Uppeldi og menntun - 01.01.2013, Blaðsíða 106
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 22(1) 2013106
Um lifandi og daUÐa ÞeKKingU
alltaf mikilvæg í gagnrýninni hugsun. Þessi þrá að vilja helst vita allt um allt, bara
til að skilja hlutina aðeins betur og þekkja nánar ástæðurnar og forsendurnar að baki
ályktananna, lausnanna, framkvæmdanna og atburðanna. Gagnrýnin hugsun er
mikilvæg fyrir alla skapandi einstaklinga … því með henni greinum við, drögum í
efa, skyggnumst á bak við framhliðina og undir yfirborðið. Við það fæðast oft nýjar
hugmyndir og lausnir sem hitta í mark því byggt er á grunni sem hefur verið vel
kannaður. Skapandi hugsun og gagnrýnin, greinandi hugsun eru í raun tvær hliðar á
sama fyrirbærinu. (KHS, 2010, bls. 56–57)
Ef við heimfærðum þetta á þrískiptingu mína á sviðum hugsunarinnar mætti segja að
markmið og aðferðir Sókratesar og Platóns væru tvær hliðar á sama fyrirbærinu. Og
þá væri jafnframt ljóst að svið annars mætti sín lítils án hins.
Við notum sjálfstæða hugsun til að vinna úr fyrri þekkingu. Þannig styðst Kristín
Hildur Sætran við þrjár skilgreiningar á þekkingunni sem er fyrir hendi, hún sé „undir-
staða alls náms, viðurkenndu svörin, og það sem reynslan hefur kennt okkur, og
þeirri þekkingu þarf að miðla til nemendanna“ (KHS, 2010, bls. 155). Í mínum huga
er þetta ákall um lifandi kennslu. Nemendur þurfa að „geta litið þekkinguna gagn-
rýnum augum og viðurkenna að þeir sjálfir, jafnt sem höfundar námsefnisins, gætu
verið með ranghugmyndir og hafa stuðst við staðleysur“ (KHS, 2010, bls. 155). Hér
stígur að mínum dómi hin sjálfstæða hugsun fram. Kristín segir hugsunina sjálfstæða
ef nemendur hafa annars vegar fundið fyrir ögrun; unnið út frá eigin áhuga og sett
fram eigin sjónarmið; byggt á eigin reynslu, hughrifum og tilfinningum; haldið þræði
og gagnrýnt eigin fullyrðingar og annarra. Hins vegar ættu þeir á eigin forsendum
að hafa greint efnið og dýpkað; sett fram spurningar; spurt áfram og leitað svara;
sett fram og greint rök; rætt efnið frá mörgum hliðum og tengt það utanaðkomandi
þáttum (KHS, 2010, bls. 161).
Mynd. Svið hugsunarinnar
skapandi
hugsun
gagnrýnin
hugsun
sjálfstæð
hugsun
Á myndinni má sjá hvernig ég sé fyrir mér þrískiptinguna á sviðum hugsunarinnar
og gagnvirkni þeirra. Í umfjöllun sinni um hina sjálfstæðu hugsun segir Kristín að
leggja þurfi „áherslu á að andrúmsloftið í skólastofunni sé vinsamlegt og hlýlegt til að
sjálfstraust nemenda bíði ekki hnekki við óhjákvæmileg mistök sem fylgja ætíð auknu
frelsi og sjálfstæði“ (KHS, 2010, bls. 162). Hún undirstrikar þannig að öll kennsla
byggist á virðingu og umhyggju.