Frjáls verslun - 01.08.2006, Page 147
F R J Á L S V E R S L U N • 8 . T B L . 2 0 0 6 147
AÐALLISTINN
Leiðakerfið er listgrein
„Starfsemi Icelandair Group byggir á bráðum sjötíu ára sögu. Hluti
hennar er sú mikla þekking og reynsla á flugrekstri sem er til staðar
meðal starfsmanna okkar. Ef hennar nyti ekki við stæðumst við ekki
margfalt stærri keppinautum okkar snúning. Áætlunarflug Icelandair
til 22ja áfangastaða byggist á leiðakerfi með miklum sveigjanleika og
það gefur okkur tækifæri til að bregðast við síkvikum markaði. Að
stjórna leiðakerfinu byggir á aðferðafræði bestunar – og einhverjir
kalla þetta sjálfsagt listgrein,“ segir Jón Karl.
Aðeins um fjórðungur af tekjum Icelandair kemur frá Íslandi en
það er þó þekkt staðreynd í ranni félagsins, segir Jón Karl, að fram-
legð af hverjum flognum kílómetra sé ávallt mest og best í flugi til
og frá Íslandi. Því var í sumar tekin sú ákvörðun að draga á kom-
andi vetri úr vægi ferða yfir Norður-Atlantshafið. Leggja þess í stað
meiri áherslu á flug frá Evrópu og hingað til lands. Markaðurinn
á meginlandinu og í Skandinavíu fari sístækkandi. Hið sama um
markaðinn í Bretlandi. Það helgist meðal annars af aukinni Íslands-
umfjöllun í breskum fjölmiðlum eftir að British Airways hóf flug
hingað til lands. Hún hafi aukið áhuga Breta á Íslandi og þar með
hafi kakan stækkað.
„Við beinlínis þurftum keppinauta á breska markaðnum, svo
farþegum frá Bretlandi og hingað til lands fjölgaði,“ segir Jón Karl.
Félagið á sess í þjóðarsálinni
Enda þótt flugrekstur gangi vel um þessar mundir, eru menn sér
vel meðvitaðir um að aðstæður geta breyst mjög hratt. „Á þessu
ári höfum við glímt við hátt eldsneytisverð, sem nú er reyndar á
niðurleið. Hryðjuverk og heimsfaraldur eru sömuleiðis ófyrirsjáan-
legir atburðir sem menn mega reikna með. Heimurinn getur breyst
snöggt, rétt eins og hann hefur minnkað, en eimitt það gerir flugið
spennandi. Ég finn líka að fólki stendur ekki á sama um Icelandair.
Úti í búð, í líkamsræktinni, á mannamótum og raunar hvar sem ég
fer gefur fólk sér að mér og vill tala um flugáætlunina, þjónustu um
borð, týndar ferðatöskur og svo framvegis – og í öllu falli er þetta til
marks um að félagið á sess í þjóðarsálinni,“ segir Jón Karl Ólafsson
að síðustu.
„Við beinlínis
þurftum
keppinauta
á breska
markaðnum.“
DÓTTURFÉLAG FL GROUP
Afkoma Icelandair Group er góð um þessar mundir, þó elds-
neytisverð sé mjög hátt um þessar mundir og ýmsar aðstæður hafi
verið félaginu allt annað en hagfelldar. Útkoman er hins vegar
góð, ekki síst sakir þess að starfsmenn félagsins þekkja gjörla hvaða
leikaðferð skilar bestum árangri miðað við kringumstæður hverrar
stundar.
Icelandair og Flugfélag Íslands eru þær einingar innan Icelandair
Group sem almenningur þekkir væntanlega best. Félögin Icelandair
Cargo og Bláfugl sinna ýmiss konar fraktflugi, Loftleiðir-Icelandic er
í leiguflugi, Icelandair Ground Services hefur með vallarþjónustu í
Keflavík að gera og Icelandair Technical Services á og selur flugvélar
til félaga víða um heim.
Þá má nefna hótel og ferðaskrifstofu, en alls eru 12 fyrirtæki í
samstæðunni. Alls er Icelandair Group með um sextíu flugvélar í
einhvers konar útgerð, þar af stór hluti á vegum Icelease, sem er fyrir-
tæki í samstæðunni sem annast flugvélaviðskipti á alþjóðavísu.
„Þessi fjölþætting í starfseminni setur breiðari grunn undir rekst-
urinn og dregur úr áhættunni. Jafnframt eru stjórnendur hvers fyrir-
tækis sjálfstæðir og hvattir til þess að taka sjálfstæðar ákvarðanir með
hag síns fyrirtækis í huga,“ segir Jón Karl.