Uppeldi og menntun - 01.01.2013, Blaðsíða 56
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 22(1) 201356
reiKningsbæKUr tveggJa alda
Tveir forvígismenn upplýsingarstefnunnar á 18. öld gáfu út myndarlegar kennslu-
bækur í reikningi: Ólafur Olavius (1780) Greinilega vegleiðslu til talnalistarinnar, og
Ólafur Stefánsson (Stephensen) (1785) Stutta undirvísun. Voru þær hinar fyrstu af
sínu tagi á íslensku. Bækur Ólafanna tveggja urðu grundvöllur stærðfræðimenntunar
Íslendinga í sex áratugi. Næstu tvær kennslubækur í reikningi af svipaðri stærð og
telja má í anda upplýsingarinnar voru gefnar út á 19. öld: Reikníngslist, einkum handa
leikmönnum, eftir Jón Guðmundsson (1841), síðar ritstjóra Þjóðólfs, og Reikningsbók
Eiríks Briem (1869; 1880), síðar Prestaskólakennara. Bækurnar fjórar eru fyrstu heild-
stæðu kennslubækurnar í reikningi sem ritaðar voru á íslensku. Áhrifa þeirra gætti
allt frá 1780 fram undir 1920 en bók Eiríks Briem var síðast gefin út 1911. Bæði á 18.
og 19. öld komu út handbækur með reikningstöflum og leiðbeiningum um einfaldan
reikning (Hatton, 1746; Jón Jónsson (Johnsonius), 1782; Sigurður Br. Sivertsen, 1841)
en ekki verður fjallað um þær hér.
Allmargar kennslubækur í reikningi voru gefnar út allt frá því að sett voru lög nr.
2/1880 um uppfræðing barna í skrift og reikningi (Lög um uppfræðing barna í skript
og reikningi nr. 2/1880). Hér var valið að rannsaka tvær bækur sem voru löggiltar
árið 1929 til nota í skyldunámi en endurspegla ólíka afstöðu til reikningsnáms. Sú
fyrri er Reikningsbók eftir Sigurbjörn Á. Gíslason (1911a, 1911b, 1912) sem sýnir annars
konar nálgun en 19. aldar bækurnar og minnir nokkuð á Greinilega vegleiðslu eftir Ólaf
Olavius. Hin síðari er Reikningsbók handa börnum eftir Elías Bjarnason (1927, 1929) sem
hafði mikil áhrif á íslenska reikningskennslu barna langt fram eftir 20. öld.
Í rannsókninni var spurt hverjar væru rætur kennslubókanna, hvort eitthvað væri
líkt með höfundum þeirra, um útbreiðslu bókanna og markhópa, markmið höfund-
anna og félagsleg gildi, hugmyndir þeirra um nám og kennslu, og hvort tengja mætti
bækurnar við evrópska menningarstrauma og menntastefnur.
Snið kennslubókanna sex var borið saman við staðlað snið og inntak evrópskra
reikningsbóka eins og Van Egmond (1980) hefur lýst. Formálar kennslubókanna og
inntak voru greind með tilliti til markhóps, markmiða og hugmynda um nám og
kennslu. Reikningsdæmin voru greind með tilliti til gildismats og staðhæfingar Niss
(1996, bls. 13) um að einungis séu nokkrar grundvallarástæður fyrir því að haldið sé
úti kennslu og námi í stærðfræði, nefnilega að stærðfræðimenntun
• stuðli að tæknilegri, efnahagslegri og félagslegri þróun samfélagsins,
• stuðli að viðhaldi og þróun menningar og hugmyndaheims samfélagsins, og
• veiti nemendum forsendur til að takast á við nám, störf og þátttöku í þjóðfélaginu.
Enn fremur var beitt sagnfræðilegum aðferðum: leitað heimilda í fræðiritum um sögu
reikningskennslu, menntakenningar og ævi höfunda kennslubókanna. Heimildir um
æviágrip eldri höfundanna fjögurra eru fengnar úr Íslenzkum æviskrám (Páll Eggert
Ólason, 1948–1976) en yngri höfundana tveggja úr Kennaratali (Ólafur Þ. Kristjánsson,
1958–1965) nema annars sé getið.