Morgunblaðið - 07.04.2012, Side 20
20 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 7. APRÍL 2012
SVIÐSLJÓS
Ingveldur Geirsdóttir
ingveldur@mbl.is
Svo gæti farið að fimm hundruð til
þúsund íslenskar landnámshænur
eignuðust bráðlega heimili í Hrísey
í Eyjafirði. Kristinn Árnason, íbúi í
Hrísey, er með þá hugmynd í
vinnslu að fá sér íslenskar land-
námshænur og hefja eggjafram-
leiðslu í eyjunni. Kristinn hefur
augastað á 380 fermetra húsnæði
sem Svínaræktarfélag Íslands á í
Hrísey undir hænsnaræktina.
„Það var rekin hér einangrunar-
stöð fyrir svín og það húsnæði hef-
ur staðið autt síðan áramótin 2010-
2011 þegar stöðin var lögð niður.
Ég hef haft það í huga að finna not
fyrir húsnæðið og það hefur aðeins
blundað í mér að vera með íslensk-
ar landnámshænur í því. Önnur
hugmynd hefur svo sem ekki komið
upp,“ segir Kristinn. Ekki þarf að
breyta húsnæðinu mikið fyrir hæn-
urnar, aðeins taka út svínainnrétt-
ingarnar og breyta vatnskerfinu að
sögn Kristins. Að öðru leyti er hús-
næðið klárt.
„Það er líka góð aðstaða til að
búa til útihólf fyrir hænurnar en
hugmyndin er að hafa þær frjálsar
inni í húsinu í einum stórum sal og
svo fengju þær að ganga inn og út
eins og þær vildu.“
Kristinn stefnir á að vera með líf-
ræna eggjaframleiðslu enda Hrísey
með lífræna vottun.
„Það virðist vera eftirspurn eftir
eggjum úr frjálsum hænum. Eyjan
er líka vottuð og það ætti vel við að
vera með lífræna eggjaframleiðslu.“
Betri í marensbakstur
Hugmynd Kristins gengur út á
að framleiðslan yrði mestmegnis
sjálfbær og notaðir yrðu mataraf-
gangar eyjarskeggja sem fóður fyr-
ir hænurnar ásamt tilbúnu fóðri.
Það myndi spara fóðurkostnað, auk
þess segir Kristinn egg úr hænum
sem fá matarafganga og ganga
frjálsar miklu betri en önnur egg.
„Þau eru næringarríkari og
bragðsterkari. Rauðan verður líka
rauðari. Svo hafa konurnar talað
um að það sé betra að baka úr
þeim, sérstaklega marens, það þurfi
í raun bara eitt egg í staðinn fyrir
tvö því krafturinn í þeim sé meiri.“
Kristinn hefur aldrei átt hænur
en segist stundum líta eftir fimm-
tán landnámshænum sem vinur
hans í eyjunni á og honum finnist
þær skemmtilegar skepnur.
Skepnuhald er honum þó ekki
ókunnugt, hann var bústjóri ein-
angrunarstöðvarinnar fyrir svínin
þar til hún var lögð niður. Þá rækt-
ar hann nautgripi af Galloway- og
Limosin-kyni í félagi við aðra í
Hrísey auk þess sem hann rekur
einangrunarstöð fyrir innflutt
gæludýr í eyjunni.
„Það hefur komið upp sú hug-
mynd að vera með frjáls svín líka í
eyjunni en flutningskostnaðurinn
yfir sundið er alltaf erfiður, það er
auðveldara að flytja egg yfir en svín
til slátrunar,“ segir Kristinn.
Vel tekið í hugmyndina
Á Atvinnu- og nýsköpunarhelgi
sem var haldin á Akureyri nýverið
kynnti Kristinn hugmyndina um líf-
ræna eggjabúið, hann segir að vel
hafi verið tekið í hana. Hann hefur
líka rætt málið við ráðunauta hjá
Búnaðarsambandi Eyjafjarðar og
gert frumathugun á því hjá þeim.
Kristinn segir að þar á bæ hafi
mönnum þótt áhugavert að skoða
þetta nánar.
Hríseyingar hafa líka tekið vel í
hugmyndina að sögn Kristins en
eggjaframleiðslan gæti skaffað eitt
ársverk í eyjunni.
„Það hefur alls staðar verið vel
tekið í þessa hugmynd. Ég er ekki
farinn neitt langt með hana og á
eftir að gera kostnaðaráætlun og
auglýsa eftir áhugasömum fjárfest-
um,“ segir Kristinn sem getur ekki
á þessari stundu sagt til um hvenær
hugmyndin verður að veruleika.
„Það er undir mér komið, hvað ég
ætla að vinna þetta hratt, hvenær
þetta kemst í gagnið.“
Frjálsar varphænur í Hrísey
Morgunblaðið/Ómar
Gaggalagú Ef allt fer samkvæmt áætlun munu íslenskar landnámshænur brátt verpa lífrænum eggjum í Hrísey.
