Árbók skálda - 01.12.1958, Blaðsíða 58
56
Á öðru plani verður Narkissos ímynd hvers einstaklings sem kemst
til vits og ára: unglingurinn er vakinn af draumum og sjálfsdýrkun æsk-
unnar, hann verður að vaxa inní þjáningar mannkynsins til að verða
maður. Að sjálfsögðu komast sumir menn aldrei svo langt þó þeir lifi
langa ævi.
Á hinu siðferðilega plani má segja að ljóðið fjalli um lífshættu
sjálfselskunnar. Hún er ranghverfa kærleikans og leiðir til stöðnunar,
þroskaleysis, blindu, uppdráttarsýki og andlegs dauða.
Á heimspekilegu plani fjallar það um veruleikann og blekkinguna.
Það er sjálfsblekking að leita vísdóms eða fegurðar aðeins í sjálfum sér.
Maður tæmist hið innra af því að stara látlaust í spegilinn og sjá ekkert
nema yfirborðið. Sjálfan sig finnur maður bara í samneyti við aðra.
Veruleikinn er framar ölln þær skyldur sem ég á við bróður minn og
systur mína, við Þyrnirós.
Ljóðið er byggt yfir eitt höfuðtákn, vatnslindina. Vatnið er eitt
margræðasta tákn sem til er. Það er í senn tákn móðurinnar og frjó-
seminnar, ástarinnar, dauðans. Lindin verður Narkissosi tákn móður-
skautsins þangað sem hann þráir að hverfa aftur til áhyggjuleysis og
óvitundar. Þannig rennur móðurtáknið saman við dauðatáknið: sá sem
getur ekki slitið böndin við móður sína er dauðadæmdur, því hann skortir
grundvöll hins sjálfstæða lífs, vilji hans er lamaður. Vatnið er tákn frjó-
seminnar, en Narkissos vanhelgar það með ranghverfri ást sinni, sem
er ófrjó, vígð dauðanum. „Gleraður flöturinn“ gefur til kynna, að vatnið,
sem er tákn hins ólgandi, streymandi lífs, er „dautt“. En þegar það
lifnar við snertingu gustsins, eyðileggur það hina „dauðu“ spegilmynd
Narkissosar.
Myndin í vatnsfletinum er í vissum skilningi mynd af manni í fjötr-
um. Narkissos verður einskonar táknmynd kafarans sem er fangi vatns-
ins, á ekki lieima þar og hlýtur að farast, komist hann ekki á þurrt land.
Nú er það nokkurnveginn augljóst mál, að allt það sem ég hef nefnt
liér að framan var mér ekki í hug þegar ég byrjaði að yrkja ljóðið. Það
óx með ljóðinu og varð smámsaman skýrara. Hinsvegar er alls ekki víst
að lesandinn hafi fengið það útúr Ijóðinu, sem ég hef tínt til hér. Það
kann að vera mín sök fremur en lians. Mér hefur ekki tekizt að tjá það
sem mér bjó í brjósti.
Það var þetta sem ég átti við þegar ég talaði um eldraun tjáningar-
innar í upphafi. Eg er sannfærður um að þetta er markmið sem öll skáld
eiga að keppa að, hvort sem þau skrifa bundið mál eða óbundið: nefni-
lega að gera verk sín eins margræð og auðug að hliðstæðum og andstæð-
um einsog þeim framast er unnt. Því aðeins verður hvert skáldverk les-
andanum fersk og verðmæt reynsla.