Tímarit Máls og menningar - 01.10.1975, Page 29
W. D. Valgardson
í Manítóba
Þegar mennirnir komu inn í eldaskálann, gengu þeir að borðinu, drógu
fram stóla, settust og byrjuðu að fá sér mat af fötunum, sem borin höfðu
verið fram. Haraldur Walk var lágvaxinn, sinaber maður um fimmtugt.
Hann var náeygur og hökumjór. Hann fékk sér þrjú egg af fatinu og skeytti
engu um vanþóknunarsvip húsbónda síns þegar hann teygði sig eftir því
fjórða.
„Það er verið að spyrja um þig, Valdi.“
Valdi Guðmundsson, sem átti verstöðina, hafði verið að horfa á Rúnu
konu sína ganga frá samlokum í svartar nestistöskurnar. Hann stóð á fæt-
ur og horfði út um hliðargluggann, en þar var ekkert að sjá utan þetta
venjulega, braggalaga snjóbílinn inni í hrörlegu skýli, sem klætt var með
rifnum plastdúk, nokkra heybagga, eldiviðarstafla, dráttarvélina. I kring-
um eldiviðarstaflann var allt á kafi í fíngerðu sagi, annarstaðar var jörðin
uppspörkuð og tætt og hafði stirðnað og frosið í þeim förum. Morgunsólin
var að byrja að lita efstu trjátoppana gula og rauða, en neðar voru skugg-
arnir dimmir og djúpir.
„Hvar? Eg sé engan,“ svaraði hann með óánægju í röddinni.
„Bak við dyrnar,“ sagði Haraldur og benti með gafflinum.
„Það er Indíáni.“
Valdi horfði tortrygginn á Harald, eins og hann grunaði hann um
græsku.
„Hvað er hann að vilja? “
Haraldur yppti öxlum. „Ég veit það ekki, ég spurði hann ekki.“
Valdi horfði á hina mennina fjóra, sem grúfðu sig yfir diska sína. Þeir
voru með of fullan munninn til að tala, en tveir þeirra staðfestu orð Har-
alds með því að kinka kolli. Valdi sneri sér aftur að eldhúsbekknum. Rúna
gekk frá hitabrúsunum niður í nestistöskurnar og lokaði þeim. Aður en
mennirnir höfðu lokið við að gleypa í sig morgunmatinn stóðu þeir á fætur
og flýttu sér út.
139