Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 01.12.2014, Page 22

Læknablaðið - 01.12.2014, Page 22
662 LÆKNAblaðið 2014/100 tímabilinu. Mun meira var borðað af grænmeti, ávöxtum, hafra- graut og grófu brauði 2010-2011 en árið 2002 og eins var lýsis- neyslan meiri. Hins vegar var neysla á mjólk og mjólkurvörum, nýmjólk, smjörlíki, farsvörum, kexi, kökum, snakki og sykruðum gosdrykkjum minni 2010-2011 en 2002. Allar eru þessar breytingar í samræmi við ráðleggingar um mataræði frá Embætti landlæknis og norrænar ráðleggingar,13 að því undanskildu að í ráðleggingun- um er ekki hvatt til minni mjólkurneyslu í heild, heldur fremur til notkunar á fituminni mjólk og mjólkurvörum í stað þeirra feitari. Þrátt fyrir þessar breytingar er þó langt í land að neysla á grænmeti og ávöxtum sé í samræmi við ráðleggingar um 500 grömm á dag. Neysla á grófu korni er einnig mjög lítil og trefjaefnaneysla langt undir ráðleggingum, en rannsóknaniðurstöður benda til ýmissa jákvæðra áhrifa grófs korns og heilkornavara á heilsu.14 Eins er óhófleg gosdrykkjaneysla ennþá ein helsta áskorun í lýðheilsu- og næringarmálum hér á landi, enda fáar fæðutegundir sem sýna jafn eindregna fylgni við offitu og sykraðir drykkir.15 Breytingar á næringargildi fæðunnar meðal þjóðarinnar endur- spegla bæði breytt fæðuval og breytta framleiðsluhætti í matvæla- iðnaði. Þannig minnkaði neysla á transfitusýrum á tímabilinu, ekki aðeins vegna minni neyslu á smjörlíki, kexi, kökum og snakki – vörum sem hafa innihaldið hvað mest af transfitusýrum – heldur einnig vegna breytinga á fitusamsetningu matvara á tímabilinu. Reglur um hámark transfitusýra í matvörum tóku gildi á Íslandi 1. ágúst 2011,16 en margir matvælaframleiðendur höfðu þá þegar breytt framleiðslu sinni og fjarlægt transfitusýrur úr vörum sín- um vegna þrýstings frá neytendum. Á sama hátt má rekja aukna neyslu á D-vítamíni að nokkru leyti til þess að fleiri tóku lýsi árin 2010-2011 en 2002 en einnig til breytinga á samsetningu lýsis. Árið 2002 minnkaði Lýsi hf. bæði styrk D-vítamíns og A-vítamíns í þorskalýsi. Styrkur D-vítamíns var svo aukinn í kjölfarið.4 Meðal- neysla D-vítamíns reiknaðist 8,5 (9,3sf) μg á dag úr fæðu og lýsi í könnuninni 2010-2011 en 6,1 (9,8sf) μg árið 2002. Embætti land- læknis birti nýja ráðlagða dagskammta fyrir D-vítamín í október 2013, í kjölfar útgáfu nýrra norrænna næringarráðlegginga.17 Þar var ráðlagður skammtur hækkaður úr 10μg í 15μg fyrir aldurs- hópinn 10 til 70 ára og úr 15μg í 20μg fyrir eldra fólk. Íslenskar rannsóknir hafa sýnt ófullnægjandi D-vítamínhag hjá stórum hluta barna og fullorðinna, sem er í samræmi við niðurstöður allra landskannana um ófullnægjandi neyslu D-vítamíns hér á landi.18,19 D-vítamín er eina bætiefnið sem Embætti landlæknis ráðleggur öllum almenningi að taka sem fæðubótarefni, enda mjög lítið D- vítamín í venjulegu hollu fæði. 17 Samanburður á landskönnunum allt frá 1990 sýnir að fituneysla hefur breyst mikið, bæði hvað varðar magn og samsetningu. Hins vegar hefur próteinneyslan haldist nokkuð óbreytt í öllum könn- ununum. Samkvæmt rannsókninni 1990 var heildarfita 41E% að meðaltali, mettuð fita 20E% og transfitusýrur 2E%. Árið 2002 hafði heildarfita hrapað í 35E%, mettuð fita í 15E% og transfitusýrur í 1,4E%. Töluverður áróður var um breytta og minni fituneyslu, ekki síst eftir að manneldisstefna stjórnvalda var samþykkt árið 1989.20 Í stefnunni var kveðið á um að gerð skyldi könnun á mataræði þjóð- arinnar, og niðurstöður þeirrar könnunar frá árinu 1990 sýndu að rekja mátti stærstan hluta mettaðrar fitu fæðunnar á þessum tíma til óvenju mikillar neyslu á mjólk og feitum mjólkurvörum, hörðu