Tímarit Máls og menningar - 01.10.1975, Page 14
Óskar Halldórsson
„... hvernig skal þá ljóð kveða?“
Nokkrar athuganir á Ijóðformi Jóhannesar úr Kötlum.
1
Jóhannes úr Kötlum óx upp með fyrsta gróðri þessarar aldar og átti hlið-
stætt honum rætur í jarðvegi sem aðrar fyrri höfðu myndað. Drengur
heiðarinnar hlaut í frumóði sínum að fylgja þeim lagboðum íslensks ljóðs
sem náð höfðu eyrum hans ungum og raunar entist honum forsöngur
hinna eldri skáldmenna langt fram eftir ævi. Fyrsta Ijóðabókin, Bí bí og
blaka (1926), og síðan hver af annarri í nærri tvo áratugi vitna um ungt
skáld sem gaf sig á vald gamalli ljóðhefð þrátt fyrir ýmis fordæmi eldri
samtíðarskálda sem slegið höfðu tón nýrri tíma, svo að víða hafði heyrst.
Katlaskáldið ruddi sér leið með háttalykli fornra braga, enda „forkur að
ríma“; hljómtöfrar málsins og ljóðið voru honum eitt:
Mildar vagga málsins öldur
minni önd á vængjum þöndum
ofar döpru dægurlífi,
— draumar vaka í stefjablaki.
Skjálfa tærar orðsins elfar,
einskis synja, mjúkar hrynja.
Titrar blítt frá tungurótum
töfrakliður eilífs friðar.1
Þessi braggleði er alveg óblandin í tveim fyrstu bókum Jóhannesar og
í hinni síðari, Alftimar kvaka (1929), kveður meira að rímnaháttum en
áður og eru sumir þeirra alldýrir. I kvæðinu, Séra Matthías, yrkir hann
oddhent:
Þungum móði þrumuljóðin
þeyttu glóð í sál.
1 Háttalykill, Inngangur. Ljóðasafn I, Reykjavík 1949, bls. 29.
124