Tímarit Máls og menningar - 01.10.1975, Page 51
Þrotabú mannlegrar reynslu
Auðugur þóttist
er ég annan fann:
Maður er manns gaman.
Þessi orð eru staðfesting og óttalaus játning þess manns, sem enn er
ekki aldauða að mannhvötum, og viðurkennir fyrir hönd hinna blygðunar-
samari, að menn hafi þörf fyrir að umgangast hver annan eins og menn
en ekki eins og neyzluvörur. Samskipti manna á neyzlugrundvelli eru
skemmandi en ekki skapandi og hljóta að enda í andlegri óðatæringu, þar
eð þau miða að óvirkni allra annarra hvata en þeirrar, sem er nauðsynleg
viðgangi neyzlukerfisins, - gleypihvatarinnar. Þau miða að persónuleika-
útrýmingu, sem er raunar bein afleiðing hinnar andlegu hvatatæmingar,
sem neyzluþjóðfélagið byggist á.
Þegar svo er komið, að maðurinn er búinn að glata hæfileikanum til
þess að verða fyrir lífrænum áhrifum af tilverunni, eða gerræðisleg tízku-
öfl hafa svipt hann skilyrðum til þess, þá er lífið í raun og veru búið.
Maðurinn hefur náð hámarki afeðlunar sinnar. En „communis error facit
jus“, sögðu gömlu Rómverjarnir, og kannski er sameiginleg vegvilla fjöld-
ans eina lausnarleið mannkynsins.
iitmm
161