Uppeldi og menntun - 01.01.2013, Blaðsíða 44
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 22(1) 201344
viÐbrögÐ leiKsKólaKennara viÐ hl Jóm-2
HLJÓM-2 er hugsað sem skimunarpróf og er almenn málþekking barna ekki
athuguð heldur afmarkaðir þættir hennar, aðallega hljóðkerfisvitund samkvæmt
hefðbundinni skilgreiningu þess hugtaks (Ingibjörg Símonardóttir o.fl., 2002; Snow
o.fl. 1998). Með HLJÓM-2 eru ekki athugaðir aðrir grunnþættir málþekkingar eins
og orðaforði eða málfræði- og setningafræðiþekking. Í kjölfar HLJÓM-2 fær meira
en helmingur barnanna í Árnessýslu frekar almenna málörvun en vinnu með þætti í
hljóðkerfisvitund. Þó að gera megi ráð fyrir að nokkur hluti barna í áhættuhópi þurfi
almenna málörvun þurfa börn sem eru eingöngu í áhættu með sértæka lestrarerfið-
leika eða erfiðleika í umskráningu fyrst og fremst þjálfun í hljóðkerfisvitund. Börn sem
eru með frávik í almennum málþroska þyrftu að fá annars konar en einnig viðeigandi
örvun. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að með markvissri íhlutun er hægt að hafa áhrif
á málþekkingu barna, sérstaklega þjálfun hljóðkerfisvitundar (Bowyer-Crane o.fl.,
2008; Snow o.fl.,1998). Rannsóknir sýna einnig að börn í áhættuhópi eru lengur að ná
tökum á lestri en jafnaldrar þeirra og að bilið milli barna sem eiga í lestrarerfiðleikum
og þeirra sem ekki glíma við lestrarerfiðleika hefur tilhneigingu til að breikka eftir
því sem líður á skólagönguna. Sérstaklega á þetta við í þeim tilfellum þar sem ekki
er brugðist nægilega snemma við (Torgesen, 2001; Vellutino o.fl., 2006). Miklu máli
skiptir að nemendur í áhættuhópi fái kennslu við hæfi og glími við viðeigandi verkefni.
Brýnt er að rannsaka hvers konar íhlutun á sér stað í leikskólunum og hvernig væri
hægt að skipuleggja hana þannig að hún skilaði sem bestum árangri með hagsmuni
hvers barns að leiðarljósi.
Foreldrar og snemmtæk íhlutun
Í þessari rannsókn er í fyrsta skipti skoðað samstarf við foreldra eftir fyrirlögn
HLJÓM-2 en hafa ber í huga að foreldrar svöruðu spurningunum ári eftir að skimunin
með HLJÓM-2 fór fram. Með hugmyndafræði snemmtækrar íhlutunar að leiðarljósi
eiga foreldrar að fá leiðbeiningar og stuðning ef barnið þeirra greinist í áhættuhópi.
Samvinna við foreldra er nauðsynleg ef stuðla á að aukinni færni og örva málþroska
barna eins og fram hefur komið í erlendum rannsóknum (Miedel og Reynolds, 1999;
Sheridan o.fl., 2011).
Flestir foreldrar merktu við að þeir vissu að prófið hefði verið lagt fyrir. Hins vegar
kom ýmislegt fram í svörum deildarstjóranna sem bendir til þess að samstarf við for-
eldra hefði mátt vera í fastari skorðum. Deildarstjórarnir sögðust hafa upplýst for-
eldra betur um prófið og niðurstöður þess en fram kom í svörum foreldranna. Allt
of fáir foreldrar merktu við að þeir hefðu fengið góðar upplýsingar eða skriflegar
upplýsingar um útkomu prófsins, eða einungis um þriðjungur. Samvinna við foreldra
barna sem sýndu slaka færni á prófinu virtist hins vegar vera til fyrirmyndar.
Leikskólakennarar gegna mikilvægu hlutverki við að upplýsa foreldra um mikil-
vægi málörvunar og einnig að rætt sé við börnin og lesið fyrir þau (Otto, 2010). Í
nýútkominni skýrslu um stöðu barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun
kvörtuðu foreldrar um að erfitt hefði verið að finna upplýsingar um þjónustu og úr-
ræði í boði fyrir börn með frávik í máli og tali en nefndu jafnframt að leikskólakenn-
arar hefðu gegnt lykilhlutverki við að upplýsa foreldra (Hrafnhildur Ragnarsdóttir
o.fl., 2012).