Morgunblaðið - 02.11.2012, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 02.11.2012, Blaðsíða 22
22 FRÉTTIRInnlent MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 2. NÓVEMBER 2012 Egill Ólafsson egol@mbl.is Guðjón Ólafur Jónsson, verjandi Gunnars Þ. Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, segir að það sé nauðsynlegt fyrir vörn málsins að ákæruvaldið afli gagna um viðskipti Bogmannsins ehf. og Landsbankans í júní 2003. Gunnar er ákærður fyrir brot á þagnarskyldu þegar hann hafði frumkvæði að því að gögnum um kaup Landsbankans á Bogmannin- um var komið til DV. Guðjón Ólafur hefur gert kröfu um að ákæruvaldið afli gagna um þessi viðskipti. Þau séu nauðsynleg fyrir vörn Gunnars í málinu. Eigandi Bogmannsins var Guðlaugur Þór Þórðarson alþingis- maður. Guðjón Ólafur sagði þegar málið var tekið fyrir í héraðsdómi í gær, að ákæruvaldinu ætti að reynast auðvelt að afla þessara gagna því að ákæruvaldið hefði aflað sér heimilda til að rannsaka þessi gögn á fyrri stigum. Því miður hefði saksóknari ekki nýtt sér þessa heimild til fulls. Hann minnti á að þegar dómari tók afstöðu til beiðninnar kom fram í úr- skurði hans að gögnin vörðuðu rann- sókn málsins. Guðjón Ólafur sagði ekki nægjan- legt fyrir ákæruvaldið að leggja fram reikningsyfirlit um þessi við- skipti. Sýna yrði fram á að þessi við- skipti milli Landsbankans og Bog- mannsins hefðu raunverulega átt sér stað. Segir gögnin ekki varða úrlausn málsins Helgi Magnús Gunnarsson, vara- ríkissaksóknari, krefst þess að kröf- um verjanda verði hafnað. Hann sagðist vera tilbúinn til að afla þess- ara gagna ef það hefði einhverja þýðingu fyrir úrlausn málsins. Sak- arefnin væru um að Gunnar hefði rofið þagnarskyldu og þessi viðskipti kæmu sakarefnunum ekkert við. Hann sagði að við rannsókn mála væri oft aflað gagna sem síðan reyndust ekki skipta máli varðandi sjálf ákæruatriðin. Ákæruvaldið færi ekki að leggja fram gögn í máli sem væru óþörf og kæmu málinu ekkert við. Það væri ábyrgðarhluti að gera slíkt, ekki síst þar sem gögnin vörð- uðu þagnarskyldu. Þagnarskyldan hefði einhvern tilgang og það ætti ekki að fara út fyrir hana að óþörfu. Guðjón Ólafur sagði að hann gæti ekki sýnt fram á að gögn væru þýð- ingarlaus þegar hann hefði ekki séð þau. Ákæruvaldið segði að tilteknar hvatir hefðu rekið Gunnar til að leka upplýsingum um viðskipti Bog- mannsins til fjölmiðla. Ákæruvaldið yrði að sýna fram á hvaða hvatir hefðu legið að baki þessum gjörðum til að Gunnar gæti varið sig. Dómari mun kveða upp úrskurð í málinu í dag. Krefst rannsóknar á Bogmanninum  Tekist á um hvort saksóknari eigi að afla frekari gagna Morgunblaðið/Styrmir Kári Héraðsdómur Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, mætti við þingfestingu málsins. Rannsóknarnefnd umferðarslysa, RNU, hefur lokið við rannsókn á banaslysi sem varð í Fagradal að morgni hins 12. október á síðasta ári. Slysið atvikaðist með þeim hætti að fólksbíll fór yfir á rangan veg- arhelming vegna hálku og lenti framan á aðvífandi vörubifreið. Leiddi það til þess að 17 ára stúlka, sem var ökumaður fólksbifreiðar- innar, lést. Farþegi sem var með henni í bílnum slasaðist á hné og baki. Fram kemur í skýrslunni að und- ir fólksbílnum hafi verið slitin sum- ardekk auk þess sem stoðgrind bílsins hafi verið ryðguð og veitt af þeim sökum minni vörn. Slysið átti sér stað í brekku í Fagradal. Ökumaður fólksbifreiðar- innar var á leið upp brekku. Um sama leyti var vörubifreið ekið úr gagnstæðri átt. Fólksbifreiðin hafi tekið að rása í hálku yfir á rangan vegarhelming. Tilraunir ökumanns vörubifreiðarinnar til að draga úr ferð og