Tímarit Máls og menningar - 01.03.1955, Page 54
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
DÝN. Ég lék mér þar einu sinni í sumarleyfi.
TEG. Ó Klóþó,
Lakesis og Atropos!
DÝN. Það er undarleg hending:
Vera má að ég hafi séð bernsku þína stutta stund.
TEG. Og vera má
að ég hafi litið eitthvað sem líktist ungu blómi
eða ungri stúlku. Gæti ég aðeins munað
hvernig ég sá þig. Varstu að leita að litlu fjólunum hvítu?
Ég hef kannski reikað fram hjá, horft í augu þér
og tæpast skynjað né skilið að stjarna
skein í gegnum mig og býr í blóði mínu æ síðan.
Eða sá ég þig í feluleik í hellinum
þar sem burknar vaxa og vatn drýpur úr þaki?
DÝN. Ég var ósköp ólagleg og feit og oftast
í áflogum. Ég vildi óska ég myndi eftir þér.
Ég öfunda dagana og börnin sem sáu þig forðum.
Þótt undarlegt sé er það ofurlítið sárt
að eiga engan þátt í fortíð þinni.
TEG. Hvernig bar það til
að stjörnur okkar skyldu sameinast seint á degi
fyrir svo löngu, og gleyma okkur síðan og erta okkur
eða horfa hjálparvana á sollinn dimman sæ
skilnaðar okkar, á meðan tíminn drakk
gullvægar stundir? Hver skilur þessi efablöndnu örlög?
DÝN. Tíminn? Tíminn? Hvað erum við annars gömul?
TEG. Ung,
svo er mæðrunum fyrir að þakka, og þó eldri en í nótt,
og þannig eldri en við ættum að vera. Fæddist ég ekki
ástfanginn af því sem ég hafði ekki þroska til að hitta
fyrr en nú? Og ég skal segja þér fleira. Ég fæddist
eingöngu vegna þess; ég fæddist til að fylla skarð
í reynslu þess heims sem hafði aldrei grunað
að Krómis elskaði Dýnamene.
DÝN. Ósköp ertu ákafur,
vesalings Krómis. Og vegna hvers? Hér situr þú
hjá grátinni konu sem skeytir ekki lengur
44