Tímarit Máls og menningar - 01.10.1975, Blaðsíða 18
Tímarit Máls og menningar
hneigðust að hinu opna og útleitna Ijóðformi, en mörg af kvæðum Stein-
gríms Thorsteinssonar, Gríms Thomsens, Jóhanns Sigurjónssonar og margra
yngri skálda sverja sig í hina ættina. Varla þarf að taka fram, að oft
blandast þessi sjónarmið ýmislega saman.
Ekki þarf að fara í grafgötur um hvorri þessari stílstefnu Jóhannes úr
Kötlum fylgdi í upphafi. Þrátt fyrir fastmótaðan brag eru flest hin eldri
ljóð hans mjög lauslega byggð. Honum er að jafnaði meira í mun að koma
draumum sínum, kenndum og boðskap hispurslaust og blátt áfram til skila
en sverfa dvergasmíðar. Hann lætur hugmyndirnar raða sér hlið við hlið,
en kostar síður kapps um að sveigja eina undir aðra eða skipa þeim í
röksamlega fylkingu. Sumum kvæða hans er jafnvel svo farið að erindin
gætu verið í annarri röð en er. I þessari grein skal ekki fjallað um fyrir-
myndir Jóhannesar um kvæðasnið; þó skal áréttað að einnig hér gekk
hann troðnar slóðir 19. aldar.
Með ljóðasafninu Eilífðar smáblóm er líkt og Jóhannes stingi við fót-
um og vilji ekki lengur berast á öldum hins breiða ljóðstraums án þess
að gera neinar tilraunir til formbreytingar. Oll kvæði bókarinnar eru
stutt í samanburði við meðallengd fyrri kvæða, flest þrjú til fimm erindi
og í þeim eru engin formleg þáttaskil eins og algengt var í eldri ljóð-
unum. Bókin vitnar í heild um breytta formhneigð eins og skáldið hafi
nú sett sér þá meginreglu að kveða stutt, afmörkuð ljóð þar sem lýriskar
eigindir sætu í fyrirrúmi. Reyndar eru slík kvæði ekki fá í tveim fyrstu
bókunum, en hlutu að þoka um set fyrir baráttuljóðunum þegar þau voru
leidd til öndvegis. Þó munu smáljóð eins og Brot og Vorið góða í Samt
mun ég vaka lifa lengur en mörg þeirra sem arnsúginn draga. Eilífðar
smáblóm eru framhald þessarar Ijóðagerðar og jafnast á við eldri kvæði
skáldsins í sama stíl, en um framför er þó varla að ræða, þegar litið er á
bókina í heild. Kristinn E. Andrésson sagði um hana m. a.:
Á bókinni í heild er frekar einlitur blær, og ýmsir beztu kostir skáldsins
njóta sín þar ekki. Hin einföldu lýrisku smákvæði krefjast sérstakrar list-
fengi, sem getur brugðizt hjá skáldinu. Mörg kvæðin skortir nægan sér-
kennileik, sjálft augað fyrir yrkisefninu er ekki nógu glöggt eða viðhorfið
til þess, og ekki nógu hnitmiðað orðaval.1
Vel má vera að Kristinn hafi saknað baráttuljóða þegar hann las Eilífð-
ar smáblóm. Eigi að síður hefur hann á réttu að standa um þann herslu-
1 Kristinn E. Andrésson: Islenzkar nútímabókmenntir, Reykjavík 1949, bls. 136.
128