SunnudagsMogginn - 01.07.2012, Blaðsíða 20

SunnudagsMogginn - 01.07.2012, Blaðsíða 20
20 1. júlí 2012 um til sögu um að körfubolti væri ekki áhugamál hjá mér eins og hjá svo mörg- um í Eistlandi, heldur handbolti, ég væri markmaður og á einni æfingunni hefði ég fengið tvo bolta í einu í hausinn, misst meðvitund og legið í fimm mínútur. Síð- an hafi ég aftur fengið rænu en eftir þetta hafi allt verið ömurlegt; meira að segja mamma var ömurleg og að í skólanum hefðu allir verið að stríða mér...“ Valmar dvaldist utan Eistlands þann tíma sem hann gegndi herþjónustu; var í Kaliningrad. „Það var regla að menn yrðu að vera 650 km að heiman í hern- um.“ Hann var m.a. í borginni Sovetsk. „Það væri lygi að segja að herinn væri eins og fangelsi, en samt er það að mörgu leyti svipað. Þegar Stalín dó var föngum veitt sakaruppgjöf, margir voru sendir í herinn og héldu þar sínum lífsstíl og svipuðum reglum í hernum; ef einhver kjaftaði í yfirmennina átti hann á hættu að vera lagður í einelti og barinn! Ég var svo heppinn að vera í lúðrasveit hersins og ákveðnar reglur náðu ekki yfir okkur!“ Hann segir tvö ár of langan tíma til að eyða í her „en á móti má segja að maður lærði sitthvað. Kannski er ég heppinn; ég hef alltaf verið mikill fatalisti – for- lagatrúar; ég trúi að mér hafi verið ætlað þetta og sætti mig við því einhvern veg- inn við það. Að minnsta kosti finnst mér einfaldara að sætta mig við það þannig. Stundum verð ég reyndar alveg brjálaður en hugsa þá alltaf hvað ég geti fengið jákvætt út úr því.“ Valmar segir þennan hugsunarhátt hafa hjálpað sér gríðarlega í lífinu. „Ég hef hvergi átt erfitt með að aðlagast og hef til dæmis aldrei fengið neina útlend- ingatilfinningu hér á landi. Ég verð auð- vitað alltaf útlendingur, við því er ekkert að gera, en það er ekki neitt vandamál. Ég held jafnvel að það sé spennandi fyrir innfædda; það vilja t.d. allir hafa einn út- lending í körfuboltaliði!“ segir Valmar og hlær. Hann ólst upp í lútherstrú og því segir Valmar auðvelt fyrir sig að starfa innan íslensku þjóðkirkjunnar. „En ég veit að hefði ég þurft að fara til Afganistan í stríðinu hefði ég líklega spilað í kirkjunni þeirra. Markmiðið er alls staðar það sama; alveg eins og að tjá sig – enska, þýska eða finnska hljóma ekki eins en meiningin er sú sama. Það er eins með trúna.“ Kjarnorkuslysið í Tsjernobyl átti sér stað á meðan Valmar var í sovéska hern- um. „Minn hópur átti á hættu að vera sendur þangað til að taka til en við slupp- um sem betur fer og fyrir það er ég þakk- látur. Og mengunin fór framhjá okkar svæði; við sluppum við mengunarskýið.“ Gaman að vinna með eldri borgurum Valmar kemur víða við, eins og að framan er getið: er organisti í Glerárkirkju og stjórnar kirkjukórnum, leikur á nikkuna og fiðluna við ýmsar athafnir, er Hvann- dalsbróðir og loks hefur hann stjórnað Kór aldraðra á Akureyri síðustu misseri. Hann segist hafa sérstaklega gaman af því síðastnefnda. „Eldri borgararnir eru rosalega virkir; þetta er ótrúlega orkumikið fólk. Meðal- aldurinn er 79 ár en þetta er eitt það gam- anmesta starf sem ég hef lent í. Allir eru mættir klukkan hálf fimm til að syngja, enginn þreyttur eftir langan vinnudag og hugsa bara um sönginn. Þetta er líka góð- ur tími til að æfa; margir í hópnum fylgj- ast með fótbolta og enginn missir af leikj- um því æfingin er búin fyrir kvöldmat. Mér finnst ótrúlegt hvað þetta fólk er þakklát fyrir lífið og hve allir eru jákvæð- ir.“ Hann er nú hættur með kórinn sem fyrr segir, sem og Karlakór Akureyrar - Geysi. „Ég sagði fyrir ári að ég ætlaði að taka eitt ár í viðbót, vildi tilkynna það snemma svo þau hefðu góðan tíma til að finna nýjan mann.