Morgunblaðið - 02.11.2012, Blaðsíða 33
MINNINGAR 33
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 2. NÓVEMBER 2012
Dætrunum Ingu Ólafíu, Helgu
Stefaníu og Bergljótu Ásu og fjöl-
skyldum færi ég mínar innileg-
ustu samúðarkveðjur.
Birgir Jóh. Jóhannsson.
Haraldur Helgason kaup-
félagsstjóri, „Halli í ketbúðinni“
er fallinn frá nærfellt 92 ára. Ég
hafði þekkt hann og fólk hans í
rúmlega hálfa öld. Við bekkjar-
bræður í Menntaskólanum á Ak-
ureyri Leifur A. Símonarson frá
Bolungarvík leigðum hjá þeim
rúmgott herbergi í kjallara Goða-
byggðar 2 og vorum jafnframt í
fæði hjá þeim. Það var yndislegur
tími. Kynnin af fjölskyldunni eru
eftirminnileg. Við urðum hluti af
henni. Í hvert skipti, sem ég hefi
átt leið um Akureyri á kristileg-
um tíma síðan hefur það verið
sjálfsögð og ánægjuleg skylda að
heilsa upp á fólkið í Goðabyggð 2
og alltaf hefur útbreiddur faðmur
tekið á móti gestinum. Síðast
hittum við Ólöf mín Harald á
Dvalarheimilinu Hlíð viku áður
en hann kvaddi þetta líf. Heim-
ilisfaðirinn á Goðabyggð 2, Har-
aldur, var þéttur á velli, hlýr í við-
móti, glaðsinna og jafnlyndur,
hægur í fasi, lét ekkert koma sér
úr jafnvægi. Hann var meðalmað-
ur á hæð, bláeygur og breiðleitur,
svaraði sér vel. Hann var vinnu-
samur, skipulagður, áreiðanlegur
og þrautseigur. Áslaug kona hans
„Ninna“ var félagslynd, létt-
byggð, kvik í hreyfingum,
skemmtilega skýr í tali og skor-
inorð. Systurnar þrjár voru glað-
værar, ljúfar í viðmóti og eilífð-
arvinkonur okkar síðan. Ótalinn
er einn fjölskyldumeðlimur, akk-
erið í fjölskyldunni, Stefanía
Austfjörð, amma húsfreyjunnar.
Hún bjó í lítilli íbúð á sömu hæð
og við Leifur. Hún var full af lífs-
speki og góðum ráðum fyrir unga
menn. Hún var hóflega mikill sið-
gæðisvörður. Það kom fram, þeg-
ar við Leifur ætluðum að fara á
fyllirí. Það var straumleysi og frí í
skólanum. Laxárvirkjun hafði
stíflast. Við Leifur ákváðum að
bjóða félögum okkar heim og fá
okkur í staupinu við kertaljós, en
af því höfðum við hvorugur
nokkra reynslu. Til þess varð vín-
ið allt of lítið eða gestirnir of
margir. En við höfðum af þessu
eftirminnilega samkomu, þar
sem sögurnar og vísurnar
streymdu fram eins og foss og
gleðin var takmarkalaus. Stef-
anía fylgdist með öllu án þess að
láta bera á sér eða segja eitt orð.
Ekki heldur á eftir. Sambúð
þeirra Halla og Ninnu var eins og
best getur orðið. Haraldur var fé-
lagi í Karlakórnum Geysi og söng
með kórnum í meira en 40 ár og
hann starfaði á sama sviði í næst-
um því 80 ár frá því að vera send-
ill 12 ára gamall, síðan deildar-
stjóri í kjötbúð KEA, síðar
kaupfélagsstjóri hjá Kaupfélagi
verkamanna og loks lipur og af-
kastamikill sölumaður með kjöt-
vörur hjá Kjarnafæði þar til hann
var 91 árs. Bæði voru upptekin af
starfsemi Íþróttafélagsins Þórs
og hún bæjarfulltrúi fyrir Al-
þýðuflokkinn og Samfylkinguna
síðar. Samt gengu öll störf eins
og sjálfkrafa, án sjáanlegrar fyr-
irhafnar. Það var mikið áfall fyrir
Harald að missa konu sína árið
2006. Það var fallegt að skynja
hve ást þeirra hafði verið sterk.
Alla daga eftir að Ninna dó logaði
ljós og ferskar rauðar rósir stóðu
við mynd af henni í stofunni hjá
Haraldi. Við Ólöf Erla og her-
bergisfélagi minn fyrir hálfri öld í
Goðabyggð 2, Leifur Albert Sím-
onarson, sendum hlýjar samúðar-
kveðjur til fjölskyldunnar.
