Tímarit Máls og menningar - 01.05.1986, Blaðsíða 87
Minnissnifsi
Þessi maður segir stundum alveg sömu orðin þannig að í eitt skipti
bera þau viðurkenningu, annað skipti nístandi háð. Líkt og orðið ka í
máli búskmanna við jaðar Kalaharíeyðimerkurinnar í þúsund metra
hæð yfir hafi, það er í Afríku. I hárri tóntegund þýðir það að éta, í
millitón að svifta, en ef röddin er djúp sem segir þetta orð ka þá þýðir
það að streyma fram einsog uppspretta. Þannig kann enginn maður
einsog þessi maður að nota orðin margvíslega einsog hann gerir í
bókum sínum, að gjörnýta möguleika hinna smæstu orða: eitt lítið ha
getur haft hinar fjölbreytilegustu merkingar, eftir því hvar það
stendur, af því sem er í kringum það, það getur verið lykilorðið á
hábungu sögubyggingarinnar.
En í samkvæmi þá er hægt að tala til þess eins að fá að heyra,
hlusta.
Já ég sá Rundetárn um fermingu, segir hann. Það skoða náttúrlega
allir Rundetárn um fermingu. Ef menn sjá ekki Rundetárn um
fermingu þá sjá þeir náttúrlega aldrei Rundetárn. En Guggenheim-
safnið, í því er gat niður úr í miðjunni, þar sem ásinn gengur í
gegnum Rundetárn að neðan og upp úr og gangurinn er utan um
hann. I Guggenheim, þar er bara gat. Og myndirnar hanga á svona
meterslöngum stálarmi sem teygist út úr veggnum. Einsog hand-
leggur sem skákar því að manni. Neðst eru íhaldsmennirnir sem þeim
finnst Picasso vera núna. Og Braque. Þessir kallar. En ofantil er þetta
nýja sem núna er aðalatriðið. De Kooning. Hann er ekki til á neinum
pappírum. Það er eini maðurinn í heiminum sem ekki er hægt að
sanna að sé til. Hann hvarf einhverntíma úr Hollandi fyrir mörgum
áratugum og síðan hefur ekki spurzt til þessa De Kooning. En svo er
maðurinn sem hefur verið þrjátíu ár í Ameríku án þess að hafa
nokkra pappíra . . . . nú er þetta heimsfrægur málari. En það er ekki
hægt að sanna að hann sé til á neinum pappírum. Ef hann ferðast
eitthvað þá fær hann bara smámiða í vasann. Og Soulages. Hann
gerir svo breið strik með penslinum. Löng og breið, alltaf sami
styrkleikinn í þeim. Nú er hann á toppnum. Fólk sem þekkir ekki list
og vondir listamenn segja: þetta geta allir gert, það er ekki mikill
vandi. Jæja, sögðu þeir í safninu: OK. Og settu upp verðlaunasam-
keppni. Gjörið svo vel. Málið þið þá einsog Soulages. En þeir geta
það ekki. Það verða bara klessur og skellur.
Svo hann er þá ennþá sjampíon?
213