Læknablaðið - 01.02.2015, Blaðsíða 19
LÆKNAblaðið 2015/101 87
Fyrsta fræðilega lýsingin á þráhyggjuárátturöskun
var skrifuð af franska geðlækninum Pierre Janet árið
1903.2 Fram á miðja 20. öld var sú skoðun útbreidd að
þráhyggjuárátturöskun væri afleiðing tilrauna til þess
að bæla niður frumstæðar hvatir sem ættu sér upptök í
undirmeðvitundinni og einstaklingnum fyndust vera
óviðeigandi.3 Þar til á 8. áratug síðustu aldar var talið
að ekki væri til meðferð sem sannanlega gagnaðist
við þráhyggjuárátturöskun.4 Á síðustu 30 árum hafa
rannsóknir aukið þekkingu á ýmsum þáttum sem
tengjast meingerð þessarar röskunar og verulegar
framfarir hafa orðið í meðferð. Í þessari grein er fjallað
um einkenni og greiningu þráhyggjuárátturöskunar.
Jafnframt er farið stuttlega yfir helstu atriði varðandi
faraldsfræði, meingerð, mögulegar orsakir, meðferð
og horfur. Loks eru kynnt tvö sjúkratilfelli. Annars
vegar er lýst einstaklingi með dæmigerð einkenni
sjúkdómsins en í síðara tilfellinu er lýst einstaklingi
með mjög alvarlega þráhyggjuáráttu þar sem öllum
gagnreyndum meðferðarúrræðum hefur verið beitt
og ákveðið var að reyna tilraunameðferð sem felst
raförvun á ákveðnum taugabrautum í heila.
Einkenni og greining
Eins og nafnið gefur til kynna einkennist þráhyggju-
árátturöskun af þráhyggju (obsession) og áráttu (comp-
ulsion). Með þráhyggju er átt við óþægilegar, uppá-
þrengjandi og óviðeigandi hugsanir eða hugmyndir
sem þrengja sér í sífellu inn í hugskot einstaklingsins
og valda honum miklum kvíða og vanlíðan. Einstak-
lingurinn reynir eftir mætti að bægja þessum hugs-
unum frá en getur það ekki. Þó að viðkomandi efist
Geðsviði Landspítala og
læknadeild Háskóla Íslands
Þráhyggjuárátturöskun er algeng og oft langvinn geðröskun sem leitt
getur til verulegrar skerðingar á starfsgetu og lífsgæðum. Einkenni lýsa
sér með óþægilegum, uppáþrengjandi og óviðeigandi kvíðavaldandi þrá-
hyggjuhugsunum og tímafrekum og hamlandi áráttum. Einkennum fylgir
oft mikil skömm og þekking almennings og heilbrigðisstarfsfólks á þessari
geðröskun er víða takmörkuð. Því er algengt að röskunin greinist seint
eða að einstaklingar fái ranga greiningu. Rannsóknir hafa sýnt að erfða-
þættir eiga þátt í orsökum þráhyggjuárátturöskunar og nýlega hafa komið
fram vísbendingar um að truflanir í tengingum ákveðinna heilasvæða
eigi þátt í meingerð röskunarinnar. Ýmsar sálfræðikenningar um orsakir
röskunarinnar sem studdar eru rannsóknum hafa einnig verið settar fram.
Gagnreynd meðferð er annars vegar með lyfjum sem hafa áhrif á virkni
serótóníns í heila og hins vegar ákveðnu afbrigði hugrænnar atferlismeð-
ferðar sem nefnist berskjöldun með svarhömlun. Þörf er á bættum með-
ferðarúrræðum þar sem allt að þriðjungur einstaklinga svarar meðferð
lítið eða ekki. Hér er lýst tveimur tilfellum þráhyggjuárátturöskunar. Annars
vegar ungum manni með dæmigerð einkenni sem svarar vel hefðbundinni
meðferð og hins vegar miðaldra konu með mikil og hamlandi einkenni sem
ekki svarar hefðbundinni lyfja- og sálfræðimeðferð. Í tilfelli konunnar var
ákveðið að reyna raförvun á ákveðnum svæðum heilans með rafskautum
sem komið var fyrir með þrívíddarísetningu í skurðaðgerð. Um er ræða
meðferð sem er enn á tilraunastigi og hefur verið beitt í alvarlegustu til-
fellum þráhyggjuáráttu sem ekki svara hefðbundinni meðferð.
ÁgrIp
Fyrirspurnir:
Magnús Haraldsson
hmagnus@landspitali.is
Greinin barst
31. júlí 2014,
samþykkt til birtingar
1. desember 2014.
Höfundur hefur
útfyllt eyðublað um
hagsmunatengsl.
Þráhyggjuárátturöskun
– falinn sjúkdómur
Magnús Haraldsson geðlæknir
oft þá veit hann að þetta eru hugmyndir sem spretta
upp í hans eigin hugarheimi og gerir sér grein fyrir því
að þær eiga í raun ekki við rök að styðjast. Þess vegna
eru þessar hugmyndir ekki ranghugmyndir. Þráhyggju-
hugsanir geta hins vegar í vissum tilfellum líkst mjög
ranghugmyndum og jafnvel ofskynjunum.5 Einnig er
þekkt að þráhyggjuárátturöskun er algengari hjá fólki
með geðklofa en í almennu þýði og getur í þeim til-
fellum verið erfitt að greina einkenni þráhyggjuáráttu
frá geðrofseinkennum.6 Algengt er að þráhyggja lýsi sér
sem óljós hugsun um að eitthvað ami að eða sé ófull-
nægjandi fremur en afmörkuð og skýr hugmynd. Rann-
sóknir hafa sýnt að þráhyggja hefur gjarnan ákveðin
meginþemu. Algengast er að þráhyggja snúist um
hættu tengda óhreinindum eða sýklasmiti, hugsun eða
hugmynd um að valda sjálfum sér eða öðrum skaða og
þráhyggja um að hlutir í umhverfi þurfi að vera sam-
hverfir eða í ákveðinni röð.4,7
Áráttur eru endurteknar athafnir eða hugsanaferli
sem eru eins konar viðbrögð við þráhyggju og viðkom-
andi finnst nauðsynlegt að framfylgja af nákvæmni til
þess að draga úr kvíða eða ná einhverri stjórn á þrá-
hyggju. Þessar athafnir eða hugsanir eiga sér engan
endapunkt og leiða ekki til þess að viðkomandi ljúki
verkefnum eða komist að einhverri niðurstöðu. Dæmi
um algengar áráttur eru endurtekinn handþvottur
vegna þráhyggju um óhreinindi eða smit og endurtekin
uppröðun og tilfærsla hluta vegna þráhyggju um að
umhverfi þurfi að vera samhverft (myndir 1 og 2). Hug-
lægar áráttur eru mjög algengar og lýsa sér gjarnan með
því að einstaklingur fer endurtekið yfir ákveðnar setn-
ingar, bænir eða röð orða í huganum. Það er auðvelt að
missa af huglægum áráttum ef ekki er spurt sérstaklega
Y F i R l i T