Sigurður Sigurðarson
dýralæknir.
Þau voru sérstök, Halli og
Ninna. Hún var flott Akureyrar-
dama, fín í tauinu, glaðvær, gest-
risin og launfyndin. Hann var
soldið upp með sér af að eiga
svona fína konu. Ég hafði það
strax á tilfinningunni, að hann
vildi allt fyrir hana gera. Þau
voru hrifin hvort af öðru, og það
fór ekki milli mála.
Það var í hundrað-funda ferð-
inni 1984-85, sem fundum okkar
bar fyrst saman. Yfirskrift
fundanna var: Hverjir eiga Ís-
land? Á þessum fundum, vítt og
breitt um landið, kviknaði aftur
hugsjónaglóð gömlu kratanna,
sem hafði verið við það að kulna.
Á Akureyri var fullt út úr dyrum.
Bragi Sigurjónsson – gamall bar-
áttufélagi föður míns – stýrði
fundi. Umræður voru með virðu-
leikablæ. Þetta var jú á Akureyri.
Að fundi loknum, undir mið-
nættið, var okkur Bryndísi boðið
heim í Goðabyggð 2. Heim til
Halla og Ninnu, til að eiga þar
samverustund með kratakjarn-
anum í höfuðstað Norðurlands.
Það var eftirminnileg kvöld-
stund. Bjartsýni og baráttugleði
voru við völd, ótal sögur sagðar
og sungið við raust. Við vorum
þarna gestir á heimili manns, sem
hafði heillast af jafnaðarstefn-
unni á unglingsárum, og gengið í
Alþýðuflokkinn á tímum ríkis-
stjórnar „hinna vinnandi stétta“ –
í miðri heimskreppunni.
Lífið hafði kennt Haraldi
Helgasyni margt, og hann hafði
engu gleymt. Tólf ára að aldri fór
hann að vinna fyrir sér og sínum.
Eftir það féll honum ekki verk úr
hendi í tæp áttatíu ár. Hann var
af þeirri kynslóð, sem gerði meiri
kröfur til sjálfrar sín en annarra.
Sameiginlega voru þau, Halli og
Ninna, hinir örlátu veitendur:
Hús þeirra var byggt við þjóð-
braut þvera og stóð öllum opið,
gestum og gangandi.
Ég hef ekki á því tölu, hversu
oft ég gisti hjá Halla og Ninnu, á
ferðum mínum um landið í erind-
um Alþýðuflokksins. Hvort held-
ur var í meðlæti eða mótlæti, var
mér tekið af sömu gestrisninni og
glaðværðinni. Samfagnað í með-
læti en hughreystur í mótlæti. En
ævinlega urðu þar fagnaðarfund-
ir.
Nú er langt um liðið síðan
fundum bar seinast saman. En
minningin um bræðralag, undir
merkjum róttækrar jafnaðar-
stefnu, lifir í minningunni. Nú er
komið að kveðjustundinni. Far
vel, félagi. Lengi lifi frelsi, jafn-
rétti og bræðralag!
Jón Baldvin Hannibals-
son f.v. formaður
Alþýðuflokksins.
Nú er vegferð mæts manns á
enda. Haraldur Helgason hefur
lokið miklu og árangursríku ævi-
starfi; vann linnulítið í tæp 80 ár,
og kominn fram yfir nírætt, þeg-
ar hann loks hætti. Við hittumst
fyrst árið 1978, þegar ég var í
framboði fyrir Alþýðuflokkinn í
Norðurlandskjördæmi eystra.
Hann tók mér einkar vel og
reyndist traustur vinur þaðan í
frá. Hvorki var hann hávær né
fyrirferðarmikill; vann öll sín
verk með stakri prýði og hóg-
værð, og var svo afkastamikill að
furðu sætti.
Fátt var eftirsóknarverðara en
að vera gestur kvöldstund á
heimili Halla og Ninnu. Þá var
mikið spjallað um pólitík, sagðar
sögur og baráttan skipulögð.
Gestrisnin var með heimsborg-
arabrag, og stundum var langt
liðið á nótt, þegar gestir hurfu á
braut. Þá stóðu þau hjónin æv-
inlega á tröppunum eða við
garðshliðið, veifuðu og sendu
góðar óskir út í nóttina. Minning-
arnar um þau eru baðaðar ljóma,
sem stafar af þeirri hlýju og
elskusemi, sem þau sýndu mér í
upphafi, ókunnugum manninum.
