SunnudagsMogginn - 04.12.2011, Side 43
4. desember 2011 43
„Svo var ég þrjú sumur uppi á Öxnadals-
heiði í vegavinnu, þetta hafði allt saman
djúp áhrif á mig þegar fram í sótti.
Allar fjarlægðir eru orðnar aðrar núna,
við vorum svo lengi fram í sveit í gamla
daga, allt var lengra og stærra í sér fyrir
barnsaugum.“
Væri kallað barnaþrældómur
– Frammi í Lýtingsstaðahreppi var á
þessum tíma stundaður búskapur með
19. aldar sniði.
„Já, mjög víða. Hreppurinn var nokk-
uð út úr á þeim tíma. Þjóðbrautin lá ekk-
ert þar í gegn og því var kyrrlátt. Það var
bara fólkið sjálft í sveitinni sem var á
ferðinni en ferðalangar aðrir en fjall-
göngumenn áttu ekki erindi þangað.
Þetta var hlémegin í tilverunni.“
– Maður býr að reynslu sem þessari.
„Allir búa að æsku sinni alla tíð, æsku-
dagarnir verða oft skýrari þegar fram líða
stundir. Enda segir eldra fólk oft um
gamla daga: ég man þetta eins og gerst
hafi í gær, þótt sjötíu ár hafi kannski lið-
ið. Tíminn hefur haldið þessu til haga
þannig að hann hefur fleygt hinu og
þessu en haldið vissum minningum
skærum og hreinum, svo fólki finnst að
þetta séu nýorðnir hlutir.“
– Þú sóttir það fast, ellefu ára gamall,
að fá að fara í vegavinnu á Öxnadalsheiði
og það gekk eftir. Ég veit ekki hvað fólk
myndi segja víð slíku í dag.
Hannes brosir. „Það væri kallað
barnaþrældómur,“ segir hann. „Við lág-
um uppi á fjöllum í tjaldi og ég teymdi á
eftir mér kerrujálka í öllum veðrum,
daginn langan.
Ég sótti stíft að komast í þetta. Það
voru aðrir tímar og þótti ekki ein-
kennilegt að nota börn talsvert til vinnu.
En það var með fyrra móti að fara í svona
stífa verkamannavinnu ellefu ára gamall.
Enda var ég dauðlúinn á kvöldin.
Þetta var á þeim árum þegar maður
stækkar ört og er óharðnaður, en þetta
gerði mér gott að mörgu leyti. Útivera til
fjalla er holl og góð, þótt þetta hafi verið
erfitt – þetta var gott fyrir lungun!“
– Þú hefur iðulega komið að þessum
tíma, og bernskuheiminum, í ljóðum
þínum.
„Já já, ég hef oft gripið til þeirra. Í
ljóðunum eru svipmyndir frá Öxnadals-
heiði, framan úr Lýtingsstaðahrepp og
frá Króknum. Hingað og þangað eru ljóð
sem vísa í þessa tíma og til Skagafjarðar.
Ef slík ljóð yrðu tekin saman úr öllum
bókum mínum, þar sem ég vísa í æsku-
dagana og í Skagafjörð, líka söguleg yrk-
isefni sem tengjast héraðinu, þá yrði það
efni í sérstaka ljóðabók. Þetta er á dreif í
bókunum …“ Hannes tekur undir að í
bókinni megi jafnframt finna lykla að
vissum ljóðum hans. En kallar það á
hann að fara reglulega norður á æsku-
stöðvarnar?
„Nei. Ég fór oftast eitthvað á sumrin
áður fyrr og stöku sinnum í seinni tíð,
ekki reglubundið. Ég þekki mig varla
lengur þarna; staðurinn er mér framandi
núna. Sannleikurinn er sá. Gamli bærinn
er breyttur og ég vil heldur hugsa um
hann eins og hann var.“
– Margir góðir listamenn hafa komið
frá Sauðárkróki.
„Já, það er satt. Hvers vegna? Elskan
mín, spurðu mig ekki um það. Það eru
málarar, fyrstan skal frægan telja Jón
Stefánsson, síðan bræðurna Sigurð og
Hrólf Sigurðssyni en bræður þeirra,
Snorri og Árni, voru leikfélagar mínir.
