Tímarit Máls og menningar - 01.10.1975, Blaðsíða 50
Tímarit Máls og menningar
hana niður í svaðið. En sú aðferð virðist vera öðrum vinsælli, þegar menn
eru að koma sínum „til nokkurs þroska“.
Neyzluhvötin er engin sérhvöt mannsins, sem honum ber þar af leið-
andi að setja skör ofar öðrum þurftum sínum. I frumstæðustu mynd -
næringartöku — er hún öllum lífverum sameiginleg. Afskræming hennar,
ofneyzlan, er jafn fjarri því að vera undirstaða MANN-tilveru okkar, þótt
ætla mætti, að hvers kyns hvataþensla sé einmitt staðfesting á yfirburðum
manndýrsins yfir aðrar skepnur skaparans, sem hafa ekki ímyndunarafl
til þess að afbaka hvatalíf sitt til jafns við manninn. I því sé sigurinn fólg-
inn. Ef einhver er svo næmur, að hann láti innræta sér slíka trú, munar
hann varla um að tileinka sér þá viðbótarvizku, að lítið fer að lokum fyrir
yfirburðum þess, sem hefur sigrað sig dauðan, hvaða veg svo sem hann
velur til þess.
Þær hvatir, sem einar fá risið undir því að heita mcmnlegar hvatir, eru
þær, sem aðgreina manninn frá dýrunum. Þetta eru hinar andlegu hvatir
mannsins, sem í senn eru skapnaður og sköpuður hinna illhemjanlegu hug-
taka, sem kallast sál, tilfinningar og vitsmunir, og hér mættu ganga undir
einu og sama heiti að skaðlausu fyrir skilninginn. I þessum hvötum búa
allir hæfileikar mannsins til að reyna lífið og gefa því allt það gildi, sem
lífið framast getur haft. Með hliðsjón af ríkjandi hugsjónum líðandi tíma,
sem m. a. boða ellimæði og ófrumleik mannlegra hvata, er því skiljanleg
hin algenga lífsskynjun, að lífið sé ekki annað en samsafn sundurlausra
orða, samhengislausra atvika og athafna, sem öllum eru óviðkomandi og
marklaus í sjálfum sér, og skilja manninn eftir að því er virðist (og játast
rétt) mun tómari og líf hans tilgangslausara sem hann hefur meiri sam-
skipti við umheiminn. Menn geta varla vænzt þess að upplifa neitt sem
er verðugr, gefur lífinu fyllingu og gerir það merkingarbært, nema þeir
haldi og fái að balda hinum mannlegu hvötum sínum opnum og lifandi
og hafi kjark til þess að vernda séreðli sitt fyrir sívaxandi ofbeldi félags-
„samvizkunnar“ (versus ,,sérvizka“) einkum þegar nefnd samvizka er á
jafn andlausum villigötum og nú. Sé þessum hvötum hins vegar ekki
hafnað af tómri tízkuþægð, getur sá, sem situr á sömu hundaþúfunni allt
sitt líf, orðið mun reynsluríkari en hinn, sem með stíflaðar skynrásir veður
vítt of allan heim og á ekki aðra líftryggingu en auðæfi sín. Það eru
þessar hvatir, sem hafa getið af sér alla heimsins speki og þar með talin
eftirfarandi spakyrði Hávamála:
160