Eins og lesa má í þessum lín-
um, voru nöfn þeirra hjóna jafnt-
engd og allt líf þeirra var. Það var
Haraldi verulegt áfall, þegar
Ninna, Áslaug Einarsdóttir, lést
árið 2006. Þá varð vinnan honum
mikilvægari en oft áður. – Har-
aldur var aðeins 12 ára þegar
hann hóf störf hjá KEA, en þar
vann hann í 26 ár. Síðan var hann
kaupfélagsstjóri hjá Kaupfélagi
verkamanna í 20 ár, og tók svo til
við að selja landbúnaðarafurðir
fyrir ýmsa framleiðendur og var
að fram yfir nírætt.
En Haraldur seldi ýmislegt
fleira og þar á meðal jafnaðar-
stefnuna. Hann starfaði mikið og
lengi fyrir Alþýðuflokksfélag Ak-
ureyrar og var gerður að fyrsta
heiðursfélaga Samfylkingarinn-
ar á Akureyri. Þá var hann for-
maður Íþróttafélagsins Þórs í 20
ár og var bæði heiðursfélagi og
heiðursformaður þess félags.
Hann átti ríflega inni fyrir öllum
þessum heiðri.
Haraldur setti svip á akur-
eyrskt samfélag, var góður og
gegn borgari, sem skilaði mikil-
vægu hlutverki með bravúr.
Sjaldan hitti ég nokkurn mann
norðan heiða, sem ekki vissi hver
Halli Helga var, og þá var nafni
Ninnu ósjaldan bætt við. Þessi
heiðurshjón, húmanistar af bestu
gerð, áttu langan kafla í lífsins
ævintýri fólks og byggðar. Ekki
er ólíklegt, að nú standi þau bros-
andi á gullnum tröppum, veifi og
sendi öllum góðar óskir og kveðj-
ur. Guð blessi minningu þeirra.
Árni Gunnarsson.
Vinnusemi, heiðarleiki og um-
burðarlyndi eru þeir eðliskostir
sem helst af öllu prýða miklar
manneskjur. Lífið skammtaði
Halla Helga gnótt af þessu öllu
saman. Ásamt reyndar lífsgleði;
einhverri meðfæddri bjartsýni
sem alltaf stafaði af orðum hans
og nærveru.
Halli var ein af höfuðáttum
Akureyrar, keikur á bak við búð-
arborðið í Kaupfélagi verkmanna
í Strandgötu, sítrúr jafnaðar-
stefnunni og geigaði aldrei, enda
í blóð borið að leggja þeim lið
sem minna mega sín. Hann var
stór á velli, en alltaf stærstur að
innan.
Það var mér mikill heiður að fá
að stjórna síðasta stórafmæli
hans. Níræður tók hann sína aríu
í góðra vina hópi og klifraði tón-
stigann eins og smaladrengur að
vori. Mér mun aldrei líða úr
minni sá sælusvipur sem lék um
andlit þessa gamla manns í
hæstu hæðum.
Með Haraldi Helgasyni er
genginn svipsterkur og blíðlynd-
ur höfðingi sem markaði spor sín
í sögu Akureyrar. Síðasti kaup-
félagsstjórinn í Strandgötunni
hefur kvatt, en minningin lifir –
og kennir okkur enn að helstu
verðlaun lífsins eru virðing, hlýja
og traust.
Sigmundur Ernir Rúnarsson.
Á lífsleiðinni mætum við mörg-
um förunautum. Með sumum eig-
um við stutta samleið en með öðr-
um lengri. Flestir hverfa í mistur
fortíðar en aðrir standa okkur
ljóslifandi fyrir augum alla tíð
þótt samferðin hafi ekki verið
löng. Einn af þessum einstakling-
um í lífi mínu er Haraldur Helga-
son. Við Inga Lóa dóttir Harald-
ar og Ninnu vorum samferða í
Menntaskólanum á Akureyri. Við
sem komum í menntaskólann og
dvöldum í heimavistinni erum
ævarandi þakklát foreldrum
skólafélaga okkar sem opnuðu
heimili sín fyrir okkur. Eitt af
þessum heimilum var hús Har-
aldar og Ninnu.
Eftir að við útskrifuðumst
buðu þau hjón okkur í stúdenta-
árganginum 1964 í síðdegisboð á
heimili sínu þegar haldið var upp
á tugaafmæli árgangsins. Þau
hjón voru einstaklega gestrisin
og heimili þeirra stóð öllum opið.
Þegar nokkur úr stúdentaár-
ganginum hittumst á mánaðar-
legu kaffisamkomu okkar í Perl-
unni í síðustu viku minntust við
öll hlýleika, glaðværðar og sér-
stakrar gestrisni þeirra hjóna.
