Helgafell - 01.05.1942, Page 10
Tómas Guðmundsson:
Dagur Noregs
I.
I dag er Noregur numinn heilögum trega.
í nótt hafa fjöllin hastað á söng sinna skóga.
Því seytjándi maí fer huldu höfði um Noreg,
og hlíðar og engi Noregs í tárum glóa.
Og þó var Noregur aldrei elskaður heitar,
og aldrei hafa máttugri bænir stigið
frá brjósti norrænnar þjóðar í þrenging og dauða,
né þyngri tár á norræna moldu hnigið.
Hvort verður sú þjóð, sem trúir, drepin í dróma?
í dag er hver einasti norskur sjö ára drengur
orðinn að tólf ára strák, sem með steytta hnefa
og stóran, fullorðinn draum út í lífið gengur.
Og þjóð, sem áður orti með bleki og penna,
yrkir um þessar mundir með blóði og stáli
hetjukvæði, sem geymast óbornum öldum.
Og aldrei var betur kveðið á norrænu máli.