Tímarit Máls og menningar - 01.05.1986, Qupperneq 91
Um strammaskáldskap Málfríðar
því listir elskaði hún umfram önnur menningarfyrirbæri. Allt hennar líf
snerist um list. Var hún vel að sér í öllu er menningu, fagurfræði, bók-
menntir og alla heimslist snerti.
Þegar Málfríður fór fyrstu ferð sína til Kaupmannahafnar um 1920
kenndi hún sjúkdóms þess, sem síðar átti eftir að kvelja hana um áraraðir,
berklanna. „Þessi dauðans kyrrstæða líktist ákaflega löngum og breiðum
flóa, þar sem eiturgufur stíga upp í loftið, en svartir hrægammar úr Neðra
svífandi yfir í leit að sálum til að hrekkja þær.“ (Sst. 272) Um 1930 fór Mál-
fríður fyrstu ferðina „til að bjarga lífinu“ til Kaupmannahafnar og dvaldi á
Ljóslækningastofnun Finsens. Læknum hér heima gekk erfiðlega að hemja
sjúkdóminn, og hún segir:
Fyrir bragðið komst ég burt tvívegis og til þess lands þar sem sólskin er
heitara en á Islandi, og þar tók ég upp nýstárlegan skáldskap, strammaskáld-
skapinn, fyrir atbeina góðrar konu, og munaði þó minnstu að maður hennar
hefði betur og tækist að spana mig út í að fara að skrifa langar bækur.
Strammaskáldskapurinn varð mér holl og fögur íþrótt, og það var tilætlunin
að ég legði niður í hana alla eymd og slor sem á mannslífi getur mætt, en hvort
það hefur tekist verða þær frúr, sem eiga því láni að fagna að eiga þessa gripi,
að dæma um, svo og gestir þeirra, sem fá að gleðja augun við þessi meistara-
verk á meðan þeir standa við.
Þar kom að strammaskáldskapurinn fullnægði mér ekki og fór ég aftur að
skrifa — skrifa. (Sst. 298)
Hér á Málfríður við Jón prófessor Helgason og konu hans, og verður vikið
nánar að þeim seinna.
Hvað heilsunni viðvíkur kom hún smátt og smátt og minnist undirrituð
þess að einhvern tíma undir 1960, sagði Málfríður heima í stofu hjá sér: „Nú
er ekkert að mér, nema að mig vantar eina tönn.“
Hún segist hafa verið ung þegar sú hugmynd fór að brjótast í henni að
skrifa bækur, þó ekki væri nema eitt lítið ljóð á blaðsnepli.
Enga konu íslenska segist hún hafa vitað sem slíkt hefði reynt, nema
Torfhildi Hólm. Hún komst að því að Selma Lagerlöf hefði ekki gengið
annan menntaveg en í kennaraskóla, þess vegna sýndist henni ráðlegt að
ganga í Kennaraskólann í Reykjavík til að búa sig undir ritstörfin. „Og ekki
gafst ég upp við þessa hörmung, heldur drakk ég þann kaleik í botn.“ (Sst.
291)
Hún las og las og skrifaði og þýddi úr ýmsum tungumálum. Ekkert
birtist þó opinberlega og um hríð lagði hún skriftir að mestu á hilluna, „mér
fannst óþarft að hafa pappír og blek að millilið . . . en réttara að þær
[hugsanirnar] færu beina leið út í bláinn. Hugsanir hef ég margar sem
217
L