“ Það er eins með kórstjórnina og annað, Valmar vill ekki festast í viðjum vanans. „Það verður að vera einhver hreyfing í vatninu til þess að fiskurinn geti lifað. Það er sem sagt gott að einhver nýr maður komi og geri ákveðnar athugasemdir. Ég sem útlendingur er sérstaklega við- kvæmur fyrir texta. Ég vil að fráblásin hljóð; k, p, t, heyrist mjög vel og það er mikil erfiðisvinna að fá 40 manns til að vera mjög samtaka í því. Flestir kórar nenna því ekki en söngurinn virkar ekki nema þetta sé í lagi. Ég sagði einhvern tíma við karlakórinn að hann þyrfti að fara til Eistlands og syngja fyrir fólk sem skilur ekki íslensku; að leyfa öðrum að heyra hvað tungumálið ykkar er fallegt, að það innihaldi r, k, p, t, m, n – og þá fylltust menn stolti. Það að bera k, p, t vel fram gerir kórinn í raun góðan auk þess sem kórinn er jafn góður og veikasti söngur hans. Ég þoli ekki kóra sem öskra í einn og hálfan tíma! Við verðum að geta sungið veikt en þétt. Það geta allir öskrað. Ég segi stundum við kórinn að ég vilji að hann syngi ekki mjög hátt, heldur eins og smalastelpur. Að hann syngi einfalt, en beri k, p, t vel fram. Svona kór snýst ekki um rosalega tækni eða að menn séu tónlistarlega hámennt- aðir. En ef menn æfa ekki þessi smáatriði saman verður kórinn eins og margir sterkir einstaklingar séu að draga kerru hver í sína átt og kerran stendur kyrr. Það finnst mér skynsemisleysi. Það er eins og með fótboltalið; það er ekki nóg að hafa alla bestu mennina ef þeir hugsa ekki um liðsheildina. Hvatning fyrir kór finnst mér mjög einföld, og bara þrennt sem eru aðalatriðin: vilji, virðing og skynsemi. Og þetta á auðvitað um allt í lífinu.“ Með dótturinni á HM á skíðum Dóttir Valmars og Eneli, Elise Marie, náði þeim áfanga að keppa á heimsmeistara- mótinu á skíðum í fyrra, í Crans Montana í Sviss. Hún var í landsliði Eistlands og pabbinn fararstjóri og eini fylgdarmaður. „Þá sá maður hve þetta er í rauninni ósanngjarnt. Við vorum á sama hóteli og landslið Austurríkis; þaðan voru 16 keppendur og stór hópur fylgdi þeim. Sjö menn sjá bara um skíði og klossa og tveir frá vaxfyrirtækinu sáu um að bera undir skíðin. Svo voru þjálfarar og fararstjórar, en við vorum bara tvö. Ég fór sem lands- liðsþjálfari á fundina og Elise brýndi skíð- in sjálf og bar undir. Þótt hún væri jafn dugleg og Austurríkismennirnir ætti hún aldrei séns og kostnaður við að senda krakka í skíðaskóla er ofar minni getu; ég er bara tónlistarmaður! Við reyndum allt sem við gátum en ferðakostnaður og ým- islegt annað var allt of mikið. En ýmislegt var auðvitað jákvætt; til dæmis það, að þurfa að hugsa eins og atvinnumaður í íþróttum um tíma. Og að koma á svona stórmót eins og HM. Þessi reynsla fylgir henni allt lífið. Hún slapp líka tiltölulega lítið meidd frá ferlinum, brotnaði að vísu nokkrum sinum en ekki mjög illa. og nú er hún komin í íshokki og varð Íslands- meistari með Skautafélagi Akureyrar í vor. Það finnst henni mjög gaman.“ Fjölskyldan hefur nú verið í 18 ár á Ís- landi. „Hugsaðu þér hvað ég hef um- gengist margt fólk,“ segir Valmar. „Í bridge er ákveðinn hópur, á skíðunum er ákveðinn hópur og auðvitað í golfinu og tónlistinni. Ég stjórnaði þremur kórum þar sem voru tæplega 150 söngvarar; það var alveg sama hvort ég fór í Bónus eða Nettó, í raun hvert sem er, mér fannst ég þekkja alla!