beygja af veginum hafi ekki borið árangur vegna hálkunnar. Af þeim sökum náði hann ekki að hægja ferð svo neinu næmi áður en bílarnir skullu saman. Í rannsóknargögnum lögreglu kom fram að vegurinn var hálku- laus í um eins kílómetra fjarlægð frá slysstað. Þaðan hafi hálkan farið stig vaxandi þar til um 500 metra frá slysstað að flughált varð. Á þessum kafla hækkar vegurinn úr 220 í 260 metra yfir sjávarmál og segir í skýrslunni að erfitt hafi ver- ið fyrir ökumenn að greina þá skyndilegu ísingu sem myndaðist. Undir lok skýrslunnar hvetur rannsóknarnefndin innanríkisráðu- neytið til að fella niður ákvæði um undanþágu ökunemenda á Austur- landi, Vesturlandi og Vestfjörðum til æfinga í akstri í skilyrðum þar sem veggrip er lítið. Ökunemar á þessum svæðum fá nú bráðabirgða- ökuskírteini þrátt fyrir að hafa ekki lokið þriðja stigi ökunáms þar sem akstur er æfður við slíkar aðstæð- ur. Ástæðan er sú að þar hafa ekki fundist nægjanlega stór svæði fyrir æfingabrautir. vidar@mbl.is. Skyndileg ísing kom ökumönn- um að óvörum  Skýrsla um banaslys í Fagradal Morgunblaðið/G.Rúnar Banaslys RNU gaf út skýrslu um banaslys í Fagradal. Banaslys í Fagradal » Fólksbifreið rann til í hálku og lenti framan á vörubifreið sem kom úr gagnstæðri átt. » Ökumaður fólksbifreiðar var 17 ára stúlka og lést sam- stundis. » Skyndileg ísing leiddi til þess að bílarnir skullu saman. „Það er ekki ver- ið að snupra þá á einn eða neinn hátt,“ segir Guð- bjartur Hann- esson velferð- arráðherra um Morgunblaðs- grein Gísla Páls Pálssonar, for- manns Samtaka fyrirtækja í vel- ferðarþjónustu, í gær, þar sem hann segir að ráðherra hafi sýnt dóna- skap með því að svara ekki beiðni um að mæta í afmælisboð samtak- anna. Guðbjartur segist fá margar beiðnir um að mæta hér og þar og hann reyni alltaf að komast á við- komandi atburð. Því sé gefið já- kvætt svar í fyrstu og síðan séð til hvort það gangi eftir en í þessu til- felli hafi hann því miður ekki getað mætt. Þegar hann komist ekki sé gjarnan boðið að senda fulltrúa í staðinn en það hafi eitthvað misfar- ist að þessu sinni. Hins vegar hafi hann mætt ítrekað hjá samtökunum. Fram kemur í grein Gísla Páls í gær að samtökin eigi mörg ósvöruð erindi hjá ráðuneytinu. Guðbjartur segir að ekkert slíkt liggi á sínu borði en hann ætli að athuga málið í ráðuneytinu. „Það er auðvitað alvar- legt ef þeir fá ekki sín svör,“ segir hann. Ráðherra tekur vel í allar beiðnir og reynir að mæta Guðbjartur Hannesson Dr. Hannes Hólmsteinn Giss- urarson flytur erindi á fundi Konfúsíusar- stofnunarinnar: „Maó: Sagan sem hefur verið sögð“, í stofu 207 í aðalbyggingu í dag kl. 13. Hann- es mun ræða um ævisöguna Maó: Sagan sem aldrei var sögð, eftir Jung Chang og Jon Halliday, en hún kom út á íslensku 2007. Ver hann verkið fyrir ádeil- um sem fram hafa komið. Hannes þýddi Svartbók kommúnismans á íslensku 2009 og gaf 2011 út 624 bls. sögu kommúnistahreyfing- arinnar íslensku. Ræðir um ævisögu Maós og ver verkið Hannes Hólmsteinn Gissurarson Styrktartónleikum sem vera áttu í Skjólbrekku í Mývatnssveit laugar- daginn 3. nóvember er frestað vegna veðurs og veðurútlits. Kristján Jóhannsson söngvari hafði frumkvæði að skipulagningu tónleikanna og átti allur ágóði að renna til bænda sem urðu fyrir tjóni í hamfaraveðrinu sem geisaði í september s.l. Áhugi er á að koma öðrum styrktartónleikum á síðar, segir í tilkynningu. Tónleikum frestað vegna veðurútlits STUTT Lagerrými Lagerbakkar Brettakerfi Smávörukerfi Árekstrarvarnir Milligólf Brautarholt 26-28 | 105 Reykjavík Sími 511 1100 | www.rymi.is | www.riverslun.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.