Uppeldi og menntun - 01.01.2013, Blaðsíða 60
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 22(1) 201360
reiKningsbæKUr tveggJa alda
teiknum og lestrarreglum; ... [Þeim sem betur eru að sér enn eg] þarf eg ekki að segja,
að bókin er ekki samin handa þeim, heldur einkum handa leikmönnum. (Jón Guð-
mundsson, 1841, Til lesarans)
Ljóst er að höfundur þekkti Stutta undirvísun. Hann tók meðal annars upp vísu um
merkingu sætanna í tugasætiskerfinu sem þar er talin „alkend baga“ (Ólafur Stefáns-
son, 1785, bls. 6) og raunar er hana að finna í eldri handritum, til dæmis ÍB 217, 4to,
Arithmetica – Það er reikningslist (1721/1750).
Sig mest merkir hinn fyrsti,
– mann – tíu kvað annar,
hundrað þýðir hinn þriðji,
þúsund fjórði,vel grunda,
tíu þúsund tel fimta,
tel hundrað þúsund, sjötta,
sjöunda mér klerkar kenndu,
að kalla þúsund þúsunda.
(Jón Guðmundsson, 1841, bls. 8; orðaröð í næstsíðustu línu samkvæmt rímreglum og
texta Ólafs Stefánssonar (1785))
Efnisskipanin er hefðbundin: Reikniaðgerðirnar fjórar í heilum tölum og brotnum,
þar með töldum tugabrotum, mælieiningar og gjaldmiðlar ásamt þríliðu en engin
algebra. Vaxtavextir voru nýjung og sýnt var hvernig mætti reikna þá til baka, eitt og
eitt tímabil í senn.
Bókin hófst á almennum ráðleggingum um námið (bls. 1–3), til dæmis að byrja
fremst á bókinni, kunna töflurnar viðstöðulaust, æfa sig á dæmunum, sem voru
reiknuð í bókinni, og skrifa læsilega og greinilega tölustafi. Viðvaningum var bent á
að hafa til taks steinspjald og griffil eða krít og hreina fjöl til að geta numið burt tölur
sem kynnu að vera rangt settar. Höfundur benti lesandanum á að skapa sér ný dæmi
sömu tegundar, reikna þau og prófa. Hann rakti aðferðir, til dæmis við margföldun, í
átta tölusettum reglum. Margföldun með tveggja stafa tölu mætti þó forðast með því
að „sundra henni“ í þætti, til dæmis að margfalda fyrst með 7 og svo með 8 í stað þess
að margfalda með 56.
Fleiri dæmi um verslun og viðskipti er að finna í Reikníngslist en í 18. aldar bók-
unum tveimur. Dæmin fólu í sér boðskap: Andvirði innfluttra munaðarvara, svo sem
kaffis, tóbaks og brennivíns, mætti verja á skynsamlegri hátt en svo, og dæmi voru
gefin um það. Sögð var saga af manni sem vandi sig á að drekka hálfpott af brennivíni
á dag frá þrítugu til sextugs (Jón Guðmundsson, 1841, bls. 40), öðrum sem keypti
brennivín í tunnu í Reykjavík og seldi á okurverði upp til sveita eftir að hafa tekið af
skammt fyrir sjálfan sig og vini sína (bls. 228) og enn öðrum sem ráðstafaði árslaunum
sínum í kaffi, brennivín og brauð hjá bakara (bls. 28–30). Nemendur fengu reiknings-
dæmi af þessu tagi til lærdóms og viðvörunar. Samt var ekki minnst á heilsufarsleg
vandamál tengd brennivínsdrykkju, einungis á kostnað, og mikill kostnaður við kaffi
er nefndur í sömu andrá. En varhugur gagnvart þéttbýlinu leynir sér ekki.