Uppeldi og menntun - 01.01.2013, Blaðsíða 79
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 22(1) 2013 79
GUÐMUNDUR b. KRISTMUNDSSON
MENNTAvÍSINDASvIÐI HÁSKÓLA ÍSLANDS
Uppeldi og menntun
22. árgangur 1. hefti 2013
Hugleiðing um Læsi
inngangUr
Hér fer á eftir stutt hugleiðing um ritið Læsi eftir Stefán Jökulsson, í ritröð um grunn-
þætti menntunar fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla, sem kom út á síðasta ári í kjölfar
Aðalnámskrár 2011. Í formála mennta- og menningarmálaráðherra hvetur hann
„starfsfólk skóla, foreldra, forráðamenn og nemendur til að kynna sér vel efni heft-
anna og starfa í anda þeirra“. Það er því ólítið hlutverk sem heftin gegna og boðskap
þeirra er ætlað að ná til breiðs hóps fólks.
Læsi og umræða um það á undanförnum áratug hefur meðal annars einkennst af
leit að nothæfum skilgreiningum á þessari færni til að ráða í texta, skilja hann og læra
af honum. Hvatinn að þessari fjölbreyttu og oft flóknu umræðu er af ýmsum toga.
Þjóðir heims verða sér æ meðvitaðri um tengsl læsis við afkomu og stöðu sína í hópi
þjóða. Undanfarna áratugi hefur orðið mikil breyting á aðgangi almennings að upp-
lýsingum og almennri þátttöku hans í miðlun upplýsinga og krafa samfélagsins til
lestrarfærni vex hröðum skrefum. En illa gengur að skilgreina þá kröfu þótt reynt sé
að gera það með ýmsu móti, svo sem með námskrám og hjá fyrirtækjum og stofn-
unum sem stunda rannsóknir eða eru í leit að starfsmönnum. Hvaða færni þarf ung-
lingur hafa náð þegar hann hefur lokið skyldunámi? Þetta er ein mikilvægasta spurn-
ing hverrar þjóðar, en hún er flókin og svarið krefst mikillar skoðunar á samfélaginu
og þeim væntingum sem það hefur. Það þarf þó stöðugt að hafa þessa spurningu
í huga þegar þróun menntunar er annars vegar. Læsi hefur þarna sérstöðu. Það er
lykill að námi í víðasta skilningi þess hugtaks. Það er einnig mikilvæg forsenda þess
að einstaklingur geti miðlað þeirri þekkingu sem hann aflar sér, skoðunum sínum og
tilfinningum og tekið þátt í mótun samfélagsins með lýðræðislegum hætti. Þannig er
læsi mikilvægt tæki fyrir þróun samfélagsins, þroska einstaklingsins og ævinám hans.