Tímarit Máls og menningar - 01.02.1962, Side 28
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
Morguninn eftir skall á mig úrsynningshryðj a þegar ég var að arka inn
Hverfisgötu með dagskrá Alþingis, bleytukafald í fyrstu, en síðan rigning. Ég
veit ekki hvernig á því stóð, að hryðja þessi gerði mér óðara gramt í geði.
Ætlar hann aldrei að stytta upp? sagði ég við sjálfan mig og hvatti sporið.
Það endist ekki til kvölds, sagði ég líka og átti við álegubrotið í buxnaskálm-
unum mínum. Þegar upp stytti og bleikir geislar tóku allt í einu að fálma um
sótuga reykháfa, var mér orðið ljóst að stjórnmálamaður kæmist ekki hjá því
að eiga buxur til skiftanna, þrátt fyrir kreppu og gjaldeyrisskort. Einn jakki
nægði á þessum erfiðu tímum, jafnvel þótt hann væri í þrengra lagi, tvíhneppt-
ur, dálítið snjáður á olbogum og varla hæfilega svartur. Hinsvegar mæddi svo
margt á neðri hluta stjórnmálamanns, sem átti eftir að leita kjörfylgis og fest-
ast í sessi, að tvennar buxur gátu ekki kallazt óspilunarsemi og tilræði við
þjóðarskútuna. Ég hlýddi hugrenningum mínum, fór inn til skraddara nokk-
urs og benti á röndóttar buxur:
Hm, hvað kostuðu þær?
Hann nefndi verðið og bætti við: Saumum þær eftir máli.
Ég saup hveljur.
Gott efni, sagði skraddarinn og þuklaði ástúðlega á buxunum. Mjög gott
efni.
Ég leit undan.
Enskt, sagði skraddarinn og lét þess getið að eigandi þessara nýsaumuðu
buxna væri kunnur stjórnmálamaður, ritstjóri dagblaðs.
Ég andaði því skáhallt á buxurnar, að ég gæti ekki afráðið neitt í svipinn,
hefði einungis viljað forvitnast um verðið, kæmi kannski seinna.
Svona efni nota nú tæplega piltar á yðar aldri, sagði skraddarinn. A ég ekki
að sýna yður —
Ég þokaðist frá honum með húfuna í hendinni, kvaðst vera á hraðri ferð,
bað hann afsaka ónæðið og hlykkjaðist út um dyrnar. Mér var þó ekki unnt að
sætta mig við þessi málalok, svo að ég herti upp hugann rétt hjá Bankastræti,
fór inn til annars skraddara, tók ofan og bauð góðan dag, en svipaðist síðan
um hillur og benti loks á röndóttan stranga.
Fyrsta flokks efni, sagði skraddarinn og horfði á mig eins og ljósmyndavél.
Enskt.
Jafnskjótt og hann nefndi verðið, sem var ívið hærra en hjá hinum, lagði
ég á stað til dyranna, muldrandi niður í bringu mér, að ég væri á hraðri ferð,
þyrfti að athuga málið, kæmi kannski seinna. Það sló ekki lengur bjarma á
þök og rúður, klakkar þrútnuðu í útsuðri, bráðum skylli á ný hryðja. Ég gekk
18