Tímarit Máls og menningar - 01.02.1962, Page 25
MÝRIN HEIMA, ÞJÓÐARSKÚTAN OG TUNGLIÐ
þrátt fyrir kreppu og þrengingar, bægðu böli og skorti frá dyrum almennings.
Þetta væru þakkirnar og brjóstheilindin, endurtók hann með dimmum hreimi
og færðist snögglega í aukana, benti á síðasta ræðumann og kvaðst fagna því
að eiga í höggi við slíkan andstæðing, slíkan málsvara þeirrar ríkisstjórnar,
sem leitt hefði dugandi bændur hópum saman að bitlingajötunni og breytt
þeim á skömmum tíma í jórtrandi kálfa. Ómerk væru ómagaorðin, eins og
kerlingin sagði, enda þyrfti ekki að eyða miklu púðri á vindbelg og angur-
gapa, sem hefði verið staðinn að því fyrir fáum árum að brjóta sjálf fugla-
friðunarlögin. Það væri gaman að vita hvað slíkur skotmaður fengi mörg at-
kvæði, ef hann byði sig fram í dúntekjukjördæmi. Hver treysti honum til að
vernda fjöreggið og stjórna þjóðarskútunni í brimi og boðum, úr því að hann
gæti ekki einu sinni stjórnað byssunni sinni?
Áheyrendur á pöllum hlógu, en aldurhniginn spekingur úr efri deild þokað-
ist til mín og klappaði mjúklega á öxl mér:
Ég sé það á þér, að þú verður einhverntíma þingmaður, hvíslaði hann og
bað mig síðan að reka fyrir sig nokkur erindi, sækja peninga til ríkisféhirðis,
borga iðgjald af líftryggingu, kaupa neftóbak fyrir tuttugu og fimm aura hjá
gamalli sjómannsekkju, sem skar sjálf og seldi ódýrara en verzlanir. Hún býr
í kompu uppi á lofti, og farðu varlega í stiganum góði minn, hvíslaði hann
ennfremur, klappaði mér aftur á öxlina og beinlínis andaði inn í eyrað á mér:
Allir verðum við að spara.
Þegar ég kom úr leiðangri þessum með peninga öldungsins, iðgjaldskvittun
og neftóbak, bjóst ég hálft í hvoru við áflogum í neðri deild, að minnsta kosti
heiftarlegri þrætu, köllum og bjölluklið. En þar var þá dottið á dúnalogn, ein-
vígi berserkjanna lokið, húnvetningur farinn að muldra eitthvað um breyting-
artillögu við fj árböðunarlögin og áheyrendur að tínast út af pöllum. Báðir
berserkirnir sátu inni í svonefndu ráðherraherbergi og hvorugur ófriðlegur,
sá voldugi að reykja vindil, en skotmaðurinn tyrkneska sígarettu.
Sást það á mér?
Ég taldi það fráleitt í fyrstu, en sætti samt lagi að bera kenningu öldungsins
undir misstóra spegla á ýmsum stöðum. Þegar speglarnir tóku því öngvan
veginn fjarri, að ég yrði einhverntíma þjóðkjörinn fulltrúi á elztu löggjafar-
samkundu í heimi, fór ég að hugsa margt og gefa þingmönnum gætur á annan
hátt en áður. Flestir þeirra voru úr sveit eins og ég, sumir prýðilega hagmælt-
ir, höfðu jafnvel birt á prenti saknaðarljóð til holta þeirra og mýra, sem þeir
urðu að yfirgefa þegar þeir fundu köllun hjá sér til að bjarga þjóðarskútunni.
15