Haraldur var einstaklega
þjónustulundaður maður. Til
þess að vera góður sölumaður og
njóta þess starfs þarf hæfileika til
þess að umgangast fólk og njóta
þess að veita öðrum þjónustu.
Haraldi var þetta í blóð borið og
hann stundaði sölumennsku í 78
ár. Mér er minnisstætt þegar við
5. bekkingar í MA vorum að und-
irbúa dimmisjónina. Á þeim tíma
fór borðhaldið fram í mötuneyti
heimavistarinnar áður en haldið
var í skólahúsið til frekara
skemmtanahalds. Í ljós kom að í
mötuneytinu voru ekki til nægi-
legar margar teskeiðar. Þegar ég
spurðist fyrir um hvernig mætti
bjarga þeim vanda var mér bent á
að leita til Halla hjá Kaupfélagi
verkamanna. Ég fór í kaupfélagið
og tjáði Haraldi vandræðin.
Hann dró fram kassa fullan af te-
skeiðum. Hann sagðist hafa þess-
ar teskeiðar tilbúnar til þess að
lána í veisluhöld þegar á þurfti að
halda. Án efa munu fleiri en
menntskælingar hafa fengið að
njóta teskeiðakassans og etv.
fleira af borðbúnaði.
Fyrir hönd okkar MA stúd-
enta 1964 sendi ég hinstu kveðjur
til Halla og bið Guð að blessa
minningu um góðan dreng sem
skilaði farsælu lífsstarfi og auðg-
aði tilveru samferðafólks síns.
Þráinn Þorvaldsson.
Í dag verður heiðursfélagi- og
heiðursformaður Íþróttafélags-
ins Þórs, Haraldur Marinó
Helgason, lagður til sinnar hinstu
hvílu. Söguritun hvers félags
hefst við stofnun þess og hjá Þór
hófst þetta árið 1915. Aðeins 19
árum síðar er nafns Haraldar
fyrst getið í bókum félagsins en
alls ekki í síðasta sinn. Hinn 27.
maí 1934 gekk hann með form-
legum hætti í Þór og þegar lífs-
hlaupi hans lauk hafði hann verið
skráður félagi í Þór í rúmlega 78
ár. Hjá Haraldi rétt eins og hjá
félaginu sjálfu má segja að sér-
hvert ferðalag hefjist á einu litlu
skrefi, og við hvern áfangastað
eru sett ný markmið, upp á við.
Árið 1960 hófst nýr kafli í lífi
Haraldar og fjölskyldu hans og
um leið kafli í sögu Þórs sem rit-
aður er og verður með feitu letri,
þá var hann kjörinn formaður fé-
lagsins. Haraldur, með dyggri að-
stoð eiginkonu sinnar Áslaugar
Einarsdóttur sem einnig var
heiðursfélagi í Þór sat sem for-
maður lengur en nokkur formað-
ur í sögu félagsins 1960-1980 eða
20 ár.
Á formannsárum hans var fé-
laginu oftar en ekki stýrt frá
heimili þeirra hjóna í Goðabyggð-
inni. Heimilið var notað undir
fundi, móttöku gesta Þórs við hin
ýmsu tækifæri og jafnvel ef
íþróttahópa vantaði gistingu.
Goðabyggðin var eiginlega fjöl-
notahús þegar Þór átti hlut að
máli.
Það eitt að sitja sem formaður í
tuttugu ár í íþróttafélagi er mikið
afrek en lykilinn að því er að
kunna að fá fólk til þess að vinna
með sér fyrir félagið, þessa list
kunni Haraldur. Það var einn af
hans stóru kostum. Hann var af
öllum, sem til þekktu dáður og
virtur sem persóna og fyrir allt
það mikla starf sem hann innti af
höndum fyrir félagið. Árið 1980
þegar Haraldur hætti sem for-
maður Þórs var hann kjörinn
heiðursfélagi og heiðursformað-
ur Þórs.
Allt sitt líf átti félagið stóran
sess í hjarta Haraldar ekki bara
á formannsárunum bæði fyrir
þau og eftir. Það var í hans for-
mannstíð sem Þór flutti á þann
stað í Glerárhverfinu sem félagið
er nú. Það var því vel við hæfi að
hann tæki fyrstu skóflustunguna
að byggingu Hamars félagsheim-
ilis Þórs hinn 26. september
1987.
