Tímarit Máls og menningar - 01.05.1986, Page 101
Kristján G. Arngrímsson
Jarðarför að hausti
Veturinn hafði byrjað daginn áður og það var ennþá ofankoma þegar
ég mætti við líkhúsið um morguninn. Það átti að flytja kistuna til
kirkju. Eg hafði ekki klætt mig í samræmi við nepjuna og það var
hrollur í mér — ég varð að bíta á jaxlinn tilað tennurnar glpmruðu
ekki. Við vorum fjórir, líkberararnir, allir tengdir líkinu á sáiua hátt,
hann hafði verið afi okkar allra. Samt voru engir okkar bræður. Þetta
var með ráðum gert, hafði orðið að samkomulagi að hver fjölskylda
ætti einn fulltrúa við líkburðinn.
Það munaði litlu að ég heilsaði þeim með hressilegri athugasemd
um veðrið en alvaran í svip þeirra gerði mér ljósan þann hátíðleika
sem á deginum hvíldi. Þeir vottuðu mér samúð sína — við tókumst í
hendur einsog samninganefnd í upphafi fundar. Hikandi endurgalt
ég samúðarvott þeirra og uppgötvaði að kuldalegur októberdagurinn
var dagur hinnar formlegu sorgar. Samt hafði afi þá legið dauður í
heila viku og enginn verið að hafa sérstaklega fyrir því að vera
sorgmæddur. Fyrr en í dag. Einsog allir hefðu sínkróníserað úrin.
Maðurinn á líkbílnum kom og opnaði líkhúsið. Hvít kistan olli
mér einhverri líðan sem ég hafði ekki kynnst fyrr en þá, svo
óendanleg virtist hún þarna í lífvana andrúmsloftinu, umlukin gráum
veggjum sem endurvörpuðu fölri haustbirtu frá litlum glugga. Við
einn kistunaglann var festur miði með nafni afa míns svo að við
myndum örugglega jarða hann en ekki af misgáningi einhvern alit
annan.
Þöglir gripum við frændurnir í handföngin á kistunni. Þau voru
ósköp veigalítil og eitt andartak hvarflaði að mér að þau myndu
brotna af þegar við lyftum kistunni. Líkbílstjórinn virtist beinlínis
hneykslaður þegar við ætluðum að setja kistuna öfugt inní líkbílinn
— hinsegin, hinsegin, hvíslaði hann fljótmæltur einsog hann væri að
skikka smábörn.
227