Kjarninn - 27.03.2014, Page 50
05/05 Viðtal
Berglind segir að kynjakvóti í fyrirtækjum geti átt rétt á
sér en segir rannsóknir benda til að bæði karlar og konur
hafi tilhneigingu til að ráða frekar karla í ákveðin störf og þá
sérstaklega innan tæknigeirans. Hún segir konur ósjálfrátt
verða út undan í ráðningarferlinu, þar sem tölvugeirinn
sé karlmiðaður. Hjá CCP sé stefnan að hafa blandaða hópa
en þrátt fyrir það hafi ekki tekist að breyta hlutföllunum
undanfarin ár. Ef til vill þurfi að endurskoða starfslýsingar
og annað svo fleiri konur sæki um auglýst störf en einnig sé
mikilvægt að kynna forritun fyrir stelpum og fá fleiri í nám.
Berglind segist ekki finna fyrir því að vera kona í
karlaheimi CCP. Hún segist aldrei hafa upplifað sig í verri
stöðu fyrir að vera kona en bætir við að ákveðinn karlakúltúr
sé í kringum tölvuleikina. „Strákarnir hafa oft klúrari húmor,
og ég hef verið í ráðstefnupartíi erlendis þar sem voru dans-
andi stelpur í búrum,“ segir Berglind sposk á svip og bætir
við að hún leiði það hjá sér.
ísland ekkert draumaumhverfi
Berglind segir óstöðugleika í íslensku efnahagslífi hafa
reynst CCP erfiðan. „Við erum í mjög erfiðu umhverfi eins
og er. Gjaldeyrishöftin flækjast mikið fyrir okkur og erlendu
starfsfólki sem er okkur nauðsynlegt.“ Hún segir fyrirtækið
hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að halda höfuðstöðvum
sínum á Íslandi eftir hrun, en eins og Hilmar Veigar Péturs-
son, framkvæmdarstjóri CCP, nefndi á Iðnþingi nýverið hafi
það eftir á að hyggja ekki verið skynsamleg ákvörðun.
Berglind segir að á Íslandi sé mikill skortur á tækni-
menntuðu fólki. Hún segir forritara ekkert endilega þurfa
að vera tölvunarfræðinga. Flestir þeir sem læri raungreinar
kunni að forrita upp að ákveðnu marki. Alltaf sé eftirspurn
eftir góðu fólki og það hafi ekkert breyst þrátt fyrir kreppu
og atvinnuleysi. Berglind vonar að hlutur kvenna í atvinnu-
greininni eigi eftir að aukast á komandi árum. Greinin sé
ung og forritun sé áhugavert og spennandi fag, sama af
hvoru kyni fólk sé.