Helgafell - 01.05.1942, Qupperneq 13
DAGUR NOREGS
101
Þá verða fjöll yðar brött þeim, sem Noregi brugðust.
Þá bergmálar Ja, vi elsker um heiðar og firði.
Og máske verður þá einhverjum ljósara en áður,
að ættjörð er meira en þrjátíu peninga virði.
Og aldrei hefur fallegra föðurland risið
frjálsara og stærra við augum hraustari sona
en þeirra, sem flýðu sitt land, og nú leita það uppi
um langan veg í hillingum minninga og vona.
IV
Og vitið, Norðmenn, að það eru á þessum degi
þúsundir íslenzkra hjartna, sem með yður kalla
til himins á Drottins náð, að nálgist sá dagur,
er Noregi auðnast að láta hlekkina falla.
Og þó að milli ættjarða vorra um aldir
úthaf gleymsku og þagnar á stundum flæddi,
sá spölur gerðist skemmri, er skyldleikans kenndi,
sem skar oss í hjartað þann dag, er Noregi blæddi.
Og biðjum þann Guð, er fylgt hefur feðrum vorum
um ferlega skóga, úthöf og jökulbreiður,
að lönd vor gangi ávallt í arf til niðja,
sem aldrei semja við neinn um trú sína og heiður.
Og megi aftur elda af norrænum morgni
og eflast vináttubönd með frændum og grönnum.
Og þá skal sannast á þjóðum íslands og Noregs:
Vér þurftum hvorugir stríð til að verða að mönnum.