Uppeldi og menntun - 01.01.2013, Blaðsíða 59
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 22(1) 2013 59
KristÍn bJarnadóttir
Boðið var að piltar skyldu læra Geographia og Arithmetica, en hvorugt var þar [í
Reykjavíkurskóla] kennt í minni tíð … okkur bara sagt, að við ættum að læra þetta,
og það gekk þá upp og niður … öllum sem komust í efra bekk var gefin stiptamt-
manns Ólafs Arithmetík, en það var í sjálfra piltanna valdi, hvort þeir luku upp bók-
inni nokkurntíma eða aldrei. (Árni Helgason, 1907–1915, bls. 86)
Stutt undirvísun er styttri bók og samanþjappaðri en Greinileg vegleiðsla. Einungis voru
sýnd fjögur til sjö dæmi um hverja reikniaðgerð í heilum tölum. Stutt undirvísun er
að miklu leyti byggð á háskólafyrirlestrum þar sem reikniaðferðum voru gerð ná-
kvæm skil en ekki sýnd fjölbreytileg nálgun eins og í Greinilegri vegleiðslu. Sýnt var
hvernig má einfalda tölur í þríliðu með styttingu og kallast hún eins og önnur brögð
í þríliðu „Praxis Italica af því að þeir Ítalísku hafa slíkt að mestu uppfundit“ (Ólafur
Stefánsson, 1785, bls. 141). Dæmum úr fornmenntum bregður fyrir, svo sem um skipa-
fjölda í Trójumannabardaga (bls. 60) og samræður [Markúsar] Antoníusar og félaga
hans Semproníusar (bls. 175). Stöku sinnum má öðlast innsýn í aldarhátt. Fjallað var
um dánarbú, kaup og útgerð báta, aflaskipti, afköst sláttumanna og fleira er varðaði
hefðbundinn búskap stórbænda sem höfðu mannskap á stóra báta eins og áttæringa.
Fátækum var gefin ölmusa og dæmi sýnir röðun til borðs eftir virðingarröð og sam-
svarandi mismikinn íburð í mat. Dæmin voru notuð til að sýna aðferðir: Annars vegar
lausn jöfnu með tveimur óþekktum stærðum (bls. 241–248) en hins vegar notkun jóm-
frúareglu (bls. 169–173), afbrigði af blöndunarreglu sem beitt var við blöndun ólíkra
þátta við tiltekin skilyrði.
Ólafur Stefánsson ritaði ávarp til stjórnar konungsverslunarinnar sem ætla má að
hafi styrkt eða kostað útgáfuna. Þar segir að hann afhendi bókina löndum sínum og
sér í lagi uppvaxandi æskufólki til að veita því þekkingu og hagkvæmni svo að það
geti tekið einhvern þátt í versluninni eða orðið þjónar hennar þegar þess tími komi
(bls. *4). Aðeins eitt dæmi er þó að finna um innkaup hjá kaupmanni. Verslunarvaran
var brennivín og mjöður. Ef til vill hafa menn ekki þurft að sækja margt annað til
kaupmannsins nema þá mjöl. Í einu dæmanna sagði að keyptar hefðu verið til Íslands
árið 1750 10.000 tunnur mjöls sem skipta átti milli 40.000 manns sem menn vissu fyrir
víst vera á landinu (bls. 60).
Reikningslist – Jón Guðmundsson
Jón Guðmundsson (1807–1875), síðar ritstjóri Þjóðólfs, átti erfiða æsku sökum fátæktar
og veikinda en lauk stúdentsprófi 25 ára gamall (Einar Laxness, 1960). Jón var ráðinn
umboðsmaður konungseigna á Kirkjubæjarklaustri á Síðu árið 1836 og gegndi því
starfi til 1847. Þar ritaði hann, liðlega þrítugur að aldri, bókina Reikníngslist, einkum
handa leikmönnum, 260 bls., auk fjögurra bls. formála (Jón Guðmundsson, 1841). Bókin
var prentuð í Viðey á kostnað Ólafs M. Stephensen, sonar Magnúsar. Jón Guðmunds-
son taldi sig einnig þurfa að forðast ámæli menntaðra lesenda. Ekki mátti samt treysta
því að allir kynnu að lesa:
[M]á samt einginn sá hugsa sér að læra neitt af því – nema með góðri tilsögn – sem
ekki kann vel að lesa, þ.e. sem gétur gjört sér greinileg meiníngaskil eptir lestrar-