“ Það vakti töluverða athygli þegar „klassíski“ tónlistarmaðurinn gekk til liðs við rokkarana í Hvanndalsbræðrum. Hvernig kom það til? „Það gerðist um leið og ég kom til Akureyrar. Ég hafði spilað með Pétri Hvanndal í ýmsum hljómsveitum, og hann spurði hvort ég væri til. Við hitt- umst, ég hlustaði á tónlistina þeirra og það var akkúrat tónlistin sem mig vant- aði! Ég er meira fyrir þungarokk og pönk en til dæmis popp, með fullri virðingu. Ég hlusta á popp en er ekki mikið fyrir að spila það. En það var gaman að vera úti í bílskúr og spila pönk. Það er gott jafn- vægi við Bach; hann er reyndar ekkert annað en rokk og ról, bara önnur útgáfa.“ Valmar leikur á harmonikku með Hvanndalsbræðrum, sem hann segir ekki alltaf létt verk. „Í mínum huga er þetta íþróttaútgáfan af tónlist; eiginlega tón- listarleg líkamsrækt! Harmonikkan er Valmar með foreldrum sínum heima í Eistlandi fyrir nokkrum árum. Þetta var í síðasta skipti sem hann sá föð- ur sinn á lífi. Enn einn merkisviðburðinn upplifði Valmar nýverið. „Ég varð vitni að því þegar Manchester City varð Englands- meistari í knattspyrnu í fyrsta skipti í 44 ár! Það var stór- viðburður í mínum huga; ég sá fullorðna gráta vegna spennufalls. Eftir leikinn hugsaði ég með mér að nú gæti ég í rauninni hætt að fylgjast með fótbolta. Takmarkinu væri náð! Héðan í frá yrði þetta bara endurtekning...“ Valmar segist hafa elt bolta sem strákur heima í Eist- landi en aldrei æft. Hann fór svo að halda með Manchester United fljótlega eftir að til Íslands kom, en snerist síðar hugur. Ert þú ekki tónlistarmaður? „Fótboltinn er eins og gæludýr! Ég horfði á leik í fyrsta skipti fljótlega eftir að ég kom til Húsavíkur. Fór á sunnu- degi á Bakkann, þar voru þrír aðrir og ég sá að þeir horfðu stundum á mig. Svo kemur einn þeirra til mín og spyr: Ert þú ekki tónlistarmaður? Jú, svara ég. Hvað ertu þá að gera hér? Hvað meinarðu? Ég er að horfa á fótbolta. Horfir þú á fótbolta? Veistu hverjir eru framherjar í Liver- pool? Ég gat svarað því og þar með var ég viðurkenndur. „Okkar maður!“ sögðu þremenningarnir. Þar með var Valmar formlega kominn í hóp knatt- spyrnuunnenda í bænum. „Ég skynjaði að þetta skipti miklu máli í samfélaginu; þú getur aðlagast tiltölulega hraðar ef þú veist eitthvað um fótbolta!“ Hann upplifði þetta líka í skólanum. „Þar voru skólastof- ur skreyttar með myndum af Liverpool! Það var öðruvísi umhverfi en ég var vanur. Hér er svo mikill áhuga á enska fótboltanum. Danir voru nýorðnir Evrópumeistarar, [danski markvörðurinn] Schmeichel var fremstur í huga mér og hann var með Manchester United, svo ég valdi mér United út af honum. Þar voru líka Cantona og margir aðrir góðir. Einn daginn fékk ég svo nóg. Man ekki nákvæmlega hvað það var sem pirraði mig; kannski að þeir voru alltaf að vinna! Á svipuðum tíma kom Mark Boom til Sunderland, fyrsti Eistinn sem spilaði í Englandi og liðið hans vann Man- chester United 3:2. Ég sá leikinn í sjónvarpinu og Boom var frábær.“ Svo var það þegar kempan Kevin Keegan varð þjálfari hjá Manchester City að Valmar snérist á sveif með liðinu. „Honum fylgdu einhvers konar gæði sem mér fannst akk- úrat sanna að hann gæti tekið við hverju sem væri og gert eitthvað gott. Ég sem kennari verð að hugsa eins; hvernig ég næ því besta út úr nemendum. Ég vil reyndar ekki vera bekkjarkennari; það er eins og netveiði. Ég vil frekar vera í einkakennslu; ég er frekar sú manneskja sem situr með stöng og einn krók. Ef nemandi hefur enga orku á einhverju tímabili situr maður bara og fylgist með en verður samt að vera vakandi. Þegar hann er tilbúinn að takast á við verk- efnið verð ég að átta mig á því og þarf líka að vera til.“ Fótboltinn er eins og gæludýr Valmar Väljaots kann vel við ljósbláa og hvíta litinn. Morgunblaðið/Skapti

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.