smjörlíki, smjöri, kexi og kökum.3 Raunar var mjólkurneysla Ís- lendinga á þessum árum ein sú mesta í allri Evrópu, og hvergi var neysla á feitri mjólk jafnmikil og hér á landi.12 Á hinn bóginn var neysla á jurtaolíum, grænmeti, ávöxtum og grófu brauði minni en víðast hvar í nágrannalöndum.12,21 Þessar niðurstöður voru nýttar í fræðslu um hollustu og fæðuval, þar sem áherslan var lögð á að skipta út feitum mjólkurvörum fyrir fituminni vörur og nota olíur í stað smjörlíkis við matargerð. Eins var hvatt til aukinnar neyslu grænmetis og ávaxta, meðal annars í samvinnu Manneldisráðs, Hjartaverndar og Krabbameinsfélagsins við grænmetisbændur og söluaðila garðávaxta undir hvatningarorðunum 5 á dag. Mataræði Íslendinga tók stórstígum breytingum á þessum árum, bæði magn og samsetning fitu og eins neysla grænmetis og ávaxta og þar eru tölur um framboð matvæla frá Embætti land- læknis ekki síst til vitnis.22 Rætur þessara miklu breytinga liggja meðal annars í almennri þróun á mataræði á Vesturlöndum, um- ræðu og fræðslu um hollustu, og ekki síst fríverslun og breyttu vöruframboði. Þar má nefna að tollar voru lækkaðir árið 1992 og síðan aflagðir af grænmeti árið 2002, en greina mátti töluverða aukningu á sölu grænmetis og ávaxta samfara þeim breytingum.22 Hins vegar jókst sykurneysla úr 8,4E% í 10,6E% frá árunum 1990 til 2002, þá fyrst og fremst vegna aukinnar neyslu á sykruðum gosdrykkjum, og því bar áróður fyrir minni sykurneyslu ekki árangur á þessu tímabili. Mun minni breytingar urðu á fituneyslunni milli tveggja síð- ustu kannananna, árin 2002 og 2010-2011, heldur en þeirra fyrri. Á þessu tímabili hafði fituneyslan breyst það mikið í átt að ráðlegg- ingum að áróður opinberra aðila beindist meira í átt að öðrum aðkallandi viðfangsefnum, ekki síst óhóflegri neyslu á sykruðum gosdrykkjum, sérstaklega meðal ungs fólks. Frá árunum 2002 til 2010-2011 minnkaði neysla viðbætts sykur aftur í fyrra horf frá árinu 1990, eða úr 10,6E% í 8,9E%, en samkvæmt norrænum ráð- leggingum er talið æskilegt að neyslan sé undir 10E%. Neysla sykraðra gosdrykkja minnkaði einnig nokkuð á tímabilinu, úr 180g/dag í 127g/dag. Þess ber þó að geta að mikill munur er á sykurneyslu eftir aldri. Neyslan er langmest meðal ungs fólks sem einnig drekkur mest af gosdrykkjum.5 Transfitusýrur fengu einnig nokkra athygli, enda hafði samevrópsk rannsókn á trans- fitusýrum sýnt að Íslendingar fengu mest allra þátttökuþjóðanna af þessum flokki fitusýra úr sínu fæði.23 Ástæðan var einkum út- breidd notkun á hörðu smjörlíki sem innihélt á þessum tíma meira af transfitusýrum en smjörlíki annarra þjóða, að norsku smjörlíki undanskildu.24 Samkvæmt sölu- og framboðstölum matvæla hefur neysla smjörlíkis minnkað stöðugt úr 13,2 kg/mann/ári að meðal- tali árin 1961-65, í 5,3 kg árin 2001-2005, og 3,5 kg árið 2012.22 Erfitt getur reynst að finna óhrekjandi orsakasamband milli breyttra fæðuvenja þjóðarinnar og heilsufars. Eigi að síður má benda á að einn helsti áhættuþáttur hjartasjúkdóma, hátt heildar- kólesteról, hefur lækkað í blóði Íslendinga samkvæmt rannsókn- um Hjartaverndar úr um 6,3 mmol/L árið 1987 í um 5,4 mmol/L árið 2008, og er lækkunin að langmestu leyti rakin til breytinga á fæðuvenjum þjóðarinnar fremur en til kólesteróllækkandi lyfja.25 Þótt heildarkólesteról hafi lækkað í blóði allflestra vestrænna þjóða undanfarna áratugi, telst lækkunin á Íslandi með því mesta sem um getur á tímabilinu.25 Ekki er hægt að útiloka að aðrir lífs- stílsþættir, svo sem minni reykingar og aukin hreyfing, eigi ein- hvern þátt í lækkun á heildarkólesteróli á Íslandi auk breyttra R A N N S Ó K N

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.