Hugmyndir eru uppi um að hefja eggjaframleiðslu í húsi sem var eitt sinn einangrunarstöð fyrir svín í eyjunni.
Hænsnabóndinn Kristinn Árnason
ætlar að fóðra hænsnin á afgöngum.
Er með hugmynd um að hefja lífræna eggjaframleiðslu í Hrísey Yrði með 500 til 1000 íslenskar
landnámshænur sem lifðu m.a. á matarafgöngum eyjarskeggja og gengju um frjálsar og hamingjusamar
Vísindatímaritið The New England
Journal of Medicine birtir grein eftir
Unni Önnu Valdimarsdóttur, dósent í
lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands
og samstarfsfólk hennar. Greinin
fjallar um rannsókn Unnar en hún
leiddi í ljós að einstaklingar sem ný-
lega hafa greinst með krabbamein eru
í verulega aukinni hættu á sjálfsvígi og
skyndilegu andláti vegna hjarta- og
æðasjúkdóma.
Unnur Anna segir að þeir upplifi
mikla streitu við þessar aðstæður og
að sjálfsvíg og skyndilegt andlát vegna
hjarta- og æðasjúkdóma við greiningu
krabbameins séu líklega tvær af alvar-
legustu birtingarmyndum þess álags.
Áður var talið að þessi aukna hætta
stafaði af erfiðum krabbameinsmeð-
ferðum eða því langtímaálagi sem
fylgir því að lifa með lífshættulegum
sjúkdómi. Niðurstöður rannsóknar-
innar bendi hins vegar til þess að
krabbameinsgreiningin sjálf og það
andlega álag sem henni fylgir auki
snögglega hættuna á sjálfsvígi og and-
láti vegna hjart- og æðasjúkdóma. Í
samstarfi við Karolinska Institutet í
Stokkhólmi, Örebro-háskóla og Har-
vard fylgdist Unnur með sex milljón-
um Svía í sænskum heilbrigðisgagna-
grunnum frá ’91-’06. Á tímabilinu
greindust yfir
500.000 manns
með krabbamein.
Á fyrstu viku eftir
greiningu var
hópurinn í um
tólffalt meiri
hættu á að svipta
sig lífi og um sex-
falt meiri hættu á
að deyja vegna
hjarta- og æða-
sjúkdóma en fólk á sama aldri sem
ekki hafði greinst með krabbamein.
Hin aukna áhætta var ekki skýrð af
fyrra heilsufari. Hættan minnkaði
hins vegar hratt á fyrsta ári eftir
greiningu sem bendir til að orsökin sé
streituvaldandi áhrif greiningarinnar
sjálfrar fremur en áhrif meðferðar
eða erfiðleika sem búast má við síðar í
sjúkdómsferlinu. Niðurstöður rann-
sóknarinnar benda til þess að það
andlega áfall sem einstaklingar verða
fyrir við krabbameinsgreiningu geti
haft verulegar heilsufarsafleiðingar.
„Niðurstöðurnar gefa skýr skilaboð
um nauðsyn aukins stuðnings og eft-
irlits með andlegri og líkamlegri
heilsu þeirra sem nýlega hafa greinst
með krabbamein,“ segir Unnur.
gudrunsoley@mbl.is
Alvarlegar afleið-
ingar greiningar
Krabbameinssjúklingar í áhættuhópi
Unnur Anna
Valdimarsdóttir
Hvaðan koma landnáms-
hænurnar?
Landnámshænsn komu til Íslands
með landnámsmönnum á tíundu
öld og rannsóknir á vefjaflokkagerð
þeirra sýnir skyldleika með gömlum
norskum hænsnum.
Hver eru einkenni hænunnar?
Íslenska landnámshænan er lit-
skrúðug, fremur harðger og hefur
sterka hvöt til að unga sjálf út og
liggja á eggjunum. Hún er frekar lít-
il, hænur eru 1,3-1,5 kg að þyngd en
hanar 1,7-2,0 kg.
Hænan verpir um einu eggi á dag
um varptímann. Hún getur vel skil-
að hátt í 300 eggjum á ári ef vel er
hugsað um hana.
Er til félagsskapur kringum
íslensku hænuna?
Eigenda- og ræktendafélag land-
námshænsna var stofnað í nóv-
ember 2003. Félagið vinnur öt-
ullega að því að viðhalda stofni
landnámshænsna hér á landi og
vekja áhuga almennings á tegund-
inni. Eitt af verkefnum félagsins er
að styðja markaðssetningu eggja úr
frjálsum landnámshænum og að
koma á framfæri upplýsingum um
hvar þau er að finna. Heimasíða fé-
lagsins er www.haena.is.
Spurt&svarað
r