Helgafell - 01.04.1942, Qupperneq 28
66
HELGAFELL
mundur áttu báðir ætt að rekja til Svíaríkis, höfuðlands Freysdýrkunarinnar.
Nú má það ljóst verða, hvers vegna arfsagnaval og önnur menningarminni í
Vatnsdal og Eyjafjarðarsveit eru frábærlega áþekk. Skal nefna hér nokkur
dæmi: Ingimundur dvelur fyrsta vetur sinn á Norðurlandi í Víðidal. ,,En
er voraði og nokkuð leysti snjó úr hlíðum, þá mælti Ingimundur: Forvitni
er mér á að vita, ef nokkrir menn gengi á hátt fjall og sæi ef nokkuð væri
snjóminna að sjá í aðra staði“. Þeir gerðu svo og sáu ,,fjöll snjólaus í land-
suður“ og sögðu Ingimundi: — ,,en hér er sem hin sama hríð sé ávallt er
vér erum, og kunnum vér það að sjá, að þar eru landskostir miklu betri“.
Ingimundur svarar: ,,Þá er hóf að og væntum enn, að nokkuð grænt mun
fyrir liggja. Svo mun hlut til draga“. Snemma um vorið fluttist Ingimundur
úr Víðidal til Vatnsdals.
Helgi hinn magri og fylgdarlið hans bjó fyrsta veturinn á utanverðri
Árskógsströnd. ,,Þeir fengu vetur mikinn svo að við sjálft var, að kvikfé
þeirra mundi deyja, það er þeir höfðu. En um vorið gekk Helgi upp á Sólar-
fjall og sá, að svartara var inn að sjá miklu til fjarðarins. Bar hann það á
skip allt er hann átti“ og hélt þangað. 1 búfærslu Helga að Kristnesi varð
kona hans, „Þórunn hyrna, léttari í Þórunnarey í Eyjafjarðarkvíslum, og var
þá fædd Þorbjörg hólmasól“. Þannig fór einnig Vigdísi, konu Ingimundar.
Þegar þau hjónin og lið þeirra ,,komu að Vatnsdalsá, þá mælti Vigdís: Hér
mun ég eiga dvöl nokkra, því að ég kenni mér sóttar. Ingimundur svarar:
Verði það að góðu. Þá fæddi Vigdís meybarn. Hún var Þórdís kölluð. Ingi-
mundur mælti: Hér skal Þórdísarholt heita. Síðan sótti liðið upp í dalinn
og sá þar góða landskosti að grösum og skógum. Var fagurt um að litast.
Lyfti þá mjög brúnum manna". Meybarnsfæðingin við Vatnsdalsá hafði
gefið fögur fyrirheit, sem rættust fyrr en varði.
Það var í Víðidal, að mönnum Ingimundar virtist ,,sem hin sama hríð
sé ávallt". Á Árskógsströnd lá kvikfé Helga við felli sökum hörku útmán-
aðanna. Á þessum stöðum reisa landnemarnir, Helgi og Ingimundur, byggð
í fyrstu. Þeim fór eins og Gnúpa-Bárði, bróður Ásbjarnar, ættföður Freys-
gyðlinganna. Hann leitaði ekki skjóls fyrir hinni norðlenzku hafátt síðvetr-
arins, fyrr en hann hafði búið um hríð að Lundarbrekku. ,,Þá markaði hann,
að betri voru landviðri en hafviðri, og hann ætlaði betri landskosti fyrir
sunnan heiðar". Fluttist hann síðan til Fljótshverfis. Veðurfræðiathugun þessi
sýnir, að ættir Bárðar, Helga og Ingimundar hafa lengi dvalið í landi, þar sem
hafáttin færði mönnum þíðviðri og mildar regnskúrir, er eyddu vetrarríkinu og
ruddu vorgróðrinum braut. Goð frjóseminnar réðu fyrir skini sólar, regni
og vindum. Dýrkendur þeirra velja sér hérlendis í fyrstu búsetu fyrir opnu
hafi. Á Norðurlandi verður þeim hált á því búsetuvali. Þar færði hafáttin þeim
ekki blíðviðri og snemmæran vorgróður, heldur kulda og kröm. Endurminn-
ing hinna sáru vonbrigða frjósemisdýrkendanna, sem hugðu sig heillum