Tímarit Máls og menningar - 01.05.1986, Síða 81
Þrjú gögn
skáldlegs frjálsræðis. Þá er eftir Halldór Stefánsson og Sigurður Gröndal.
Halldóri eigum við að geta treyst til að yrkja fullkomlega byltingarsinnað
og verðum að gera kröfu til hans að taka þegar upp baráttustefnuna.
Sigurður Gröndal er ennþá allhvikull, en hann hefir ort sögu, sem að efni og
viðhorfi er alveg í anda byltingarinnar. Krafan til hans er sú, að hann festi
sig við þá stefnu og sjái hlutverk sitt þar.6 Þessi skáld eiga að geta unnið
mikið gagn í verklýðsbaráttunni, og m. a. gegn um þetta félag greitt götu
þeirra, sem síðar verða hinir hreinræktuðu liðsmenn byltingarinnar. Og við
verðum að gera okkur fullljóst, að mesta rækt verðum við að leggja við þau
skáldin, sem á næstunni vaxa upp í stéttabaráttunni, það verða hin skapandi
verklýðsskáld, þau, er grundvöllinn verða að leggja undir verklýðsbók-
menntirnar. Við getum í þessu efni gert okkur allmiklar vonir um Stein
Steinarr, sem jafnframt því að yrkja tekur virkan þátt í stéttabaráttunni, eða
Arna Guðlaugsson, er semur leikþætti út frá daglegri baráttu verkalýðsins
og er í náinni snertingu við baráttuhræringar hans. Hér er ekki um það að
ræða, að menn hafi gefið út bækur og hlotið borgaralega viðurkenningu.
Hér er að ræða um aðstöðu manna og aðferðir. Við verðum að treysta á þá,
sem ennþá eru ekki komnir fram, götu þeirra verðum við fyrst og fremst að
greiða.
Og það er ekki vandi að sjá, hvernig þróunin verður framvegis. Það
verður erfiðara og erfiðara að halda hlutleysisgrímunni. Nokkur hluti
borgaraskáldanna verður að fara að sýna hið rétta innræti sitt, fara að taka
upp meira og meira af hugmyndum fasismans, önnur verða áfram látin villa
þjóðinni sýn með alþýðusmjaðri, átthagadýrkun, dulspeki, spiritisma, frið-
arflutningi, trúræknisboðskap o. s. frv. Hins vegar vex fylking hins
byltingarsinnaða verkalýðs og skapar verklýðsskáld og dregur nokkur
borgaraskáldin með sér. I þessari þróun á félag byltingarsinnaðra rithöfunda
mikið hlutverk að vinna, og fyrsta verkefnið er eins og hér hefir verið bent á
að gera sér þess skýra grein hverir eru í raun og veru liðsmenn byltingar og
hverir eru hættulegustu fjandmennirnir, svo að ádeila okkar á borgaraskáld-
in verði ekki tóm vindhögg.
Annar höfuðþáttur í hlutverki byltingarsinnaðra rithöfunda er hin skap-
andi starfsemi í þágu byltingarinnar, þ. e. hið jákvæða, uppbyggjandi starf.
Þar er mest undir því komið, að við eignumst hina skapandi krafta og
kunnum að draga þá til okkar, og í öðru lagi, að við beitum hinum réttu
aðferðum í starfi okkar.7 Takmarkið er að skapa okkur þann grundvöll, að
við náum til lesendanna og það vald, að skoðanir okkar verði ráðandi.
Það er verklýðsbaráttan sjálf, sem skáldin verður að skapa, en hlutverk
okkar er að ná til þeirra, hafa eflandi áhrif á þroska þeirra og kveðja þeim
hljóðs.8 Við verðum strax að framkvæma það stefnuskráratriði okkar að
207