál að benda á en önnur eru duldari og flóknara að setja
fingurinn á. Augljósu dæmin í mínu lífi eru að komast ekki
í kvikmynda hús því aðgengið er ekki viðeigandi fyrir hjóla-
stóla, þurfa að skila læknisvottorði þar sem þarf að koma
fram að ekki séu vísbendingar um fötlun þegar ég ætla að
sækja um að gerast varanlegt fósturforeldri og þegar karl-
maður gengur upp að mér á bílastæði fyrir utan matvöru-
verslun og káfar á mér blygðunarlaust þegar ég var ekki í
aðstæðum til að komast burt á stundinni. Flóknu dæmin,
sem erfitt er að benda á, eru þegar ég fer í bankann og
ókunnug manneskja klappar mér á kinnina og segir „mikið
er þetta sorglegt“. Þegar ég þori ekki svo árum skiptir að
fara til kvensjúkdómalæknis í hefðbundnar erindagjörðir því
ég er svo hrædd um að læknirinn tali við mig eins og barn
og gangi út frá því að ég sé kynlaus. Einnig þegar ég mæti í
útvarpsviðtal með maskara og varalit og þáttastjórnandinn
segir á innsoginu „Jjiii, ertu bara máluð, og allt?“ eins og hún
hafi aldrei séð málaða konu á ævinni. Þar að auki þegar ég
sit á fundi í vinnunni með hinu opinbera og embættis maður
segir með föðurlegri röddu í ráðuneyti ,,Freyja mín, þú
verður að gera þér grein fyrir því að fatlað fólk mun aldrei fá
alla þá þjónustu sem það þarf á að halda.“ Eins og að það sé
eðlileg og sjálfsögð staðreynd og bara barnaskapur af mér að
vera að berjast fyrir öðru.
Að búast við og gera ráð fyrir mismunun
Þegar þessi augljósu dæmi eru nefnd vill fólkið sem bað um
þau ekki endilega heyra þau og til þess að draga úr alvar-
leika þeirra og líða betur með sínar nýju upplýsingar bregst
það við með því að benda á að fólk sem mismunar viti ekki
betur, þetta hljóti að vera einstök tilvik og enginn annar
hafi lent í þessu sama. Veruleikinn er hins vegar sá að þetta
er daglegt brauð, ekki bara fyrir mig heldur fatlað fólk í
kringum mig, ásamt því sem íslenskar rannsóknir gefa það
skýrt til kynna að þessi mismunun á sér stað. Mismunun sem
leiðir til daglegra mannréttindabrota sem verða hversdags-
leg. Og það hættulega er að mörg okkar sem upplifum það
á eigin skinni förum að haga okkur í samræmi við það og
gera ráð fyrir því sem eðlilegum hluta af lífinu. Það geri ég
til dæmis með því að hringja á undan mér allt sem ég fer til
þess að tryggja að ég komist inn. Með því að tefja það stöðugt
að verða foreldri af ótta við viðbrögð samborgara minna sem
halda því margir fram að ég geti ekki myndað geðtengsl við
börnin mín þar sem ég geti ekki haldið á þeim. Jafnframt
með því að sleppa því í auknum mæli að fara niður í bæ eftir
partý því ég veit að ég verð að öllum líkindum fyrir áreitni
eins og í öll hin skiptin. Ég geri það líka með því að passa
að horfa ekki í augun á fólki í búðinni til þess að minnka
líkurnar á því að verða fyrir niðurlægingu í formi vorkunnar,
mála mig fyrir minnsta tilefni því flestir gera ráð fyrir því að
ég hafi mig ekki til, ógna heilsu minni til þess að þurfa ekki
hugsanlega, kannski, að hitta fordómafullan lækni og vera
hrædd við að gera kröfur til embættis- og stjórnmálamanna
því jafnrétti fatlaðs og ófatlaðs fólks sé bara draumórar og
tímasóun.
Umburðarlyndi gagnvart mismunun
Ekkert af þessu er í lagi, hvort sem það á sér stað einu
sinni eða daglega, hvort sem fólk „veit betur“ eða ekki. Í
almennum lögum og mannréttindasamningum kemur fram
að allir eigi rétt á að hafa ferðafrelsi, lifa fjölskyldulífi,
njóta heilbrigðisþjónustu og búa við friðhelgi og mannlega
reisn. Hins vegar er mismunun gagnvart fötluðu fólki hér-
lendis sem og víða erlendis svo hversdagsleg og sjálfsögð að
Sameinuðu þjóðirnar fundu sig knúnar til þess að gefa út
sáttmála árið 2006, sem verndar fatlað fólk sérstaklega og
tryggir því mannréttindi. Almennir samningar duga ekki til.
Ísland hefur undirritað sáttmálann en hvorki fullgilt hann
né lögfest, sem þýðir að fatlað fólk getur illa nýtt sér hann til
þess að vernda sig hér á landi. Sem er annað form af broti á
mannréttindum í sjálfu sér. Það hljóta því allir að vera sam-
mála um að það sé forgangsmál að fullgilda og lögfesta þann
sáttmála. Það bjargar fötluðu fólki ekki frá þeirri undirokun
sem það býr við en það er nauðsynlegt skref í þá átt að binda
enda á umburðarlyndi gagnvart mismunun á grundvelli
fötlunar og ýta undir að það verði hversdagslegt að vernda
mannréttindi okkar en ekki brjóta þau.
Í hversdagsleika
mismununar
Álit
Freyja Haraldsdóttir
Þingmaður Bjartrar
framtíðar
Deildu með
umheiminum
01/01