Tímarit Máls og menningar - 01.02.1962, Side 43
MÝRIN HEIMA, ÞJÓÐARSKÚTAN OG TUNGLIÐ
Ég hjálpaði henni að tína saman eitthvert smádót, en forðaðist eins og
heitan eld að snerta sendibréfin, lét sem ég sæi þau ekki, vildi ekki vera hnýs-
inn, einsetti mér að minnast ekki á þau. I næsta vetfangi spurði ég hvort þau
væru frá karlmanni.
Stúlkan smellti aftur töskunni rjóð í vöngum og svaraði ekki undireins,
heldur horfði út í fjarskann, út í tunglslj ósið. Síðan sagði hún mér allt af
létta, að bréfin þau arna hefði hún fengið frá vini sínum, nývígðum guðfræð-
ingi, sem væri aðstoðarprestur í vetur fyrir norðan, en hygðist sækja um
laust brauð sunnanlands og þyrfti að bregða sér hingað upp úr áramótum til
að ráðgast við biskup. Hún gaf mér ótvírætt í skyn, að hún væri farin að telja
dagana: Aðstoðarprestur þessi ætti einnig nokkurt erindi við hana.
Aðstoðarprestur!
Ég held mér sé óhætt að segja, að ég hafi borið mig vel eftir atvikum. Auð-
vitað ákvað ég þegar í stað að gerast einsetumaður og syrgja stúlkuna í kyrr-
þey, unz yfir lyki á myrkri haustnótt í afdal. En einhvernveginn fann ég það
á mér eftir stutta stund, að angurvær saknaðarhljómur í tunglsljósi yrði
straumfallsklið nýrrar skynjunar til ávinnings. Ég sætti mig við orðinn hlut
og horfði vorkunnlátur á þrjá eða fjóra alþingismenn, sem hólkuðust í svarta
frakka og svartar skóhlífar, sáu ekki skipan geimsins fyrir svörtum hattbörð-
um og þrömmuðu niðurlútir út úr húsinu, eins og þeir væru að fylgja ríkis-
sjóði til grafar. Ég var sannfærður um að þeir hefðu aldrei fengið að strjúka
mógullna lokka og gætu aldrei skilið hversvegna ég hafði snúið baki við íþrótt
þeirra á þessu laugardagskvöldi og gefið mig á vald nýrri skynjun.
En mýrin? þykist ég vita að einhver spyrji. Mýrin heima?
Ég skal fara fljótt yfir sögu, hlaupa yfir langan kafla, líklega tvo áratugi.
Þegar ég vissi að stjórnmálamenn hneigðu sig dýpst fyrir marskálkum og
ofurstum, og óttaðist ekki aðeins um þjóðarskútuna, heldur sjálfa mannkyns-
skútuna, og kunni ekki framar að meta snilld þeirra, sem þreyttu einleik í
rangölum eða höfðu klofna tungu, — hver tekur þá að birtast mér í draumi
og halda vöku fyrir mér á næturþeli, hver nema mýrin heima, sem ég hafði
komizt í ósátt við forðum. Hún birtist mér í sólskini og tunglsljósi á ýmsum
tímum árs, stundum ræðin og stundum þögul, stundum bleik fyrir sinu eða
glitrandi fyrir hrímsilfri, en langoftast vafin grængresi, sem þó var ekki full-
sprottið, sumsstaðar prýdd hvítum fífuhnöppum og annarsstaðar mjaðarjurt.
Hún gaf mér stör að tyggja undir djúpum himni og lét svalan kelduleir spýtast
milli tánna á mér, unz ég vaknaði og gat ekki sofnað aftur. Mýrin heima hélt
TÍMARIT máls oc menningar
33
3