Árbók skálda - 01.12.1955, Page 60
58
korn, þá fara tannhjólin af stað í kollinum á mér með tals-
verðum skruðningi, og apparatið fer í gang og gengur hæga-
gang fyrst í stað en smáherðir á sér, unz ég rek hnefann í
skurðbakkann og segi: Brækur!
Það sem nú gerist er í fyrst lagi að feitur rauðhærður kven-
maður, sem stendur uppi á Álfhólsvegi, tekur upp um sig
pilsin og flýr sem fætur toga í áttina að Kaupfélaginu, og í
öðru lagi gerist það að strákarnir halda að það sé kominn
matur og eru komnir langleiðina upp að skúr með verkfærin
þegar þeir uppgötva að klukkan er rétt að byrja að ganga
tólf. Ennfremur gerist það að skurðbakkinn brotnar undan
högginu og fyllir stígvélin mín, en því tek ég ekki eftir fyrr
en löngu seinna, því að ég er önnum kafinn að reikna út í
huganum hve marga viðskiptavini við þurfum að útvega
Gvendi í Bót til þess að vinna fyrir 3,000 krónum. Ég byrja
á því að útskýra fyrir Inga að Gvendur í Bót borgi krónu í
umboðslaun fyrir hverjar skítugar vinnubuxur, sem stýrt sé
inn í nýja þvottahúsið hans, og krónu fyrir jakkann og tvær
krónur fyrir samfestinginn, og á leiðinni í bæinn reiknum við
að gamni okkar út hvað það sé mikill bissnes þarna á bíl-
pallinum, og það eru níu vinnubuxur og tveir samfestingar
og fjórir vinnujakkar, eða 17 krónu bissnes.
Og nú eigum við Ingi mjög annríkt. Fyrst hringi ég á Gvend
og segi honum að ég slái til, og síðan förum við heim til
mín og skipuleggjum herferðina, og við erum frá upphafi
sammála um að hér dugi ekkert nema skipulagning og aftur
skipulagning. Við byrjum á því að skrifa upp nöfnin á öllum,
sem okkur dettur í hug að hægt sé að þvinga til að láta þvo
af sér galla, og það verða 69 karlmennn og tvær stúlkur, sem
vinna hjá Bæjarútgerðinni. Næst hringjum við á Sigurð í
Dagsbrún og segjum honum allt af létta og biðjum hann að
lána okkur félagaskrána, og þegar hann heyrir hve mikið
er í húfi, þá er ekki nóg með að hann láni okkur skrána,
heldur lánar okkur skrifstofuna og tvo síma og þrjá aðstoðar-
menn.