Tímarit Máls og menningar - 01.05.1986, Blaðsíða 66
Timarit Máls og menningar
Ég veit það, mamma. Ég sæki klárinn og söðla meðan karlinn
drekkur. Tíminn líður og það kvöldar. Þótt blindum sé í rauninni
sama hvort hann ferðast á nótt eða degi, sagði Felípe yngri við sjálfan
sig á leið út í gripagarð.
4.
Ljós voru slökkt og þögn ríkti í matsalnum. A kvöldin var fátt um
manninn. Osin var á hádegi. Blindinginn fékk þess vegna næði þegar
Felípe Alvísúres yngri leiddi hann við arm sér í matsalinn og settist
við borð. Tvö svört augu undir dökkum augnalokum litu á piltinn,
full af vonarglóð.
Má bjóða yður eitthvað? spurði Lída Sal þegar hún þurrkaði með
tusku af gömlu borði sem var slitið af árum og brennivíni.
Nokkra bjóra, svaraði pilturinn. Og kannski brauð með kjöti —
tvær sneiðar.
Stundum dúaði gólfið undir dökkleitu stúlkunni, en það var þó
það eina sem hún stóð á föstum fótum. Hún fékk andþrengsli og gat
ekki leynt því. Þegar færi gafst snerti hún öxlina á Felípe með
nöktum örmum og stinnum brjóstum undir blússunni. Henni gafst
oft færi á að nálgast piltinn þegar hún bar fram freyðandi bjórglös og
diska með brauði og kjöti.
Hvar sofið þér? spurði pilturinn blindingjann. Bráðum fer ég.
Einhvers staðar. Stundum hýsa þau mig hérna í matstofunni. Ekki
satt, Lída Sal?
Jú-hú, stundi stúlkan. Og með meiri erfiðismunum stundi hún
upp hvað bjórinn og brauðið kostuðu.
Hún holaði lófann þar sem hjarta hennar skalf, og hún kreisti
skotsilfrið sem pilturinn borgaði með. Það kom volgt úr pyngju sem
hafði snert líkama hans. Stúlkan fékk ekki við neitt ráðið og bar
peningana að vörunum og kyssti. Eftir kossinn strauk hún þeim um
andlit sér og geymdi milli brjóstanna.
Reiðhestur Felípe Alvísúres yngra brokkaði gegnum blinda nótt, í
myrkri nátta sem koma og kveðja, koldimmar og svartar eins og
skólatafla. Hestinn bar hratt yfir og á eftir honum hljóp klárinn sem
blindinginn hafði riðið.
Mér finnst skelfing erfitt að hefja máls á einhverju innan um
steinþegjandi hluti, sagði Jójón.
192