Læknablaðið - 01.12.2014, Blaðsíða 40
680 LÆKNAblaðið 2014/100
borgarsamfélaginu. Í byrjun voru heilbrigðismál sett á oddinn en
skipulags- og byggingarmál urðu æ fyrirferðarmeiri enda nátengd
lýðheilsu. Erlendar rannsóknir á heilsu, lífslíkum og dánartíðni
við þröngar íbúðaraðstæður almennings bentu til þess að bætt
borgarumhverfi leiddi til meiri lífsgæða. Læknar börðust víða
fyrir úrbótum í umhverfismálum og áttu sér tvö kjörorð: loft og
ljós. Þetta fól í sér hreinlæti, hreint vatn, öflugt skólpkerfi, rúm -
bet ri og bjartari íbúðir og ferskt loft. Í Reykjavík höfðu læknar bent
á nauðsynlegar úrbætur varðandi vatnsveitu, húsnæði og úrgang
en ekki sett þau mál í stærra samhengi.
Guðmundur sat í skipulagsnefnd Reykjavíkur frá 1921 og vakti
athygli á erlendum kenningum um lýðheilsu í borgum og ýmsa
áhrifaþætti í hinu byggða umhverfi og tók mið af alþjóðlegum
rannsóknum og staðfærði og aðlagaði niðurstöður að íslensk um
aðstæðum og veruleika. Hann lagði áherslu á fagurfræði í fyrir-
komulagi bæja og fyrirhyggju í skipulagi borgarhluta og mikilvægi
garða. Hugmyndir Guðmundar voru á þann veg að byggð in skyldi
vera þétt og samfelld en varaði við því að húsin væru of há, til
þess að tryggja að allar vistarverur nytu sólar. Áhersl an var lögð á
samfellda, fremur lágreista íbúðabyggð, 2-3 hæða hús, gjarnan lítil
raðhús með garðbletti til ræktunar og síðast en ekki síst aðskilnað
íbúðar- og atvinnusvæða. Ein af nýjungun um sem hann setti fram
var regla um skipan húsa á lóðir og legu gatna miðað við sólarátt
og ríkjandi vindstefnu. Hann útskýrir hvers vegna sveigð gata sé
fegurri en bein, þar sem húsaröðin lokar göturýminu og teikning-
ar hans af gatnakerfi minna töluvert á æðakerfi. Guðmundur taldi
að fagurfræði í mótun bæja væri jafn mikilvægur þáttur til þess
að tryggja góða heilsu og vellíðan fólks og tæknileg atriði eins og
veitukerfi og gatnagerð. Gott dæmi um skipulag frá hans hendi er
hverfið milli Njarðargötu og Barónsstígs en það er að flestra mati
vel heppnað og þykir standa sumum nýjustu hverfum á höfuð-
borgarsvæðinu framar um flesta þætti sem einkenna góða byggð.
Áherslur hans sem frumkvöðuls borgar skipulags á Íslandi fellur
vel að þeim hugmyndum sem nú er haldið á lofti um áhrifaþætti
heilbrigðis og lýðheilsu þjóða. Þar er lögð áhersla á samþættingu
þjónustu, efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta til að
styðja við heilsu íbúana.
Skrif Guðmundar voru grundvöllurinn að fyrstu löggjöf um
skipulagsmál hér á landi sem sett var árið 1921 og árið 1927 var
samþykkt skipulag fyrir Reykjavík sem Guðmundur átti drjúgan
þátt í. Þannig hafði hann bein áhrif á allt skipulagsstarf í landinu
auk þess sem áhrifa hans gætti við byggingu fjölmarga íbúðar-
húsa út um allt land.
Af skrifum Guðmundar er ljóst að hann taldi nauðsynlegt að
læknar ynnu saman til að miðla þekkingu og reynslu og vinna
að hagsmunamálum sínum en ekki síður til að styrkja og bæta
þjóðina. Landlæknir, Jónas Jónassen (1840-1919), boðaði til lækna-
fundar árið 1896 með það að markmiði að stofna læknafélag og þar
mætti Guðmundur með ýmsar hugmyndir í farteskinu sem ekki
áttu upp á pallborðið hjá sumum öðrum fundarmönnum. Ekk-
ert varð af félagsstofnun heildarsamtaka lækna. Læknar bjuggu
vítt og breitt um landið, tilheyrðu yfirstétt samfélagsins, höfðu
öruggar tekjur og gátu að mestu hagað vinnu sinni að vild. Það
var í raun fátt sem kallaði á nauðsyn þess að stofna stéttarfélag
fyrir lækna þar sem þeir höfðu greiðan aðgang að yfirvöldum. Það
var ekki fyrr en utanaðkomandi aðstæður kröfðust þess að læknar
stofna stéttar félag.
Árið 1909 var Sjúkrasamlag Reykjavíkur stofnað að frumkvæði
Oddfellowreglunnar en það var samlag „fullhraustra íbúa sem
áttu skuldlausa eign og höfðu meðaltekjur“. Sjúkrasamlagið vildi
gera samninga við lækna fyrir hönd félagsmanna sinna í stað þess
að semja við hvern og einn lækni og það kallaði á félagsstofnun
Guðmundur var höfundur að skipulagi Þingholtanna milli Njarðargötu og Barónsstígs en það þykir einstaklega vel heppnað og standast tímans tönn. Skipulagið tekur mið af
ríkjandi vindáttum, birtu, fagurfræði og heilbrigði. Mynd frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, ljósmyndari: Sigurhans E. Vignir, tekin 1945-1947.