Læknablaðið - 15.06.2012, Page 44
UMFJOLLUN OG GREINAR
Niðurstaðan er
afgerandi og ótvíræð
■ ■ ■ Hávar Sigurjónsson
Álit Persónuverndar um heimildir lýtalækna og þar með lækna almennt til að
láta af hendi persónugreinanlegar upplýsingar um sjúklinga sína er afgerandi og
ótvírætt. Þeim er það ekki heimilt nema til komi mjög þrýnir almannahagsmunir sem
Persónuvernd álítur að hafi ekki verið til staðar í tilfelli lýtalækna í hinu svokallaða
„brjóstapúðamáli" í vetur. Læknablaðið bað um álit nokkurra einstaklinga á
niðurstöðunni.
Huga vel að ramma stjórnarskrárinnar
Sigrún Jóhannesdóttir forstjóri Persónuverndar
Aðspurð um yfirlýsingar ákveðinna þing-
manna um að nauðsynlegt sé að breyta
lögum til að tryggja landlæknisembættinu
aðgang að persónugreinanlegum upp-
lýsingum telji embættið þörf á slíku, segir
Sigrún Jóhannesdóttir forstjóri Persónu-
verndar mikilvægt að menn fari varlega.
„Það er rétt að löggjafinn hugi vel að
ramma stjórnarskrárinnar og þeirri kröfu
sem þar er um að einkalíf manna verði
ekki skert með lögum nema brýna nauð-
syn beri til. Þá er þagnarskylda og trún-
aður milli læknis og sjúklings mikilvæg
meginregla. Það svar sem Persónuvernd
gaf Læknafélaginu byggðist á þessu. Einn-
ig því að hvorki varð séð að landlæknir
hefði lagaheimild til að safna persónuupp-
lýsingum um nöfn og kennitölur allra
kvenna með brjóstapúða né hefði hann
sýnt fram á að hann þyrfti nauðsynlega að
fá þessar upplýsingar. Okkar niðurstaða
byggðist ekki á því hvort PlP-púðarnir
sem slíkir eru skaðleg vara og hvort þeim
konum sem fengu PlP-púðana setta í sig
stafaði heilsufarsleg hætta af þeim. Slíkt
læknisfræðilegt mat er ekki okkar hlut-
verk. Við veittum leiðbeinandi álit í ljósi
368 LÆKNAblaðið 2012/98
laga um þagnarskyldu og um meðferð
persónuupplýsinga. Þá bentum við á að
finna má svör við mörgum þeirra álitaefna
sem risið hafa með gerð hefðbundinnar
rannsóknar. Einnig að landlæknir hefur,
sem eftirlitsaðili, rík úrræði sem hann
getur notað við rannsókn einstakra mála
svo sem ef sjúklingar kvarta til hans.
Það er fullur skilningur á því að land-
læknisembættið þurfti að átta sig á fjölda
aðgerða, tegundum og þess háttar, til að
geta mótað stefnu og gefið leiðbeiningar,
en ekki hvers vegna hann þarf nú að vita
um nöfn og kennitölur þessa tiltekna
sjúklingahóps. Það er mikilvægt að sjúk-
lingar, bæði þeir sem leita til lýtalækna
og annarra, fái næga fræðslu. Fræða þarf
þá um rétt sinn. Einnig um hugsanlega
fylgikvilla og eftir atvikum þarf að halda
utan um sjúklinginn eftir að hann útskrif-
ast. Þær konur sem hingað hafa leitað hafa
vakið máls á þessu. Ein þeirra hafði á orði
að hún fengi reglulega sms-skilaboð um að
koma með köttinn sinn í bólusetningu en
hún hefði aldrei heyrt frá sínum lýtalækni
þó 12 ár væru liðin frá því brjóstapúðar
voru settir í hana. Hún hefði aðeins heyrt
í fjölmiðlum að nauðsynlegt væri að láta
fylgjast með þeim. Maður veltir því fyrir
sér hvort ekki sé nauðsynlegt að sjálfstætt
starfandi læknar, og þá sérstaklega lýta-
læknar, haldi betur utan um sjúklinga sína
en þeir virðast hafa gert," segir Sigrún Jó-
hannesdóttir forstjóri Persónuverndar.
J