Haraldur var mjög áberandi í
íþrótta- og félagslífi bæjarins í
áratugi og hlaut hann fjölmargar
viðurkenningar fyrir. Auk þeirra
sem Þór veitti honum var hann
gerður að heiðursfélaga ÍSÍ að
auki var honum veitt gullmerki
og heiðursorða ÍSÍ. Þá var hon-
um veitt gullmerki KSÍ. Það
verður seint eða aldrei metið til
fjár allt starf Haraldar í þágu
Þórs. Verk hans vega þungt og
skipta máli og skrifast í sögu
Þórs með feitu letri.
Íþróttafélagið Þór á Haraldi
margt og mikið að þakka. Hann
ásamt samferðafólki sínu ruddi
veginn fyrir þá sem á eftir koma.
Og þann veg er auðveldara að
feta þar sem búið er að sníða
ýmsa agnúa af, öðrum til hægð-
arauka.
Fyrir þetta ber að þakka með
lotningu og af auðmýkt. Þakka
lífinu fyrir að hafa fengið að njóta
krafta þessa mikla heiðursmanns
sem nú hefur verið kallaður til
annarra starfa á öðrum vett-
vangi.
Hvíl í friði, Haraldur Marinó
Helgason.
Fyrir hönd Íþróttafélagsins
Þórs,
Árni Óðinsson,
formaður Þórs.
✝
Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma,
RANNVEIG G. LÚÐVÍKSDÓTTIR,
Valhúsabraut 29,
Seltjarnarnesi,
lést á Landspítalanum í Fossvogi mánudaginn 29. október.
Jarðarförin hefur farið fram í kyrrþey.
Linda Sæþórsdóttir,
Íris L. Yasueda,
Lísa Björk Ingólfsdóttir,
tengdasynir, börn og barnabörn.
✝
Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengda-
móðir og amma,
AGNES JÓNSDÓTTIR
hárgreiðslumeistari,
Maríubaugi 103,
Reykjavík,
lést á krabbameinsdeild Landspítalans
mánudaginn 29. október.
Útförin fer fram frá Dómkirkjunni þriðjudaginn
6. nóvember kl. 11.00.
Rúnar Jónsson,
Birgitta Sveinbjörnsdóttir, Eyþór Sigurðsson,
Jón Ómar Sveinbjörnsson, Hildur Hrund Sigurðardóttir,
Hafsteinn Bergmann Sveinbjörnsson, Soffía Árnadóttir,
Ingibjörg Ásta Rúnarsdóttir, Stefán Birnir Sverrisson,
Hildur Björk Rúnarsdóttir, Gísli Engilbert Haraldsson,
Guðný Hrund Rúnarsdóttir, Þórður Guðmundsson,
Jón Ari Rúnarsson, María Björk Ólafsdóttir
og ömmubörn.
✝
Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar,
tengdafaðir, afi og langafi,
STEFÁN VALDIMAR ÞORSTEINSSON,
fv. feldskeri,
Silfurteigi 6,
Reykjavík,
lést á Landspítalanum við Hringbraut
þriðjudaginn 30. október.
Útförin auglýst síðar.
Anna Margrét Cortes,
Björg Cortes Stefánsdóttir, Halldór I. Elíasson,
Steinunn Guðbjörg Stefánsdóttir,
Stefán Valdimar Halldórsson,
Anna Margrét Halldórsdóttir,
Steinar Ingimar Halldórsson
og barnabarnabörn.
✝
Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma
og langamma,
JÓNÍNA SIGURLÍNA JÓNSDÓTTIR
frá Skálanesi,
lést á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ
sunnudaginn 28. október.
Útförin fer fram frá Laugarneskirkju
föstudaginn 9. nóvember kl. 13.00.
Þeim sem vilja minnast hennar er bent á Styrktarfélag
krabbameinssjúkra barna.
Árni Rúnar Kristjánsson, Brynja Fríða Garðarsdóttir,
Jón Ingi Kristjánsson, Jóna Sigríður Gestsdóttir,
Þórunn Kristjánsdóttir, Jóhann Helgi Helgason,
Snædís G. Heiðarsdóttir, Ragnar Ólafur Guðmundsson,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Amma okkar og systir,
STEINUNN RAGNHEIÐUR JÓNSDÓTTIR
HUNT,
andaðist á Landspítala, Landakoti,
þriðjudaginn 23. október.
Útför hennar fer fram frá Neskirkju
þriðjudaginn 6. nóvember kl. 13.00.
Þeim sem vildu minnast hennar er bent á Styrktarfélag
krabbameinssjúkra barna.
Brandon Miles Lynn,
Aaron Michael Lynn,
Inga Þ. Jónsdóttir,
Ragnar Áki Jónsson.