Tímarit Máls og menningar - 01.03.1963, Qupperneq 20
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
það mesta að kveikja hugsjónina og fylgja henni áleiðis, meðan hún er ung
og fersk, meðan uppi er fótur og fit og hugir manna fagnandi allt í kring. Hitt
er stórt, að halda henni vakandi, síhjartri og hreinni, eftir að þeir hálfvolgu,
deigu og kjarklitlu tínast á burt, að missa þá ekki ást á henni þegar á móti
blæs en lyfta jafnvel fánanum hæst þegar aðrir láta hann falla eða hlaupast
burt og tvístrast, að halda áfram að ástunda og lesa bækur, eins þó skáldin
falli mönnum ekki jafnt í geð, að missa ekki hverju sem fram vindur trú á
bókmenntirnar og þjóðina, að sjá landið sitt jafnvel í fegursta ljósi þegar mest
syrtir að. Og fyrir það vil ég einmitt flytja ykkur þakkir sem hér eruð að þið
hafið haldið stöðugri tryggð við Mál og menningu hverju sem á hefur gengið.
Það er hægt að snúa við straumi þjóðlífsins, að skapa nýja tíma og bók-
menntunum nýjan farveg og andrúmsloft. Og við byrjum innan félags okkar
að breyta straumnum í réttan farveg. Jurtir þurfa sólarljósið, skáld og rithöf-
undar þurfa líka sólarljósið, samúð og skilning. Með því að breyta andrúms-
lofti þjóðfélagsins og með því að breyta tímunum, breytið þið skáldunum,
breytið þið sjálfum ykkur. Nú sem alla tíma verður að rækta skáldskapinn,
rækta þjóðlífið. Menn segja að skáldin þrái lof. Það er hálfur sannleikur. Þau
vilja framar öllu að orð þeirra hafi áhrif, veki bergmál og eftirtekt. Einmitt
þessvegna er hlutverk hins góða lesanda svo mikilvægt. Skáldin og lesendurn-
ir, það eru tvö segulskaut. Milli þeirra kvikar bókmenntalíf þjóðarinnar.
Mál og menning var ekki stofnuð til að endurspegla heiminn, heldur til að
breyta honum. Nú er það enn okkar hlutverk að breyta þjóðlífinu, endurlífga
skáldskapinn, skapa nýtt andrúmsloft, endurmat á verðgildi hlutanna, setja
manngildið í hásæti eins og verið hefur í allri íslandssögu, skapa samheldni
og félagsanda í stað peningadýrkunar og eigingirni, trúa aftur á skáldin og
hugsjónina, kveikja elda í hjörtunum, endurvekja manndóm og sjálfsvirðingu
þjóðarinnar.
Við vitum af hernum í landinu, vitum um fjötrana á þjóðinni, vitum um
ógnun kjamorkustyrjaldar. En við tökum ekki undir nein örvæntingaróp. Við
vitum um aðra krafta, friðaröldurnar, frelsisbylgjurnar sem flæða yfir heim-
inn, um hinn gróandi akur mannlífsins, höfum séð flug mannsandans, vitum
um hugsjónirnar sem aldrei hafa blikað jafnskært á himni. Herinn mun verða
að hverfa á burt, sólin mun skína aftur inn um dymar, heimurinn mun ekki
farast, heldur mannlífið á j örðinni blómgast.
Þegar við rennum augum yfir starf Máls og menningar í aldarfjórðung, þá
er margs að minnast, margra erfiðleika, er kannski fæstir vita um, en líka
stórra stunda. Það hafa oft verið stórar stundir þegar bækur okkar góðu
10