Tímarit Máls og menningar - 01.03.1963, Qupperneq 46
GUÐBERGUR BERGSSON
Svipmót Spánar
EINHVERN tíma um veturinn 1958, fann ég gamalt póstkort með mynd af
gamalli steinbrú yfir skolugt fljót, konum liggjandi á hnjánum við þvott
fram á fljótsbakkanum, en í baksýn var borg, sem virtist hreykjast uppi á
hæðum með ótal kirkjum. Aftan á kortinu stóð á þremur tungum: Zamora við
Duero. Af einhverjum ástæðum hafði myndin slík áhrif á mig, að ég ákvað
að heimsækja borgina þá um sumarið.
Annan dag júnímánaðar, að mig minnir, tróðst ég móti straumi bæjarbúa
á aðalgötunni, sem safnazt höfðu þar saman til að sýna sig og sjá aðra, þetta
síðdegi, enda sunnudagur og slíkt spænskur siður. Ég tróðst fram hjá Casino,
en fyrir framan það sátu betri borgarar bæjarins á tágastólum og horfðu sín-
um þreyttu og votu peningaaugum á þá, sem fram hjá fóru, skorpnir í framan
og óhagganlegir á svip eins og máttarstólpum ber að vera hvar sem er í heim-
inum. Ég spurði sendil hjá krásabúðinni um ódýrt gistihús og skömmu síðar
stend ég sveittur í anddyri Pension Modema eftir hinn mikla ágang augn-
anna. Fyrir framan mig situr maður á stól og reykir pípu. Hann er á að gizka
rúmlega sextugur, með snjóhvítt hár og markaða andlitsdrætti, virðulegur
eldri maður með svipmót bænda á andlitinu. Hann horfir þegjandi á mig og
ég horfi þegjandi á hann, unz ég býð honum gott kvöld og spyr, hvort hann
sé eigandi hússins. Hann segir svo vera. Ég spyr, hvort hann hafi laust her-
bergi og geti hýst mig í nokkra daga, Hann kveðst ekki vita það, konan hafi
skroppið frá, en býður mér að setjast á stólkoll í anddyrinu, furðar sig á hæð
minni og segir, að rétt sé að bíða konunnar.
Ert þú ferðalangur? spyr hann og hagræðir sér á stólnum.
Já, svara ég.
Þjóðverji?
Nei.
Ameríkani þá?
íslendingur, segi ég.
35