Jóhannes Geir … Svo eru það þessi skáld.
Guðrún frá Lundi fluttist á Krókinn og
skrifaði sín verk þar, og þá eru það hér-
aðsskáldin sem ég nefni, eins og Gísli
Ólafsson frá Eiríksstöðum sem var lands-
kunnur. Ekki má gleyma Helga Hálfdan-
arsyni ljóðaþýðanda, frænda mínum,
sem kom kornungur norður og átti alla
æsku sína á Sauðárkróki.
Miðað við ekki stærra pláss er þetta
sterkur hópur.“
Umhverfið skaut djúpum rótum
– Í bókinni er sterk tilfinning fyrir sögu-
legri vitund, um Skagafjörð og sögu
hans.
„Þetta er mikið söguhérað. Skaga-
fjörður kemur lítið við sögu í Íslendinga-
sögunum, Grettissaga gerist þar að hluta
og ein saga önnur, en þegar kemur fram
á 12. og 13. öld verður þetta mikill sög-
unnar vettvangur. Hólar í Hjaltadal eru
mikil miðstöð og svo þessar stórjarðir
sem Ásbirningar áttu; þetta er mikið
svið.
Það er kannski engin tilviljun að mestu
orrustur á Sturlungaöld skyldu háðar
milli þessara fjalla, þetta er svo mið-
svæðis. Þessir miklu hrossaflotar herj-
anna þurftu eitthvað að naga, enda fór
Sturla Sighvatsson stað úr stað í héraðinu
með her sinn, því hann var með ógrynni
af hrossum og þau þurftu að bíta gras.
Eftir að ég las Íslandssögu í barnaskóla
vakti það athygli mína hvað héraðið var
mikill vettvangur atburða að fornu. Ég
reyni að lýsa því í upphafi bókar hvað
Drangey sat alltaf djúpt í mér, bæði sem
sögustaður og sem eyja á firðinum. Um-
hverfið skaut djúpum rótum í mér.“
– Og situr þar enn?
„Já, situr enn.“
Þetta er nóg í bili
– Í bókarlok segirðu skilið við bernsku-
heiminn á Króknum. Ætlarðu að halda
áfram að skrifa minningar?
„Ég á staka kafla sem ég geymi mér, en
ég hef ekki uppi neinar ráðagerðir um að
setja það saman í bók. Ég hef gaman af að
rifja upp hitt og þetta, líka frá seinni ár-
um, í smásyrpum, en ég stefni ekki á að
gefa það út. Það má liggja eftir mig dauð-
an,“ segir Hannes og glottir. Bætir svo
við: „Þetta er nóg í bili.“
– Situr kveðskapurinn á hakanum
þegar þú vinnur að prósaverki, eða sinn-
irðu kveðskapnum jafnt og þétt?
„Ég sinni honum ekki lengur eins og
ég gerði. Enda áttræður kall – það væri
ofætlun að heimta það,“ svarar hann,
brosir, og segir kveðskapinn ekki leita á
sig núna. „Þessi bók hefur tekið tíma
minn og svo er ég að grúska í bók-
menntafræði; er eitthvað að skrifa hjá
mér og það tekur sinn tíma allt saman.
Maður fer sér hægt þegar maður er
komin á þennan aldur. Þessi bók varð til
hægt og bítandi, hin innri klukka gengur
hægar núna.
Það má heldur ekki yrkja frá sér allt
vit. Ef dómgreindin slaknar getur maður
lent á hálum ís.“ Hannes hugsar sig um
og bætir svo við: „Það er skylda manns
að nota kollinn meðan hann er þokka-
lega brúklegur. Fyrst manni var gefin
fýsnin til fróðleiks og skrifta, þá verður
að nota þá fýsn.“
’
Það þarf að fara tvær
skóflustungur nið-
ur … til að komast
niður á þennan tíma sem ég
bjó við. Þó að sum hús
standi enn er komið allt
annað andrúm og hið
gamla andrúm sem þar var
er horfið.
„Það er skylda manns að nota kollinn meðan hann er þokkalega brúklegur,“ segir Hannes Pétursson. Í nýrri bók hans eru minningamyndir úr barnæsku.
Morgunblaðið/Einar Falur