Árbók skálda - 01.12.1955, Page 14
12
— Spurðu ekki mig, það ert þú sem ræður.
— Ég hélt nú, að það værir þú sem réðir venjulega.
— Nei, þú átt að ráða í kvöld.
Einhver þrái og annarleg eftirvænting greip hann og gerði
hann óróan. Það var í hennar valdi að leysa hann úr þessum
álögum, hún sem aðeins með einu orði gæti látið þau finnast,
hverfa hvort til annars ....
— Mér er alveg sama.
— Nei, þú átt að ráða, sagði hann snöggt og saug upp í
nefið um leið til að leyna geðshræringunni, sem gagntók hann
svo algjörlega.
Hann fann, að það var mikið undir þessum úrslitum komið.
Hún yrði að segja það kalt og án umbúða, að hún vildi helzt
af öllu fara heim með honum, að allt annað skipti ekki máli.
Svo heil og sterk, að hún gæti frelsað hann —
— Eigum við, hún dró að ljúka setningunni, eigum við að
koma suður í garðinn, við höfum ekki komið þangað frá því
snemma í vor?
— Æ, þangað langar mig ekkert, það er hvergi hægt að
sitja, grasið er svo blautt.
— Hvað þá, spurði hún vonsvikin í málrómnum.
— Ég vil að þú ráðir, sagði hann ekki alveg úrkula vonar.
— Eigum við þá að koma til Tótu og Bjarna? Við höfum
ekki heimsótt þau langa lengi?
— Æ, ég nenni því ómögulega, auk þess er ekki víst að
Bjarni sé heima.
En það var komin einhver ólund í hana, hún þagði og
horfði niður í götuna.
— Við skulum þá koma suður í garð, sagði hann eftir
dálitla þögn, en vissi um leið, að samþykki hans kom of seint.
— Nei, mig langar annars ekkert suður í garðinn, svaraði
hún hálf-stúrin og horfði frá honum út á tjörnina.
— Jú, það væri reyndar anzi gaman að koma suður í garð,
laug hann og reyndi að vera innilegur. En eitthvað hafði
brostið, einhver grunntónn orðið falskur. Þau gengu þegjandi